Við þurfum öflugan jafnaðarflokk til mótvægis við Sjálfstæðisflokkinn

Sókn Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum er ánægjuleg tíðindi enda afar mikilvægt að hér á landi sé til einn stór jafnaðarflokkur sem mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Slíkur jafnaðarflokkur, sem sameinar áhersluna á jöfnuð, jafnrétti, velferð og umhverfismál, við ábyrgð í efnahagsmálum, samkeppnishæf starfsskilyrði og nýsköpun í atvinnumálun, frjálslyndi og viðskiptafrelsi, er mikilvæg kjölfesta við myndun ríkisstjórna sem leggja aðrar áherslur en hinar hefðbundnu helmingaskiptastjórnir hafa lagt.

Því stærri sem jafnaðarflokkurinn er, því líklegra að núverandi ríkisstjórn falli.

Til að binda enda á nær samfelldan valdatíma íslensku hægriflokkanna og koma á ríkisstjórn sem hefur jafnaðarstefnuna til öndvegis þarf einfaldlega einn öflugan jafnaðarflokk. Varla þarf annað en að velta því fyrir sér andartak hvort sé vænlegra til árangurs einn 40% flokkur eða átta 5% flokkar með svipuð áherslumál.

Stórir stjórnmálaflokkar rúma líka mismunandi viðhorf og áherslur en það er ekki veikleiki þeirra að þurfa að komast að niðurstöðu um stefnu og framkvæmdaáætlanir eftir leikreglum lýðræðis heldur styrkur. Dæmi um þetta er hin skýra stefna íslenska jafnaðarflokksins sem lögð er fram fyrir komandi kosningar 12. maí.

Íslenski jafnaðarflokkurinn er stofnaður til að sameina allt jafnaðarfólk, félagshyggjufólk og kvenfrelsissinna í einn öflugan vettvang sem hefur mátt til að breyta. Þess vegna er það umframallt gengi þess flokks í kosningunum sem mun ráða úrslitum um hvað tekur við.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Samfylkingin aftur fram úr VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afnám sérstakra ofureftirlaunaréttinda ráðherra og þingmanna samþykkt á landsfundi

Í samþykktri stjórnmálaályktun Landsfundar Samfylkingarinnar, sem og í stefnuræðu formanns kemur skýrt fram að flokkurinn muni taka upp hin umdeildu eftirlaunalög sem í reynd búa til tvær þjóðir í landinu eða yfirstétt sem er svo fjarri því að deila kjörum sem landsmönnum að það sker í augu.

Landsfundur Samfylkingarinnar hefur því samþykkt afdráttarlausa stefnu og kosningaloforð í þessu máli.

Eftir þá afdráttarlausu afgreiðslu er sérkennilegt að sjá hér í frétt Mbl.is að sú afgreiðsla landsfundarins að taka ekki til afgreiðslu eina mögulega útfærslu á frumvarpi til laga um breytingar á málinu sé túlkuð sem eitthvert hik. Vitnað er óbeint til orða Kristrúnar Heimisdóttur, formanns alsherjarnefndar, þess efnis að vilji flokksins hafi komið skýrt fram á fundinum "m.a. " í stefnuræðu Ingibjargar Sólrúnar. Þeir sem voru á staðnum vita að Kristrún lagði megináherslu á að samhljóða atriði væri í stjórnmálaályktun flokksins auk þess sem hún nefndi stefnuræðuna. Í frétt Mbl.is er þetta meginatriði hins vegar falið á bakvið skammstöfunina m.a. sem er miður gagnvart lesendum sem vilja vitaskuld fá sem réttasta mynd af gangi mála.

Við afgreiðslu stjórnmálaályktunar og í stefnuræðu formanns var ekkert hik. Stefnan og markmiðið er skýrt og afgreitt af æðsta valdi í málefnum Samfylkingarinnar.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Hart deilt um meðferð tillögu um eftirlaunafrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðlindanýting og nýtingarréttur í héraði

Skyldi þessi afgreiðsla sveitarstjórnarinnar í Skagafirði boða þá almennu áherslubreytingu sveitarstjórna að auðlindanýting verði í þágu atvinnuuppbyggingar í héraði?

Sú ákvörðun að setja virkjanirnar inn á skipulag var upphaflega tekin til að umfang og eðli framkvæmdanna lægi fyrir og að á þeim grundvelli gætu Skagfirðingar tekið ákvörðun um hvort vilji þeirra stæði til slíkrar nýtingar.

Ef upp eru komnar hugmyndir um breytt umfang sem hafa mun minni áhrif á náttúru og ferðaþjónustu auk þess sem ætlunin er að skerpa á nýtingarrétti Skagfirðinga sjálfra er skiljanlegt að svona breið þverpólitísk samstaða hafi náðst um að fresta því að setja þessar virkjanir inn á skipulag. Það er afar mikilvægt að Skagfirðingar og aðrir unnendur þessara náttúruperla hafi allar forsendur til að meta hvort fallist verður á skipulag sem gerir ráð fyrir virkjunum eða ekki.

Auk þess er að myndast mjög breið pólitísk samstaða um að út frá bæði efnahagslegum rökum og náttúruverndarsjónarmiðum sé rétt að hægja á hraða stóriðjuuppbyggingar.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Skagafjörður: Samþykkt að fresta skipulagningu hugsanlegra virkjunarsvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilflutningur skattbyrði niður tekjustigann er útreiknanleg staðreynd, ekki staðhæfing

Líklega er full ástæða til að efast um að hér sé rétt haft eftir jafn talnaglöggum manni og Geir H. Haarde: "Sagði Geir að stjórnarandstaðan hefði nú gefist upp á að halda á lofti óréttmætum sjónarmiðum um skattahækkanir og aukinn ójöfnuð í íslensku samfélagi". Tilflutningurinn á skattbyrði niður tekjustigann þar sem hinir tekjulægri tóku á sig þyngri byrðar til að niðurgreiða lækkun skatthlutfalls fyrir þá sem betur stóðu er útreiknanleg staðreynd, þetta er einfaldur reikningur, ekki staðhæfing.

Þegar skattleysismörkum er viljandi haldið eftir svo þau fylgja ekki verðlagsþróun, hvað þá launaþróun blasir við að skattbyrði allra þeirra sem eru með tekjur um og nokkuð yfir skattleysismörkum þyngist

Allt er þetta gangverk útskýrt á einkar einfaldan og aðgengilegan hátt í nokkurra ára gömlu Upplýsingariti ASÍ um skattkerfið sem sækja má á pdf formi. Þar er m.a. eftirfarandi skýringarmynd af samspili skattleysismarka og launabreytinga. Í þessu tilbúna dæmi hækka laun um 10% en skattleysismörkin þróast með mismunandi hætti:

skattar

Laun fyrir hækkun eru í dálkinum til vinstri, mismunandi hækkun skattleysismarka í efstu röðinni undir gulu pílunni og sú hækkun ráðstöfunartekna sem 10% launahækkunin skilar mismunandi tekjuhópum er í dálkunum fjórum þar fyrir neðan.

Eins og sést munar langmestu fyrir þann sem lægst hefur launin hvort skattleysismörkin fylgja launaþróun eða standa í stað. Munurinn á hækkun ráðstöfunarteknanna er frá því að vera 2,4 prósentustig miðað við að skattleysismörkin hækki ekkert og upp í að allir fá sömu kjarabætur ef skattleysismörkin fylgja launabreytingunni. Mismunurinn á öllum tölunum í fyrri dálkunum þremur og þeim síðasta rennur í ríkissjóð í formi aukinna skatttekna og hlutsfallslega hærri skattbyrði.

Fyrir þá sem hafa hærri tekjur skipta breytingar á skattleysismörkum litlu máli og mun minna en t.d. sjálf tekjuskattsprósentum. Fyrir hina tekjulægri er dæmið öfugt.

Þetta var leiðin sem notuð var af núverandi ríkisstjórn til að fjármagna lækkun skatthlutfallsins. Hlutfallsleg þynging skattbyrði neðst í tekjustiganum greiddi niður lækkun skatthlutfallsins sem skilaði hinum tekjuhærri mestum kjarabótum. Brotpunkturinn, þ.e. launaupphæðin þar sem lækkun skatthlutfallsins fór að skila meiru en sem nam þyngingu skattbyrðar vegna skattleysismarkanna reyndist furðu hár skv. upplýsingariti ASÍ.

Í raun hefur verið dregið úr jöfnunarhlutverki tekjuskattskerfisins og ójöfnuður þannig beinlínis markvisst aukinn. Þetta snýst hvorki um Gini stuðla né þrætubókarlistir Hannesar Hólmsteins heldur staðreyndir.

Forsenda þess að hægt er að halda uppi deilum um borðleggjandi og útreiknanlegar staðreyndir er væntanlega að hvorki gagnrýnir fjölmiðlar né almenningur setjist niður og reikni út úr dæminu. En að sjá svona haft eftir forsætisráðherra er bara dapurlegt og lýsir litlum vilja til að takast á við það verkefni að koma til móts við þá sem orðið hafa fyrir þyngingu skattbyrða.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Geir: Eðlilegt að ríkið tryggi öllum lágmarkslífeyri úr lífeyrissjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrg hagstjórn forsenda vaxtarskilyrða atvinnulífs um allt land

Á aðeins nokkrum dögum hefur jafnaðarflokkur Íslands kynnt ítarlega stefnu í málefnum barna, vandaða efnhagsúttekt starfshóps undir forystu Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi Seðlabankastjóra og forstjóra Norræna fjárfestingabankans og nú síðast útfærðar málefnatillögur fyrir landsfund þar sem m.a. er lög mikil áhersla á átak í samgöngumálum.

Fyrirsjáanleg viðbrögð eru þau að það samrýmist ekki því mikilvæga markmiði um að draga úr þenslu og ná jafnvægi í efnahagslífinu að boða til átaks í samgöngumálum. Af einhverjum ástæðum hefur ekki farið mikið fyrir því að boðað átak sitjandi samgönguráðherra í samgöngumálum þyki líklegt til að valda þenslu, ekki einu sinni þótt flokkur hans vilji helst sjá enn frekari stóriðjuuppbyggingu og skattalækkanir, allt á sama tíma. Munurinn liggur kannski í því að kjósendur eru steinhættir að taka loforð ríkisstjórnarflokkanna eða áætlanir í samgöngumálum trúanlegar. Það kæmi ekki á óvart í ljós reynslunnar.

Staðreyndin er hins vegar sú að með því að fresta ákvörðunum um nýjar stóriðjuframkvæmdir og með því að leggja áherslu á samstarf um að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum skapast svigrúm til að treysta innviði samfélagsins og bæta skilyrðin til uppbyggingar atvinnulífs um land allt. Samgöngumálin eru bæði einn mikilvægasti og arðbærasti þátturinn í því.

Tillögurnar um fjórföldun framlaga í samkeppnissjóði til eflingar sprota- og hátæknifyrirtækjum er í fyrstu hrein útgjaldatillaga en þegar fram í sækir er þetta, ásamt eflingu menntunar og rannsóknarstarf, ein arðvænlegasta fjárfesting í atvinnustefnu sem hægt er að gera. Með því að skapa atvinnulífi um land allt vaxtarskilyrði er verið að hugsa til framtíðar og það er skylda stjórnmálaflokka.

Það er fráleitur málflutningur að áhersla á að slá á þenslu og ná á ný jafnvægi í hagkerfinu þýði að hið opinbera hljóti á sama tíma að láta allar brýnar og arðbærar endurbætur sitja á hakanum. Oft hefur verið bent á að það sé einmitt eitt af hlutverkum ríkisins að jafna eftirspurn og sveiflur með því að tímasetja sínar stórframkvæmdir þannig að þær taki í kjölfar þenslu þegar á hægir.

Vandaður málefnaundirbúningur Samfylkingarinnar og raunsætt stöðumat sýnir að jafnaðarfólk er fullkomlega meðvitað um þann vanda og þau verkefni sem framundan eru fyrir næstu ríkisstjórn. Þeir sem loka augum fyrir þeim vanda sem við blasir en birta bara loforðalistana eru einfaldlega ekki trúverðugir.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Samfylkingin vill stórátak í samgöngumálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkuvinnsla er þekkingariðnaður - Samorka býr sér til "strámann"

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, hafa tekið saman áhugaverðar tölulegar upplýsingar um hið mikla rannsóknarstarf sem fram fer á vegum íslensku orkufyrirtækjanna og þá þekkingu sem þar verður til. Þetta er ánægjuleg staðfesting á því sem flestir gera sér fulla grein fyrir.

Erfiðara er að átta sig á því í hvað Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, er að vísa þegar hann segir: "Því er engin innistæða fyrir því að stilla þeim upp sem andstæðu við þekkingarfyrirtæki. Sá söngur hefur hljómað lengi, verið hávær, en er rammfalskur, starfsfólk fyrirtækjanna verðskuldar ekki þá neikvæðu umræðu."

Hver hefur verið að syngja hátt og rammfalskt um að íslensku orkufyrirtækin séu andstæða þekkingarfyrirtækja? Árni Páll Árnason, frambjóðandi Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, segir m.a. í grein um samtvinnun náttúruverndar og framsækinnar atvinnustefnu: "Við munum áfram þurfa að nýta orkuauðlindir okkar til verðmætasköpunar, eins og aðrar auðlindir. Þekking okkar á endurnýjanlegri orku er að verða verðmæt útflutningsvara."

Hugsanlega er verið að vísa til tilboðs Samtaka iðnaðarins og Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja um "Þriðju stoðina" þar sem bent er á að í kjölfar markviss stuðnings hins opinbera við uppbygging sjávarútvegs og síðar stóriðju sé röðin komin að hátækniiðnaði. Undir þetta hafa t.d. jafnaðarmenn tekið og viljað leggja megináherslu á að efla starfsskilyrði og samkeppnishæfni íslensks þekkingariðnaðar, þ.m.t. orkufyrirtækjanna.

Hugsanlega er líka verið að rugla saman gagnrýni á þá atvinnu- og efnahagsstefnu að ýta undir afar hraða uppbyggingu stóriðju án nægilegra mótvægisaðgerða sem skilar sér í afar erfiðum samkeppnis- og starfsskilyrðum fyrir þekkingarfyrirtæki í útflutningi, bæði vegna hárra vaxta og gengissveiflna. Þetta er þekkt undir nafninu "ruðningsáhrif". Sú gagnrýni hefur hins vegar aldrei beinst að orkufyrirtækjunum sem slíkum, þeirra rannsóknum eða starfi og allra síst starfsmönnunum.

Djúpborunarverkefnið, ítarlegar rannsóknir á virkjanakostum í tengslum við rammaáætlun um náttúruvernd, áframhaldandi nýting sjálfbærrar orku í þágu atvinnulífs, útrás þekkingar í formi ráðgjafar og verkefna erlendis og margt fleira á auðvitað að halda áfram enda um þekkingaruppbyggingu að ræða. Lagning háspennulína í jörð í auknum mæli er einnig dæmi um spennandi þekkingarverkefni þar sem leita þarf lausna til að lækka kostnað og lágmarka rask á viðkvæmum svæðum.

Það er ekki sjálfgefið að þótt skynsamlegt sé út frá atvinnu- og efnahagsástandi og náttúruverndarsjónarmiðum, að staldra við með frekari uppbyggingu einnar tegundar af stóriðju, þá þýði það stöðvun í starfi og þróun orkufyrirtækjanna. Fyrirtækin mega t.d. ekki, frekar en stjórnvöld, gleyma öðrum mögulegum kaupendum og nýtingarmöguleikum orkunnar þótt það sé ef til vill ekki á stærð við álver í upphafi.

Þegar litið er yfir stefnumál stjórnmálaflokkanna þar sem stefna Samfylkingarinnar, "Fagra Ísland" virðist hafa orðið ofan á í ýmsum útgáfum (Stopp VG er orðið að 5 ára hléi, Íslandshreyfingin vill tímabundna stöðvun og í drögum að landsfundarályktun boðar Sjálfstæðisflokkurinn að fara skuli "hægar") er erfitt að koma auga á þá söngvara sem hafa skorið í eyru Samorku að undanförnu. Ef ætlunin var að svara auglýsingaherferð Framtíðarlandsins hefði e.t.v. verið heppilegast að taka það fram og viðkomandi hefði þá getað brugðist við. Án frekari skýringa líta þessar fyllyrðingar Samorku út eins og samtökin hafi ákveðið að búa sér til "strámann" til að geta svo skotið hinn ímyndaða andstæðing sinn í kaf með annars áhugaverðum og jákvæðum tölulegum staðreyndum.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


Jafnaðarflokkur Íslands að rísa undir kröfum frjálslyndra jafnaðarmanna

Jafnaðarflokkur Íslands er að rísa undir kröfum frjálslyndra jafnaðarmanna þessa dagana. Þung áhersla hefur verið lögð á framsækna atvinnustefnu með raunhæfri aðgerðaáætlun og samþættingu náttúruverndar og atvinnustefnu. Nú síðast er kynnt ítarleg úttekt á efnhagsmálunum, unnin af hópi sérfræðinga úr atvinnulífi og rannsóknastofnunum.

Ástæðan er einfaldlega sú að jafnaðarfólk leggur þunga áherslu á að hér á landi séu bestu skilyrði fyrir samkeppnishæft og arðvænlegt atvinnulíf.  Þannig leggjum við grunninn að góðum lífskjörum, efnahagslegum stöðugleika fyrir fjölskyldurnar í landinu og stöndum undir því mennta- og velferðarkerfi sem við viljum byggja upp og á í raun einnig að vera mikilvægur þáttur í að efla samkeppnishæfni hagkerfisins.

Ítarlegar tillögur Samfylkingarinnar um málefni barna, undir yfirskriftinni "Unga Ísland" og aðgerðaáætlun um að bæta kjör og aðbúnað aldraðra og öryrkja staðfesta að í huga frjálslyndra jafnaðarmanna fer ævinlega saman áherslan á öflugt atvinnulíf, framtak einstaklinga og athafnafrelsi annars vegar og hins vegar á jafnrétti allra til menntunar og mannsæmandi lífs.

Á vefnum www.jafnadarstefna.com hafa hundruð einstaklinga, ekki síst úr atvinnulífi og menntageiranum, undirritað hvatningu til Samfylkingarinnar, jafnaðarflokks Íslands, um að leggja megináherslu á skýra framtíðarsýn, stefnu og lausnir í anda jafnaðarstefnunnar. Það er ánægjulegt að sjá að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður, og forystan öll, er að rísa undir þessum væntingum frjálslyndra jafnaðarmanna. Þarna var líka varpað fram drögum að sáttmála stórs jafnaðarflokks við kjósendur um þau verk sem ganga þarf í. Það kemur ánægjulega á óvart að lesa þessi drög saman við útgefna stefnu Samfylkingarinnar.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Hagstjórnarvandi næstu ríkisstjórnar verður ærinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deiliskipulagskosning hefur ekki áhrif á aðra erlenda fjárfestingu

Forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins heldur því fram að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar um deiliskipulag álverslóðar í Hafnarfirði geti haft neikvæð áhrif á aðra erlenda fjárfestingu hér á landi. Þarna er æði langt seilst í rökum gegn beinu íbúalýðræði enda liggur fyrir að lögformlegt skipulagsvald liggur í höndum sveitarfélaga og allar breytingar eða nýframkvæmdir verða að fara í gegnum ákveðið kynningar- og athugasemdaferli. Sveitarstjórnir hafa einnig lögformlega heimild til að framselja vald sitt milliliðalaust til íbúanna með íbúakosningu.

Þegar árið 2003 mótaði meirihluti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði þá stefnu að leggja meiriháttar ákvarðanir beint í hendur íbúa. Í ársbyrjun 2002 var því afneitað þrisvar af talsmönnum Alcan að fyrirtækið stefndi að stækkun. Hér eru kaflar úr frétt Morgunblaðsins frá 27. janúar:

TALSMAÐUR Alcan Inc., eiganda ISAL, segir engar áætlanir uppi um að auka framleiðslugetu álversins í Straumsvík úr 170 þúsund tonnum í 460 þúsund tonn og neitar fréttum þess efnis í fréttaskeyti OsterDowJones. [...]

Rannveig Rist, forstjóri ISAL, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að eingöngu væri verið að skoða málin og engar ákvarðanir hefðu verið teknar. Um væri að ræða könnun á því hvort stækkun yrði hagkvæm eður ei. "Staðreyndin er sú að það er verið að gera hagkvæmnisútreikninga og fara í umhverfismat, sem eru könnunaraðgerðir áður en ákvörðun verður tekin um stækkun," sagði Rannveig.

Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi ISAL, leggur áherslu á að fyrirtækið sé eingöngu að kanna hvort stækkun sé möguleg. "Ef það ferli sem nú er í gangi leiðir í ljós að stækkun sé möguleg gæti niðurstaðan orðið sú að kanna hvort stækkun yrði hagkvæm og hvort þörf væri fyrir málminn. Fyrst þá, að loknum slíkum athugunum, verður hægt að taka afstöðu til okkar hugmynda. Þetta höfum við lagt ríka áherslu á við alla sem hafa leitað eftir upplýsingum og það er mikil oftúlkun á staðreyndum að halda því fram að verksmiðjan í Straumsvík verði stækkuð. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar um slíkt og verða ekki teknar á næstunni."

Hér kemur skýrt fram af hálfu talsmanna Alcan að sjálft umhverfismatið er bara liður í hagkvæmniathugun sem þarf að liggja fyrir áður en ákveðið verður hvort stefnt sé að stækkun enda verði engar ákvarðanir "teknar á næstunni". Í dag eru allar þessar forkannanir orðnar að "margra ára undirbúningsvinnu" sem Hafnfirðingar hafa kastað á glæ með því breyta leikreglum eftir á.

Ákvörðun um uppbyggingu orkufreks iðnaðar er bæði langt og flókið ferli þar sem afar margt þarf að liggja fyrir: Markaður fyrir afurðir, orkusamningar, samþykkt skipulag fyrir orkuöflun (virkjunum, línum og fleiru), umhverfismat, starfsleyfi, samþykkt skipulag fyrir starfsemina og fleira. Allt er þetta unnið í skrefum sem aðilar þekkja og engin þeirra eru gefin eða hægt að ákveða að öllu leyti fyrirfram.

Vinnan við að gera starfsumhverfi og rekstrarskilyrði fyrirtækja á Íslandi samkeppnishæf, og landið þar með fýslegan fjárfestingarkost fyrir erlenda aðila, hefur engan hnekki beðið þótt bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi sýnt þann kjark og framsýni að framselja bæjarbúum sjálfum ákvörðunarvald um deiliskipulag sem fól í sér að eitt af stærstu álverum Evrópu risi skammt frá miðbænum. Enda tók fyrirtækið sjálft virkan þátt í því ferli eins og varla hefur farið fram hjá nokkrum manni.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is SA segir atkvæðagreiðslu í Hafnarfirði umhugsunarefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldraðra minnst fyrir kosningar

Athyglisvert að áætlun um 370 milljón króna framlög úr ríkissjóði til að styðja aldraða til að búa sem lengst heima skyldi ekki vera kynnt við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2007 heldur boðar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fjölgun dagvistarrýma eftir þinglok.

Í frétt Morgunblaðsins kemur að vísu ekki fram hvort um er að ræða samþykkta fjárveitingu á núverandi fjárlagaári eða hvort þetta er aðeins viljayfirlýsing eða hugmynd fráfarandi ráðherra sem nýkjörnir þingmenn munu þurfa að taka afstöðu til að loknum kosningum og ný ríkisstjórn að efna. Samt eru það einmitt þær upplýsingar sem öllu skipta til að hægt sé að meta hvað í þessu felst en ef það eru vissulega frábær tíðindi fyrir aldraða og aðstandandur þeirra ef rétt reynist að þetta muni ganga eftir. Jafnaðarstjórn mun allavega ekki verða til þess að slá svona úrbætur út af borðinu.

Fram hafa komið fréttir um margvísleg útgjöld úr Framkvæmdasjóði aldraðra sem ráðherra hefur getað "ákveðið" upp á eigin spýtur, m.a. til kórastarfs og útgáfu glansrita um ágæti eigin framtíðarsýn í stjórnmálum. Er þessi "ákvörðun" nú framlag úr þeim sjóði eða boðuð yfirbótargreiðsla (sem aðrir munu þó reiða fram í óvissri framtíð) fyrir hið sorglega ástand í málefnum aldaðra, einkum sjúkra aldraðra, eftir 8 ára setu núverandi ríkisstjórnar og völd Framsóknarflokksins yfir málaflokknum?

Fréttin hefur engin svör við þessum spurningum sem brenna þó á öllum kjósendum. Hugsanleg skýring er sú að hún er orðrétt samhljóða nýrri fréttatilkynningu á vef heilbrigðisráðuneytisins.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Fjölga á dagvistarrýmum aldraða um 75
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðan í upphafi kosningabaráttu - Stefnumálin fara að hafa áhrif

Án frekari upplýsinga og bakgrunnsbreyta er sú punktstaða sem ítrekaðar skoðanakannanir birta e.t.v. fyrst og fremst söluvænlegt fréttaefni fyrir þá miðla sem kosta gerð þeirra. Fyrir þá sem ræða um stjórnmál fyrst og fremst út frá flokkum frekar en vandamálum og lausnum, stefnumálum og framtíðarsýn, gildum og lífssýn, er þetta himnasending. Fyrir raunveruleg viðfangsefni stjórnmálanna er gildið takmarkaðra.

Stundum er verið að velta upp spurningum um "skoðanamótandi" áhrif skoðanakannana. Þar sem kosningakannanir snúast ekki nema að litlu leyti um "skoðanir" er líklegra að áhrifin séu ekki á viðhorf kjósenda til mála eða skoðanir sem slíkar væri e.t.v. réttara að velta fyrir sér tilfinningalegum áhrifum þeirra, svo sem á tilhneigingu til að fylgja straumnum, forðast að tengja sig þeim sem eru að tapa eða jafnvel baráttuanda sem einhverjir geta fyllst við tíðindi, slæm eða góð.

Óbeinu áhrifin eru líklega dagskrársetningarvaldið sem fylgir umræðunum í kjölfarið: Í leit að skýringum beinist kastljós fjölmiðlaumfjöllunar óhjákvæmilega að meintum styrkleikum þeirra sem vaxa og meintum veikleikum þeirra sem dala. Þessi áhrif kynnu að vera mun sterkari en áhrif tölulegra niðurstaðna.

Væntanlega er verið að vinna fóður fyrir félagsvísindafólk sem mun síðar styðjast við mun ítarlegri úrvinnslu í rannsóknum á kosningahegðun og tengja við spurningar um marga aðra þætti eða atburði líðandi stundar. Þá má kannski fara að velta fyrir sér hvað gæti skýrt t.d. þá miklu fylgisaukningu sem Sjálfstæðisflokkurinn mældist með í síðustu könnun Gallup en gengur nú öll til baka.

Fyrir þá sem aðhyllast jafnaðarstefnu og þau gildi sem hún stendur fyrir eru þessar kannanir vísbending um að standa saman og halda málstað sínum, stefnu og framtíðarsýn á lofti. Þegar líður að kosningum eru það þeir þættir sem fara að skipta vaxandi máli enda kastljósi umræðunnar beint að þeim. Og um það snúast jú stjórnmálin.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is VG áfram í mikilli sókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband