Ábyrg hagstjórn forsenda vaxtarskilyrða atvinnulífs um allt land

Á aðeins nokkrum dögum hefur jafnaðarflokkur Íslands kynnt ítarlega stefnu í málefnum barna, vandaða efnhagsúttekt starfshóps undir forystu Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi Seðlabankastjóra og forstjóra Norræna fjárfestingabankans og nú síðast útfærðar málefnatillögur fyrir landsfund þar sem m.a. er lög mikil áhersla á átak í samgöngumálum.

Fyrirsjáanleg viðbrögð eru þau að það samrýmist ekki því mikilvæga markmiði um að draga úr þenslu og ná jafnvægi í efnahagslífinu að boða til átaks í samgöngumálum. Af einhverjum ástæðum hefur ekki farið mikið fyrir því að boðað átak sitjandi samgönguráðherra í samgöngumálum þyki líklegt til að valda þenslu, ekki einu sinni þótt flokkur hans vilji helst sjá enn frekari stóriðjuuppbyggingu og skattalækkanir, allt á sama tíma. Munurinn liggur kannski í því að kjósendur eru steinhættir að taka loforð ríkisstjórnarflokkanna eða áætlanir í samgöngumálum trúanlegar. Það kæmi ekki á óvart í ljós reynslunnar.

Staðreyndin er hins vegar sú að með því að fresta ákvörðunum um nýjar stóriðjuframkvæmdir og með því að leggja áherslu á samstarf um að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum skapast svigrúm til að treysta innviði samfélagsins og bæta skilyrðin til uppbyggingar atvinnulífs um land allt. Samgöngumálin eru bæði einn mikilvægasti og arðbærasti þátturinn í því.

Tillögurnar um fjórföldun framlaga í samkeppnissjóði til eflingar sprota- og hátæknifyrirtækjum er í fyrstu hrein útgjaldatillaga en þegar fram í sækir er þetta, ásamt eflingu menntunar og rannsóknarstarf, ein arðvænlegasta fjárfesting í atvinnustefnu sem hægt er að gera. Með því að skapa atvinnulífi um land allt vaxtarskilyrði er verið að hugsa til framtíðar og það er skylda stjórnmálaflokka.

Það er fráleitur málflutningur að áhersla á að slá á þenslu og ná á ný jafnvægi í hagkerfinu þýði að hið opinbera hljóti á sama tíma að láta allar brýnar og arðbærar endurbætur sitja á hakanum. Oft hefur verið bent á að það sé einmitt eitt af hlutverkum ríkisins að jafna eftirspurn og sveiflur með því að tímasetja sínar stórframkvæmdir þannig að þær taki í kjölfar þenslu þegar á hægir.

Vandaður málefnaundirbúningur Samfylkingarinnar og raunsætt stöðumat sýnir að jafnaðarfólk er fullkomlega meðvitað um þann vanda og þau verkefni sem framundan eru fyrir næstu ríkisstjórn. Þeir sem loka augum fyrir þeim vanda sem við blasir en birta bara loforðalistana eru einfaldlega ekki trúverðugir.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Samfylkingin vill stórátak í samgöngumálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

 

Ég get ekki skilið hvernig stjórnmálaflokkur geti sett höft á framkvæmdi stórfyrirtækja, eins og álvera og orkufyrirtækja, í nafni þennslukælingar og á sama tíma boðað stóraukin ríkisútgjöld í samgöngumálum og öðrum framkvæmdum á vegum ríkisins. Ef því fylgdi skattahækkun til að greiða framkvæmdirnar, þá væri það kannski eðlilegt, en nei - það á að lækka skatta líka. Hvaðan eiga þá peningarnir að koma?

Innflutningur á fjármagni er ekkert öðruvísi en innflutningur á aflvélum eða ofnum til álbræðslu. Sami vöruskiptahallinn, með tilheyrandi spennu í hagkerfinu.

Svo toppa þeir það með því að boða lækkun og niðurfellingu á tollum!

Stjórnarflokkarnir ætla að leifa áframhaldandi uppbyggingu iðnaðar í landinu, með tilheyrandi virðisauka og tekjuauka í ríkissjóð, en greiða niður skuldir og bæta samgöngur á sama tíma, þ.e. með tekjum ríkissjóðs en ekki erlendum lánum.

Flokkast pólitísk ákvörðun stjórnmálaflokka um að meina einstökum fyrirtækjum um uppbyggingu dæmi um "heilbrigða skynsemi"?

Segir ekki í stjórnarskránni að allir skuli jafnir fyrir lögum? Þá hljóta orkufyrirtæki og álbræðslur að vera jafnar öðrum fyrirtækjum og því verður að banna alla uppbyggingu ef banna á þeim að byggja upp og stækka.

Júlíus Sigurþórsson, 12.4.2007 kl. 16:08

2 identicon

Hröð uppbygging orkufreks iðnaðar byggir á tvennu; Annars vegar aðgangi að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar til framleiðslu á raforku og hins vegar ábyrgðum ríkissjóðs og sveitarfélaga að baki lántökum opinberra fyrirtækja sem sjá um að virkja þessar auðlindir.

Því er fjarri því um það að ræða að "meina einstökum" iðnfyrirtækjum að byggja sig upp eða setja á þau einhver "höft".

Staðan í efnahagsmálum er jafnvel enn verri en okkur óraði fyrir ef eina leið Íslendinga til að fjármagna nauðsynlegar og arðbærar framkvæmdir er að halda uppi viðvarandi spennu og ofþenslu með stöðugri innspýtingu stóriðjufjármagns með tilheyrandi hágengi og okurvöxtum sem bitna á heimilinum og öðrum atvinnurekstri. Hvar er þá arðurinn af þeim framkvæmdum sem senn fara að skila útflutningstekjum?

heilbrigd-skynsemi (IP-tala skráð) 12.4.2007 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband