Hver eru rök fjármálaráðherra fyrir gjaldeyrishöftunum?

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Hefur einhver heyrt fjármálaráðherra eða aðra fulltrúa ríkisstjórnarinnar færa frambærileg rök fyrir þeirri furðulegu reglugerð sem hann setti fyrirvaralaust fyrir tæpum mánuði síðan? Í gengismálunum eru íslensk fyrirtæki að "greiða atkvæði með fótunum", ef svo má að orði komast, og forðast þannig herkostnaðinn af sveiflum íslensku krónunnar sem heimilin í landinu og minni fyrirtæki bera af fullum þunga. Eru það skynsamleg viðbrögð stjórnvalda að reisa þá reglugerðargirðingar? Girðingarnar í þessari reglugerð er jafnvel hærri en virðist í fyrstu þegar haft er í huga að jafnvel fyrirtæki með mikil viðskipti á Evrópumarkaði ná því kannski ekki að Evran sé þeirra meginmynt af þeirri einföldu ástæðu að eitt mikilvægast viðskiptaland okkar, Bretland, heldur í sitt Pund.

Óskynsamleg reglugerð er heitið á leiðara Hafliða Helgasonar, ritstjóra Markaðarins, en þar segir hann meðal annars:

Þegar engar augljósar skynsamlegar skýringar eru á ákvörðun sem þessari er freistandi að leita slíkra skýringa í hópi hinna óskynsamlegu. Alþjóðavæðing atvinnulífsins kallar á nýja hugsun í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Krónan er augljóslega á undanhaldi sem uppgjörsmynt hjá fyrirtækjum. Það er þróun sem ekki verður stöðvuð og á ekki að stöðva. Ef niðurstaða þeirrar þróunar verður upptaka evru og innganga í ESB, þá er það bara niðurstaðan og líklega þá eina skynsamlega framtíðarlausnin. Það er hins vegar ekki hægt að gefa sér slíkt fyrirfram, en spastískar tilraunir til að halda aftur af þróuninni eru síst til þess fallnar að leiða til skynsamlegrar niðurstöðu. [,,,]

Vissulega er í landinu sértrúarsöfnuður sem nálgast krónuna með trúarlegri lotningu, en það væri illt til þess að vita að æðstiprestur þess safnaðar hefði beitt áhrifum sínum á ráðherra til að setja slíka reglugerð.

Vel má vera að einhverjir taki gagnrýni Björgólfs Thors á íslensk stjórnvöld og varnaðarorð hans um afleiðingar nýrrar haftastefnu sem hótun í anda hótana Alcan um lokun álversins í Straumsvík og firrtist við en kjarni málsins er að ríkisstjórnin hefur hvorki getað skýrt þörfina á þessari reglugerð né það gagn sem hún á að gera. Þessi ábending atvinnulífsins snýst ekki um að fá lækkun skatta eða aðrar ívilnanir af hálfu íslenska ríkisins heldur eðlilegt frelsi til að haga starfsemi sinni og viðskiptum eftir þörfum fyrirtækjanna sjálfra. Í ræðu sinni sagði Björgólfur orðrétt:

Forsætisráðherra kynnti í október síðastliðnum skýrslu um hvernig koma mætti á fót öflugri alþjóðlegri fjarmálastarfsemi á Íslandi. Þar kom fram að gagnsæi í reglum og jákvæð viðhorf til alþjóðlegra markaða og fjárfesta skipti miklu máli við uppbyggingu á slíkri starfsemi og kom einnig fram að “... grundvallaratriði fyrir því að varanlegur árangur náist er að lög og reglur sæti ekki fyrirvaralitlum grundvallarbreytingum...”, - eins og þar segir orðrétt. Því skýtur það skökku við að fjármálaráðherra skuli í febrúar, eða eingöngu þremur mánuðum síðar, fyrirvaralaust breyta og þrengja reglur varðandi uppgjör fjármálafyrirtækja í alþjóðlegri mynt og setja án rökstuðnings skilyrði sem erfitt getur reynst að uppfylla. Svo virðist sem stefnu stjórnvalda um aukið frelsi í viðskiptum og minni afskipti ríkisvaldsins til sextán ára sé skyndilega snúið í gagnstæða átt, - án allra skýringa.

Við í Straumi-Burðarási skiljum ekki þau höft sem ríkisstjórnin ákveður að skella á íslensk fjármálafyrirtæki. Við skiljum ekki af hverju stjórnvöld skipta um skoðun á augabragði eftir sérstaklega farsæla og árangursríka uppbyggingu á alþjóðlegri fjármálastarfsemi á Íslandi í kjölfar þess að losað var um hömlur og ríkisafskipti.

Íslenskt stjórnvöld skulda fjármálafyrirtækjum trúverðuga skýringu á því hvers vegna Ísland sé fyrsta lýðræðisríkið á þessari öld til að taka upp gjaldeyrishöft á sama tíma og menn dreymir um að koma hér á fót alþjóðlegri fjármálamiðstöð? Hvers vegna þessi skyndilegu sinnaskipti?

Í stað efnislegra svara við spurningum atvinnulífsins kýs fjármálaráðherra að svara því til að fyrirtækjum sé frjálst að flytja sig þangað sem þeim sýnist og er þá væntanlega í leiðinni að svara Alcan. Slíkt frelsi er sem betur fer engin tíðindi enda viljum við tryggja veru fyrirtækja á Íslandi með því að bjóða þeim kjöraðstæður til að vaxa og dafna. Eins og gjarnan áður verður það væntanlega hlutverk jafnaðarmanna að afnema höft og tryggja viðskiptafrelsi atvinnulífinu og almenningi til hagsbóta. Hin blárauða varðstaða um afturhald sem við blasir eða krafa Framsóknar um að horfa ekki lengra en fjögur til fimm ár fram í tímann, boðar að minnsta kosti ekki mikla framsækni.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Straumur-Burðarás knúinn til að kanna möguleika á að fara til annars lands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband