Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála
Umræða síðustu daga um að stjórnarskrárbinda þjóðareign á auðlindum hefur tekið á sig afar sérkennilegar myndir. Þegar Sigurður Líndal stígur fram og segir stjórnarskrárákvæði um þjóðareign merkingarlaust og Illugi Gunnarsson segir eign á óveiddum fiski nær ómögulega því verðmætin skapist með þekkingu og tækjum til að nýta auðlindina er eins og öll hin mikla vinna auðlindanefndar, ítarleg skýrsla hennar og sameiginlegar tillögur sé gleymt og grafið. Allt í einu virðast menn vakna upp við merkingarlaust ákvæði í stjórnarsáttmála. En þetta ákvæði í stjórnarsáttmála á sér rætur í niðurstöðum auðlindanefndar. Þáverandi forsætisráðherra hafði gefið fyrirheit um slíkt ákvæði en við það var ekki staðið fyrir síðustu kosningar. Þess vegna var það ítrekað í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar sem enn á ný er að velkjast með málið.
Eiríkur Tómasson, hrl. og varaformaður auðlindanefndar fór ítarlega yfir málið á fundi hjá Samfylkingunni og er erindi hans birt í heild á vef Framtíðarhóps Samfylkingarinnar (word skjal). Þar kom margt fróðlegt fram og greinilegt að eitt af því sem mestu skipti var einmitt að ákvæði af þessu tagi yrði ekki merkingarlaust eins og sumir virðast hafa mestar áhyggjur af í dag.
Eiríkur sagði m.a.:
Segja má að þriðja form eignarráða samkvæmt íslenskum rétti sé almannaréttur, þar sem allir landsmenn hafa rétt til hagnýtingar á tiltekinni eign, innan lögmæltra marka, án þess þó að honum fylgi hefðbundinn einkaeignarréttur. Réttur sá, sem fyrir er mælt í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, verður líklega felldur undir þessa tegund eignarráða. Við almannarétt sem eitt afbrigði eignarráða verður hins vegar að gera þann fyrirvara, í ljósi dómafordæma, að hann sem slíkur nýtur að öllum líkindum ekki neinnar verndar sem eignarréttur í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, en öðru máli kann hins vegar að gegna um atvinnuréttindi sem honum tengjast.
Í því skyni að eyða þessari réttaróvissu og samræma um leið reglur um eignarhald á þeim náttúruauðlindum, sem ekki eru undirorpnar einkaeignarrétti, gerði auðlindanefnd það að tillögu sinni að tekið yrði upp nýtt form á eignarrétti, til hliðar við hinn hefðbundna séreignarrétt einstaklinga og lögaðila. Það heiti, sem varð fyrir valinu hjá nefndinni, er þjóðareignarréttur, þ.e. eignarréttur íslensku þjóðarinnar á þeim náttúruauðlindum og landsréttindum sem ekki eru þegar háð einkaeignarrétti.
Í sjálfu sér má segja að þessu nýja formi á eignarrétti fylgi sömu heimildir og talið hefur verið að felist í fullveldisrétti ríkisins. Sá er þó munurinn að með því að ofangreindar auðlindir og réttindi eru lýst eign þjóðarinnar er þar með girt fyrir að aðrir aðilar geti eignast beinan eignarrétt að þeim, t.d. fyrir hefð. Vegna þess að þjóðin er ekki lögaðili og þar með bær til að vera eiginlegur eigandi að lögum með sama hætti og ríkið er nauðsynlegt að kveða nákvæmlega á um það að handhafar löggjafar og framkvæmdarvalds, þ.e. Alþingi og stjórnvöld, fari með allar þær eignarréttarheimildir, sem í hinu nýja eignarformi felast, í umboði þjóðarinnar. Að öðrum kosti yrði eignarréttur þjóðarinnar merkingarlaus.
Áhyggjur Sigurðar Líndal og annarra eru sumsé engin ný sannindi og sérstök áhersla lögð á það í auðlindanefnd að mæta þeim. Enda lagði auðlindanefnd til meira en eitt einfalt þjóðareignarákvæði - tillaga hljóðaði upp á eftirfarandi þrjú ákvæði í stjórnarskrá:
Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar -og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.
Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.
Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.
Nú er stóra spurningin hvort öllu sé til haga haldið með hinu einfalda ákvæði sem nú er lagt til að taka upp:
Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila samkvæmt 72. grein. Ber að nýta þær til hagsbóta þjóðinni, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ekki skal þetta vera því til fyrirstöðu, að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum.
Er þetta nægilega skýrt til að geta talist samhljóða niðurstöðu auðlindanefndar og stuðla þannig að sátt frekar en aukinni óvissu og deilum? Hefur það einhver önnur áhrif að vísa beint til 72. greinarinnar eins og nú er lagt til í stað þess að nota það orðalag sem auðlindanefnd lagði til? 72. grein stjórnarskrárinnar hljóðar svo: "Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi."
Stóra spurningin er þó hvers vegna stór nefnd sérfræðinga lá yfir málinu árum saman, ástundaði víðtækt samráð til að ná sátt í málinu og skilaði viðamikilli skýrslu sem niðurstöðu ef það má svo semja um málið í bakherbergjum stjórnarflokkanna tveggja á nokkrum næturfundum?
Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála
![]() |
Þjóðareign í stað sameignar þjóðarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.