Tilflutningur skattbyrði niður tekjustigann er útreiknanleg staðreynd, ekki staðhæfing

Líklega er full ástæða til að efast um að hér sé rétt haft eftir jafn talnaglöggum manni og Geir H. Haarde: "Sagði Geir að stjórnarandstaðan hefði nú gefist upp á að halda á lofti óréttmætum sjónarmiðum um skattahækkanir og aukinn ójöfnuð í íslensku samfélagi". Tilflutningurinn á skattbyrði niður tekjustigann þar sem hinir tekjulægri tóku á sig þyngri byrðar til að niðurgreiða lækkun skatthlutfalls fyrir þá sem betur stóðu er útreiknanleg staðreynd, þetta er einfaldur reikningur, ekki staðhæfing.

Þegar skattleysismörkum er viljandi haldið eftir svo þau fylgja ekki verðlagsþróun, hvað þá launaþróun blasir við að skattbyrði allra þeirra sem eru með tekjur um og nokkuð yfir skattleysismörkum þyngist

Allt er þetta gangverk útskýrt á einkar einfaldan og aðgengilegan hátt í nokkurra ára gömlu Upplýsingariti ASÍ um skattkerfið sem sækja má á pdf formi. Þar er m.a. eftirfarandi skýringarmynd af samspili skattleysismarka og launabreytinga. Í þessu tilbúna dæmi hækka laun um 10% en skattleysismörkin þróast með mismunandi hætti:

skattar

Laun fyrir hækkun eru í dálkinum til vinstri, mismunandi hækkun skattleysismarka í efstu röðinni undir gulu pílunni og sú hækkun ráðstöfunartekna sem 10% launahækkunin skilar mismunandi tekjuhópum er í dálkunum fjórum þar fyrir neðan.

Eins og sést munar langmestu fyrir þann sem lægst hefur launin hvort skattleysismörkin fylgja launaþróun eða standa í stað. Munurinn á hækkun ráðstöfunarteknanna er frá því að vera 2,4 prósentustig miðað við að skattleysismörkin hækki ekkert og upp í að allir fá sömu kjarabætur ef skattleysismörkin fylgja launabreytingunni. Mismunurinn á öllum tölunum í fyrri dálkunum þremur og þeim síðasta rennur í ríkissjóð í formi aukinna skatttekna og hlutsfallslega hærri skattbyrði.

Fyrir þá sem hafa hærri tekjur skipta breytingar á skattleysismörkum litlu máli og mun minna en t.d. sjálf tekjuskattsprósentum. Fyrir hina tekjulægri er dæmið öfugt.

Þetta var leiðin sem notuð var af núverandi ríkisstjórn til að fjármagna lækkun skatthlutfallsins. Hlutfallsleg þynging skattbyrði neðst í tekjustiganum greiddi niður lækkun skatthlutfallsins sem skilaði hinum tekjuhærri mestum kjarabótum. Brotpunkturinn, þ.e. launaupphæðin þar sem lækkun skatthlutfallsins fór að skila meiru en sem nam þyngingu skattbyrðar vegna skattleysismarkanna reyndist furðu hár skv. upplýsingariti ASÍ.

Í raun hefur verið dregið úr jöfnunarhlutverki tekjuskattskerfisins og ójöfnuður þannig beinlínis markvisst aukinn. Þetta snýst hvorki um Gini stuðla né þrætubókarlistir Hannesar Hólmsteins heldur staðreyndir.

Forsenda þess að hægt er að halda uppi deilum um borðleggjandi og útreiknanlegar staðreyndir er væntanlega að hvorki gagnrýnir fjölmiðlar né almenningur setjist niður og reikni út úr dæminu. En að sjá svona haft eftir forsætisráðherra er bara dapurlegt og lýsir litlum vilja til að takast á við það verkefni að koma til móts við þá sem orðið hafa fyrir þyngingu skattbyrða.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Geir: Eðlilegt að ríkið tryggi öllum lágmarkslífeyri úr lífeyrissjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Það er röng hugsun í því, að skattleysismörk fylgi launum (launavísitölu) frekar en framfærsluvísitölu. Það myndi hafa í för með sér, að 10. maðurinn í tekjustiganum yrði alltaf skattfrjáls, alveg sama hversu mikið tekjur hans hækka. Mér finnst sjálfsagt, eins og ég hef margsagt, að þeir, sem geti greitt skatt, geri það. Þegar tekjur manna hækka, geta þeir greitt skatta. Það er ekki gott, þegar aðeins hluti skattgreiðenda greiðir tekjuskatt. Skattleysismörk eru hér miklu hærri en í nágrannalöndunum. Menn byrja að greiða miklu fyrr af launum sínum í Svíþjóð til dæmis (óskalandi jafnaðarmanna), og af fyrstu 100 þúsund krónunum í laun greiða Svíar hærra hlutfall en Íslendingar. Það hefur enginn neitað því, að skattkerfið hefur ekki sömu jöfnunaráhrif niður á við og áður, enda er það augljóst, þar sem hátekjuskatturinn var afnuminn og skattleysismörkin færðust hægt upp. En það á ekki að jafna niður á við (taka af hinum ríku til að gefa hinum fátæku, þótt mestur hlutinn fari að vísu í ríkishítina), heldur á að jafna upp á við, fjölga tækifærum manna til að komast út úr fátækt, og það gerist best með öflugu atvinnulífi og lágum sköttum á fyrirtæki og fjármagnseigendur og launþega líka. HHG

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, 23.4.2007 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband