Aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, Nicholas Burns, fékk greinileg skilaboð um þá grundvallarstefnubreytingu, sem fram kom í stjórnarsáttmála, að ný ríkisstjórn styður ekki stríðsreksturinn í Írak. Í viðtali við fréttastofu Ríkissjónvarpsins kom m.a. fram að hann fékk þau boð að stefnubreytingin varði viðhorf til þeirrar ákvörðunar að ráðast inn í Írak á sínum tíma. Þótt gert sé gert og skömmin við þessa ákvörðun ekki aftur tekin hefur Ísland þó verið tekið af lista hinna vígfúsu þjóða með afgerandi hætti.
Til framtíðar varðar þó meiru að í stjórnarsáttmála kemur fram að ákvarðanir um stríðsyfirlýsingar Íslands á hendur öðrum þjóðum verða ekki teknar af einum eða tveimur ráðherrum heldur skuli allar meiriháttar utanríkispólitískar ákvarðanir teknar af Alþingi.
Hvort tveggja er tilefni til að fagna.
Nicholas Burns fagnar framboði Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Unga Ísland er metnaðarfull stefnumótun jafnaðarfólks og fékk góðar viðtökur í kosningabaráttunni. Gaman að sjá strax á 11. degi Samfylkingarinnar í nýrri ríkisstjórn að vinnan sé hafin. Þess sér strax merki að jafnaðarflokkur er kominn til valda.
Fækkun á biðlistum forgangsatriði í aðgerðaáætlun í þágu barna og unglinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.5.2007
Landið eitt kjördæmi
Hafi einhver velkst í vafa um nauðsyn þess að breyta kosningalögum og gera landið allt að einu kjördæmi ætti kosninganóttin að hafa sannfært þá síðustu. Fyrir utan misvægi atkvæði milli kjördæma, sem næstum nálægt leyfilegu hámarki eða tvöfalt, kom í ljós að jöfnunarþingsæti eru of fá til að jafna í raun í núverandi kerfi og dreifing þeirra eftir kjördæmum varð afar undarleg. Á tímabili blasti við sú skrítna staða að Framsóknarflokkurinn þurfti aðeins að bæta við sig örfáum atkvæðum til að fella ríkisstjórnina. Skýringin er sú að þá hefði farið af stað hringekja jöfnunarmanna sem hefði fellt út einn þingmann Sjálfstæðisflokksins og inn hefði komið 19. maður Samfylkingar.
Engin rök fyrir núverandi kerfi
Helstu rökin fyrir því að skipta á þriðja hundrað þúsund kjósendum upp í 6 kjördæmi er hin meinta nálægð þingmanna við kjósendur í kjördæmum sínum. Þegar stærð landsbyggðarkjördæmanna þriggja og gífurlegur fjölbreytileiki í búsetu og aðstæðum innan þeirra er skoðaður falla þessi rök algerlega.
Viðbrögð stjórnmálaflokkanna hafa líka verið þau að reyna eftir fremsta megni að tryggja að frambjóðendur á listum komi úr sem flestum byggðarlögum kjördæmanna og ná þannig hinni eftirsóttu tengingu við byggðirnar. Yrði landið allt eitt kjördæmi myndi þessi áhersla trúlega aukast enn frekar.
Til að tryggja sem best að stærð flokka á landsvísu endurspeglist í þingmannafjölda þeirra er líklegt að fjölga þurfi jöfnunarþingsætum. Afleiðing þess yrði sú að tengingin milli stuðnings við flokkana í einstökum kjördæmum og fjölda þingmanna þeirra í viðkomandi kjördæmum yrði enn veikari en nú er. Og þá er lítið orðið eftir að rökunum fyrir nauðsyn skiptingar þingmanna í kjördæmi.
Þess má vænta að stuðningur við þá tillögu að gera landið allt að einu kjördæmi hafi aukist verulega eftir að í ljós kom að hér á landi fyrirfinnst varla nokkur einstaklingur sem skilur kosningakerfið.
Misvægi atkvæða í alþingiskosningunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.5.2007
"Okkar" málaflokkar
Athyglisverð sú hugmynd formanns Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að framboð eða flokkar "eigi" með einhverjum hætti heilu málaflokkana. Ekki í skilningi frumkvæðis að nýjum hugmyndum eða stefnu sem aðrir taka svo upp (eins og jafnaðarflokkar hafa búið við áratugum saman) heldur beinlínis málaflokka sem slíka.
Nú nefnir formaðurinn ekki hvaða málaflokkar það eru sem VG "á" en hann er vonandi ekki að vísa í klassískar velferðaráherslur jafnaðarstefnunnar, frumkvæði Samfylkingarinnar í því að samþætta náttúruvernd og framsækna atvinnustefnu með áherslu á hátæknigreinar sem raunverulegan valkost eða loftslagsmálin þar sem jafnaðarflokkarnir á öllum Norðurlöndunum hafa lengi unnið saman að mótun sameiginlegrar og ábyrgrar stefnu.
Enn fróðlegra væri þó að sjá glitta í hina hliðina á þessum peningi sem þarna er varpað upp - þ.e. hvaða málaflokkar það eru sem VG hefur ákveðið að vera lítið sem ekkert að kássast upp á af því þeir eru annarra? Hvaða málaflokkar eru til dæmis Sjálfstæðisflokksins að mati formanns VG?
Eins og margoft hefur verið rakið hér á þessari síðu er það einmitt eitt megineinkenni jafnaðarstefnunnar að spanna öll viðfangsefni. Það stafar m.a. af því að jafnaðarflokkar hafa víða axlað ábyrgð á landsstjórn og stýrt uppbyggingu samkeppnishæfra samfélaga. Slík breidd í stefnu og ábyrgð er auðvitað helsti munurinn á stórum stjórnmálaflokkum sem eru tilbúnir til forystu og hreyfingum sem spretta fyrst og fremst upp í kringum einstaka málaflokka og eru eðli máls samkvæmt gjarnan andstöðuöfl frekur en í leiðtogahlutverki. Uppgangur þeirra er gjarnan tímabundinn.
Sameinaður jafnaðarflokkur á Íslandi er reiðubúinn að leiða ríkisstjórn og axla þar með ekki aðeins ábyrgð á endurreisn velferðarkerfisins heldur ábyrgri efnahagsstjórn, atvinnustefnu og fjárfestingu í menntun. Jafnaðarfólk veit að þetta verður allt að fara saman því jafnvægi í þjóðarbúskapnum og samkeppnishæft atvinnulíf verður að standa undir bættum lífskjörum og velferð.
Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála
Samfylking og VG samherjar í að fella stjórnina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2007
Að hræða og gráta til sín fylgi
Er fylgissveifla Framsóknarflokksins á aðeins tveimur dögum vísbending um hve margir stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnarmunsturs hafi látið hræða sig frá stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn og til fylgilags við Framsókn vegna hótana Valgerðar Sverrisdóttur og síðar Jóns Sigurðssonar um að halda ekki áfram jafnvel þótt stjórnin haldi velli, ef hlutföll stjórnarflokkanna innbyrðis breytast?
Eitthvað gæti líka skýrst með svari einhvers félagshyggjufólks við tárvotu ákalli þess efnis að einnig stjórnarsamstarf með Samfylkingu og VG sé úr myndinni, jafnvel þótt ríkisstjórnin falli. Þeir kjósendur vakna nær örugglega illa sviknir með óbreytta ríkisstjórn þann 13. maí.
Fyrir utan áleitnar spurningar um það siðferði sem það sýnir að hóta því að axla ekki ábyrgð að loknum kosningum eða líkurnar á því að við hótanirnar yrði staðið í ljósi einsmannsborgarstjórnarflokksins sem situr glaðbeittur í helmingaskiptastjórn með D lista, er athyglisverðast þegar kosningabaráttan hættir að snúast um stefnu, hugsjónir og framtíðarsýn og fer að verða "kosningataktísk". Slík vinnubrögð héldu flestir að heyrðu sögunni til eftir að hin smáu kjördæmi þar sem fjórflokkarnir gátu nánast talið saman sitt fólk á bæjunum og "lánað" atkvæði. Kannski er ekki skrítið að þessi endurómur liðins tíma skuli koma frá Framsóknarflokknum, sem naut lengst af mikilla valda eingöngu í skjóli kjördæmakerfis sem klæðskerasniðið var utan um hann.
Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála
Fylgi Framsóknarflokksins tekur stökk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Í gerbreyttu pólitísku landslagi og eftir að jafnaðarfólk hefur haft hugmyndalega forystu í að auka hér viðskiptafrelsi, t.d. með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og afnámi margvíslegra hafta þar áður, er það næstum "krúttlega" út úr kú að lesa svona hræðsluáróður. Verst fyrir forsætisráðherra að geta ekki lengur haldið því fram að nú verði að kjósa Sjálfstæðisflokkinn til að tryggja áframhaldandi hervernd með veru bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli. Við vitum hvernig það gekk. Ekki ósvipað og núverandi ríkisstjórn hefur fariðmeð stöðugleikann sem síðasta svokölluð "vinstri stjórn" kom á ásamt aðilum vinnumarkaðarins með þjóðarsáttarsamningunum 1990.
En það er vissulega hugsanlegt að undir forystu öflugs jafnaðarflokks væri sjálft ríkið ekki búið að hella sér í beina samkeppni við prentþjónustur eða ljósmyndastofur. Líklega hefði möndl með eignarhald tryggingafélaga og millilendingar ríkisbanka í höndum valinkunnra flokksgæðinga heldur ekki verið nauðsynlegur hluti einkavæðingar ríkisbankanna.
Forsætisráðherra horfir þó fyrst og fremst framhjá þeirri lykilstaðreynd að orðinn er til stór jafnaðarflokkur sem er tilbúinn til að leiða stjórn jafnaðarstefnu. Jafnaðarstjórnir hafa lagt grunn að efnahagslegum stöðugleika, uppbyggingu og samkeppnishæfni atvinnulífs víða í Evrópu.
Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála
Horfið yrði af þeirri framfarabraut sem við erum á" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Enn ein vísbending um réttmæti þeirra fullyrðinga sem settar hafa verið fram í síðustu færslum að aðeins stór jafnaðarflokkur mun megna að breyta landslagi íslenskra stjórnmálum og áherslum við landsstjórnina. Eins og norrænu jafnaðarleiðtogarnir Mona Sahlin og Helle Thorning-Schmidt bentu á þá er nóg til af eftirlíkingum jafnaðarflokka meðal hægri flokka en vandinn er yfirleitt sá að þar vantar áhersluna á jöfnuðinn, jafnréttið og velferðina. Menn reyna hins vegar stöðugt að eigna sér frumkvæðið í fríverslun og afnámi hvers kyns viðskiptahafta.
Nú er tímabært að hefja báðar hliðar jafnaðarstefnunnar til öndvegis og rétta þar með kúrsinn - efla velferð og jöfnuð án þess að skerða samkeppnisstöðu og sóknarfæri atvinnulífsins. Til þess er jafnaðarfólki einfaldlega best treystandi.
Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála
Fylgi Samfylkingar og Framsóknarflokks eykst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Formaður Framsóknarflokksins spyr lesendur Fréttablaðsins með heilsíðuauglýsingu hvort þeir trúi á tilviljanir. Svo fylgir með listi yfir mælikvarða á sviði viðskiptaumhverfis sem flestir eiga það sameiginlegt að vera afrakstur baráttu jafnaðarfólks fyrir auknu viðskiptafrelsi og opnun Íslands gagnvart umheiminum. Umhyggja auglýsandans fyrir frelsi og samkeppni nær t.d. ekki svo langt að telja að viðskipti með mikilvægustu landbúnaðarafurðir skuli falla undir samkeppnislög öllum til hagsbóta. Sérstaka athygli vekur einnig sú leiða staðreynd að eftir að hafa verið í 1. sæti yfir þau lönd þar sem minnst spilling ríkir skuli Ísland fallið af toppnum og það þótt aðeins sé byggt á svörum fulltrúa viðskiptalífsins og tilfinningu í hverju landi fyrir sig (við höfum jú gjarnan verið hamingjusömust allra að eigin sögn og jafnframt minnst spillt). Kannski stafar þetta síðastnefnda fall af toppnum einmitt af því að fólk er ekki jafn trúað á tilviljanir og ríkisstjórnarflokkarnir gjarnan vildu að það væri?
Þær eru nokkuð margar tilviljanirnar í stjórnsýslunni og réttarkerfinu á valdatíma fráfarandi ríkisstjórnar sem auglýsandinn glaðbeitti ætlar okkur að trúa. Mannaráðningar og skipanir hæstaréttadómara sem tengjast ráðherrum fjölskyldu- og trúnaðarböndum, sérstakar fyrirgreiðslur og flýtiafgreiðslur ríkisborgararéttar, stríðsyfirlýsingar án löglegrar afgreiðslu, bankasölur með millilendingu og ofsagróða hjá fyrrverandi ráðherra, sértæk fjölmiðlalög og margt fleira sem of langt mál er að rifja upp.
Hins vegar er það nokkuð rétt hjá auglýsandanum að það er engin tilviljun að það var jafnaðarfólk sem ævinlega hefur haft forgöngu um aukið viðskiptafrelsi og afnám hafta hér á landi, gjarnan þvert gegn vilja og stefnu þeirra sem sagt hafa stopp og viljað standa á bremsunni. Aðildin af EFTA og EES stendur ef til vill uppúr og þá ekki síst EES sem nær enginn vill nú kannast við að hafa verið á móti (sama verður líklega upp á teningnum eftir ESB aðild). Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, var á sínum tíma sökuð um að hafa beinlínis rutt EES samningnum braut gegnum Alþingi með því að synda ein gegn straumi síns þáverandi flokks og lýst yfir stuðningi við aðild. Þar sem hún kom ekki að gerð aðildarsamningsins sem slíks sat hún hjá við sjálfa atkvæðagreiðsluna en stuðningur hennar var ótvíræður eins og sést best á hörðum viðbrögðum andstæðinga samningsins.
Á síðasta ársfundi Útflutningsráðs Íslands fór Valur Valsson, stjórnarformaður og fyrrverandi bankastjóri, yfir þau þrjú atriði sem hafa haft langmest áhrif í þá veru að skapa hér þá velsæld sem ríkt hefur undanfarin ár:
Í fyrsta lagi þjóðarsáttarsamningar 1990 sem réðu loks niðurlögum verðbólgunnar og lögðu grunn að stöðugleika á vinnumarkaði sem skapaði atvinnulífinu ný skilyrði til vaxtar og sóknar.
Í öðru lagi aðildin að hinu Evrópska efnahagssvæði sem jók viðskiptafrelsi almenningi og atvinnulífi til hagsbóta.
Í þriðja lagi einkavæðing ríkisfyrirtækja, einkum viðskiptabankanna, sem leysti úr læðingi mikla krafta sem m.a. hafa nýst íslenskum fyrirtækjum til útrásar á erlenda markaði.
Trúir þú á tilviljanir? Það var verkalýðshreyfingin, samtök atvinnurekenda og ríkisstjórn jafnaðarfólks sem kom þjóðarsáttinni á. Jafnaðarfólk átti frumkvæði að aðildinni að EES og fylgdi málinu eftir, oft á tíðum gegn mikilli og víðtækri andstöðu. Jafnaðarfólk á þingi studdi einarðlega einkavæðingu viðskiptabankanna en gerði alvarlegar athugasemdir við framkvæmdina vegna hættu á fákeppni og hækkunum á vöxtum og þjónustugjöldum.
Jón Baldvin Hannibalsson sagði m.a. þetta á þingi við hlutafélagavæðingu ríkisbankanna:
Fyrsti minni hluti telur að það sé löngu tímabært að stokka upp hið staðnaða ríkisbankakerfi. Umsvif ríkisvaldsins í viðskiptabankakerfinu eru mun umfangsmeiri hérlendis en í grannalöndum. Það hefur ítrekað verið bent á að þetta þurfi endurskoðunar við.
Ágúst Einarsson hafði m.a. uppi þessu varnaðarorð sem rétt er að rifja upp:
Það er líka staðreynd að vextir eru hér hærri en í nágrannalöndunum og að við erum með óhagkvæmt bankakerfi og hærri þjónustugjöld en í nágrannalöndunum. Hluti er vegna fámennis, hluti er einfaldlega vegna skipulags okkar í bankamálum. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að aukin samkeppni á þeim markaði væri mjög brýn og þá sérstaklega með því að fá inn erlenda banka, bæði starfandi eða sem hluthafa, sem ekki hefur reyndar orðið enn í okkar fjármálaumhverfi. En það má benda á að það eru margar ástæður til að hafa áhyggjur af einmitt skipulagi í bankakerfinu.
Allir þekkja hvernig möndlað var með eignarhald tryggingafélaga og fleira í kringum söluna á ríkisbönkunum. Meira að segja náinn samstarfsmaður Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, sagði af sér formennsku í einkavæðingarnefnd í mótmælaskyni við vinnubrögðin. En auglýsandinn í Fréttablaðinu ætlar okkur kjósendum auðvitað að trúa að það sé tilviljun að það var fyrrverandi ráðherra flokksins og aðilar í viðskiptalífinu nátengdir fjármálaarmi Framsóknarflokksins sem högnuðust um milljarða í þessum bankaviðskiptum. Meira að segja molar af borðinu hrukku til fjölskyldu þáverandi formanns flokksins.
Á þessari auglýsingu birtast einnig tvær aðrar skemmtilegar grafískar tilviljanir sem velta má fyrir sér í þessu samhengi. Í fyrsta lagi er hið nýja afmælismerki Framsóknarflokksins eins og táknræn mynd af því sem á Ensku er kallað "brown-nosing". Í öðru lagi er eins og X-ið í kosningamerkinu sé að berjast við að slíta sig laust frá B-inu og komast sem lengst frá því en B-ið reyni að halda því hjá sér með því að stíga á einn legg þess. Kannski X-ið nái að slíta sig laust fyrir 12. maí? Líkurnar á því aukast eftir því sem trú kjósenda á tilviljanir minnkar.
Hugmyndafræðileg forystu jafnaðarfólks og frumkvæði að því að leggja grundvöll að framförum og velmegun með auknu viðskiptafrelsi er engin tilviljun enda er hin tvíþætta áhersla jafnaðarfólks á öflugt atvinnulíf og athafnafrelsi einstaklinga annars vegar og jöfn tækifæri og réttindi allra hins vegar. Það er heldur engin tilviljun að á sama tíma og ríkisstjórn hinna hefðbundnu helmingaskipta í íslenskum stjórnmálum hefur skreytt sig með fjöðrum jafnaðarfólks og fylgt hugmyndalegri forystu þess hefur hin hlið jafnaðarstefnunnar orðið út undan, þ.e. áherslan á velferðina, jöfnuðinn, jafnrétti og félagslegt réttlæti.
Aðeins stór jafnaðarflokkur mun megna að breyta því - það er engin tilviljun.
Við skulum ekki láta tilviljanir ráða því hvaða áherslur, stefna, verkefni og framtíðarsýn verður ofan á eftir 12. maí nk.
Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fullyrðingum um hátt menntunarstig þjóðarinnar er gjarnan slegið fram án þess að skoða hinar tölulegu staðreyndir sem segja því miður aðra sögu. Hér á landi er óviðunandi brottfall úr framhaldsskólum og lægra hlutfall á vinnumarkaði með háskólamenntun en í þeim samfélögum sem við viljum bera okkur saman við. Ástandið er enn verra ef litið er sérstaklega á iðn- og tæknigreinar og Samtök iðnaðarins hafa t.d. bent á að skortur á fagmenntuðu starfsfólki geti innan fárra ára staðið framsæknum fyrirtækjum á borð við Marel og fleiri verulega fyrir þrifum og hugsanlega hrakið fleiri þætti starfseminnar úr landi.
Það eru þessir mælikvarðar sem skipta máli fyrir nýsköpun, framleiðni í atvinnulífinu og hagvöxt til framtíðar miklu frekar en framlög til menntamála í heild.
Fjárfesting í menntun sem gengur út á að sinna þessum grundvallarþáttum er líklega ein arðbærasta og skynsamlegast atvinnustefna sem hægt er að framfylgja. Uppbygging framhaldsnáms á völdum styrkleikasviðum þar sem íslenskir háskólar hafa eitthvað að bjóða byggt á sérþekkingu eða sérstökum aðstæðum er líkleg til að efla háskólana og laða hingað erlenda námsmenn og vísindamenn en um leið og bóknámsbrautum, einkum á sviði laga og viðskipta, er fjölgað má ekki gleyma grunninum.
Mikilvægt er að möguleikar til menntunar byggi á áhugasviði og tækifærum til að láta hæfileika sína blómstra frekar en efnahag námsmanna eða aðstandenda þeirra. Hvers kyns misrétti af slíku tagi leiðir til sóunar auðlinda og getur verið samfélaginu dýrt.
Það frumkvæði jafnaðarflokks Íslands að leggja fram stefnu og aðgerðaáætlun um fjárfestingu í menntun getur hæglega verið eitt mikilvægasta skref kosninganna til lengri tíma litið, hvort sem horft er á málið frá sjónarhóli einstaklinganna, hagsmunum atvinnulífsins eða þjóðarbúsins í heild.
Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála
Samfylkingin boðar fjárfestingarátak í menntun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.5.2007
Samningar, viljayfirlýsingar, skóflustungur og borðaklippingar á færibandi! Milljarðarnir streyma
Eflaust eru samningar um markvissan stuðning ríkissjóðs við menningarstarf gegn mótframlagi sveitarfélaga og einkaaðila í héraði hið besta mál en er það fullkomlega eðlilegt að ráðherrar í ríkisstjórn, sem líklega getur talið líftíma sína í dögum frekar en vikum, rjúki til og undirriti slíkar viljaryfirlýsingar um útgjöld á ósamþykktum fjárlögum Alþingis sem ekki hefur enn verið kosið, hvað þá myndað ríkisstjórn? Hefði ekki nýr þingmeirihluti átt að ljúka slíku máli?
Kosningavíxlar stjórnarflokkanna á framtíðina hrannast upp á sama tíma og fjármálaráðuneytið spáir halla á ríkissjóði strax á næsta ári og Seðlabankinn verulegum halla árið þar á eftir. Samkvæmt vorskýrslu ASÍ eru engar horfur á stöðugleika í efnahagslífinu á næstu árum svo ung fólk með húsnæðislán á herðunum getur horft fram á áframhaldandi sveiflur og hávexti og starfsumhverfi nýsköpunarfyrirtækja í útflutningi verður jafn óstöðugt og á undanförnum árum.
Á sama tíma og forsætisráðherra virðist gufaður upp og engin stefna í sjónmáli í mikilvægustu viðfangsefnum samtíðarinnar lítur út fyrir að ríkisstjórnin hafi endanlega gefist upp við að hafa stjórn á nokkrum hlut.
Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála
Menningarsamningar gerðir við sveitarfélög | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)