Átakshópur um heilbrigða skynsemi í pólitískri umræðu

Sá hópur sem að þessari bloggsíðu stendur auk átakssíðunnar www.jafnadarstefna.com, hefur að mestu fylgst með flokkspólitík á Íslandi af hliðarlínunni um skeið þótt sumir hafi hellt sér í slaginn. Það sem sameinar er sú sannfæring að jafnaðarstefna grundvölluð á jöfnuði, jafnrétti og frjálslyndi – þar sem saman fer annars vegar ábyrg stefna í efnahags- og atvinnumálum, áhersla á samkeppnishæft starfsumhverfi, athafnafrelsi einstaklinganna og kosti raunverulegrar samkeppni fyrir neytendur og hins vegar öflugt velferðar- og menntakerfi þar sem öllum eru tryggð tækifæri – eigi brýnt erindi við samtímann og sé í raun sú stjórnmálastefna sem flestir Íslendingar séu í hjarta sínu sammála.

Pólitísk umræða síðustu vikna sýnir að flestir eru sammála um hver séu brýnustu úrlausnarefnin; neytendur finna það á eigin skinni og krafan um nýtt jafnvægi milli náttúrverndar og auðlindanýtingar er ekki lengur aðeins spurning um umhverfisvernd heldur líka skynsamlega hagstjórn og atvinnustefnu. Ástandið í málefnum aldraðra er til skammar og þjóðin var að sér forspurðri gerð að þátttakanda í árásarstríði sem leitt hefur ómældar hörmungar yfir saklaust fólk.

Til að breytingar verði þarf samstöðu um grundvallaratriðin. Heilbrigð skynsemi segir okkur að finna baráttumálum okkar sameiginlegan farveg - þann sem jafnaðarmenn hafa varið áratugum í að byggja upp og líklegastur er til að skila raunverulegum árangri. Þar þurfum við að sameinast um meginmálin þótt auðvitað verði líka að vera rúm fyrir skiptar skoðanir. Við eigum að láta umræðuna snúast um framtíðarsýn, stefnu og lausnir, ekki síst á sviði atvinnu- og efnahagsmála þar sem brýn þörf er fyrir ábyrgð og framsýni.

Vegna þessa viljum hvetja þann flokk, sem stofnaður var sem sameiginlegur vettvangur jafnaðarstefnunnar á Íslandi, Samfylkinguna, að gera eins konar sáttmála við kjósendur um helstu verkefnin framundan. Við kennum þennan sáttmála við heilbrigða skynsemi enda er hann einfaldlega settur saman úr þeim grundvallarsjónarmiðum um jöfnuð, jafnrétti og athafnafrelsi einstaklinganna sem meginþorri kjósenda aðhyllist, stefnu Samfylkingarinnar eins og hún liggur fyrir og ítrekuðum ábendingum fræðimanna og fulltrúa bæði launafólks og atvinnulífsins um það sem betur má fara. Þarna á milli er nær alger samhljómur eins og við rekjum í þeim drögum að sáttmála sem við vörpum fram á síðunni http://www.jafnadarstefna.com/sattmali.

Undirskrift þín við þessa hvatningu er hvort tveggja í senn: Áskorun til forystu og frambjóðenda Samfylkingarinnar um að fylgja eftir af krafti kjarnanum í markvissri jafnaðarstefnu og áskorun til okkar sjálfra og annarra kjósenda um að sameinast að baki slíku átaki og tryggja að stjórnmálaumræðan snúist um aðalatriðin; framtíðarsýnina og það samfélag sem við viljum byggja upp. Um leið og við gerum ítrustu kröfur til forystu og frambjóðenda hljótum við líka að gera ítrustu kröfur til okkar sjálfra.

Undirrita hvatninguna

Hópinn mynda nú:

Arnar Guðmundsson
Hefur lengi unnið við að skoða atvinnustefnu, starfsumhverfi fyrirtækja og samkeppnishæfni Íslands gagnvart öðrum löndum. Starfar sem verkefnastjóri hjá Fjárfestingarstofunni - Invest in Iceland Agency og Útflutningsráði Íslands. Áður hjá Aflvaka hf. atvinnuþróunarfélagi Reykjavíkur.

Árni Gunnarsson
Fyrrverandi alþingismaður Alþýðuflokksins, blaðamaður, fréttastjóri og stjórnarmaður í Landvernd og nokkrum útgáfufyrirtækjum. Framkvæmdastjóri Slysavarnarfélags Íslands 1991-1992 og framkvæmdastjóri Heilsustofnunar NLFÍ 1992-2005 þar sem hann stýrði mikilli uppbyggingu.

Ása Richardsdóttir
Hefur starfað við menningu, listir og fjölmiðlun í 22 ár, gjarnan sem frumkvöðull og stjórnandi. Stofnaði m.a. og rak Kaffileikhúsið í 5 ár. Starfar nú sem framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins.

Dagný Aradóttir
Oddviti meirihluta Röskvu, samtaka félagshyggjufólks, í Stúdentaráði Háskóla Íslands. Laganemi.

Halldór Guðmundsson
Bókmenntir, rannsóknir, saga og atvinnurekstur hafa lengi verið megin viðfangsefnin. Útgáfustjóri Máls og menningar frá 1984, framkvæmdastjóri, forstjóri og síðar útgefandi hjá Eddu – útgáfu hf. 2000 – 2003. Fæst nú við ritstörf og ráðgjöf á sviði útgáfumála.

Hreinn Sigmarsson
Atvinnuþróun og nýsköpun hefur lengst af verið starfsvettvangurinn. Atvinnuþróunarfulltrúi á Austurlandi og Suðurlandi og síðar sérfræðingur í fjárfestingum hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Sjálfstæð ráðgjöf og stjórnarseta í nýsköpunarfyrirtækjum. Nú flotastjóri Hertz á Íslandi.

Jakob Þór Einarsson
Leikari og leikstjóri. Yfirleikstjóri hjá Sýrlandi, hljóðstúdíói.

Ólafur Darri Andrason
Starfar sem hagfræðingur hjá samtökum launafólks. Meðal viðfangsefna eru kjaramál, áhrif efnahags- og atvinnumála á launafólk, skattkerfisbreytingar og velferðarkerfið.

Svanhvít Aðalsteinsdóttir
Útrás íslenskra útflutningsfyrirtækja á erlenda markaði og samskipti þeirra við markaðs- og rekstrarráðgjafa hefur verið meginverkefni hennar sem markaðsfræðings og verkefnastjóra hjá Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins undanfarin ár.

Sveinn Allan Morthens
Mennta- og velferðarmál hafa lengi verið megin viðfangsefnin. Uppeldisfræðingur og starfaði við meðferðarmál og ráðgjöf, síðar við sérdeild Norðurlands vestra. Framkvæmdastjóri málefna fatlaðra 1988-1998. Hefur síðan rekið meðferðar- og skólaheimilið Háholt.

Tryggvi Þórhallsson
Hagsmunir Háskóla Íslands og efling háskólasamfélagsins hafa verið meginverkefnin undanfarin ár. Starfaði sem lögfræðingur Háskóla Íslands þar til nýverið að hann hóf störf á lögfræðistofu.

Unnar Rafn Ingvarsson
Saga Íslands, ekki síst stjórnmála og atvinnusagan, eru meðal helstu áhugamála sagnfræðingsins. Er héraðsskjalavörður Skagfirðinga en er sem stendur í tímabundnu rannsóknarleyfi í Englandi.

Vilhjálmur Þorsteinsson
Stjórnarformaður CCP og fjárfestir, einkum á sviði upplýsingatækni. Hefur unnið á því sviði frá 1981 og m.a. setið í stjórn fjölda fyrirtækja á borð við Íslandssíma, Og fjarskipti, Dagsbrún, Kögun, Opin Kerfi og Skýrr. Stofnaði Íslenska forritaþróun hf. 1983, starfaði sem hugbúnaðarhönnuður hjá CODA Group plc. 1996-1998 og hjá Baan Software N.V. til 2000 þegar hann stofnaði ásamt öðrum Homeportal Inc., sem nú heitir Extrada Ltd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband