Sáttmáli um stjórnsýslu í þágu atvinnulífs og þjóðareign auðlinda

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

 Í ljósi umræðu síðustu daga er rétt að rifja upp tvo kafla úr þeim drögum að sáttmála og hvatningu sem settur er fram á vefsíðunni Jafnaðarstefna.com. Auðlindaumræðan hefur nefnilega líka fleiri hliðar og snýr m.a. um þætti eins og eignarhald eða fjárfestingar erlendra aðila í útgerð:

Sátt um þjóðareign á auðlindunum

Stjórnarskárbinda verður sameign þjóðarinnar á auðlindum sínum, ekki síst fiskveiðiauðlindinni, og ljúka þeirri vinnu að tryggja þjóðinni eðlilegan afrakstur af nýtingu þeirra um leið og nytjaleyfum er úthlutað. Hvað varðar nytjastofnana í hafinu er þetta ekki bara réttlætismál fyrir allan almenning heldur er tryggð sameign þjóðarinnar og leikreglur um afrakstur forsendur þess að hægt verði t.d. að opna sjávarútveginn fyrir fjárfestingum erlendra aðila án þess að þar sé um leið verið að höndla með auðlindir þjóðarinnar. Erlent fjármagn fer nú krókaleiðir inn í greinina sem gæti svo sannarlega þurft á beinni fjárfestingu að halda. Sömu skýru reglur geta einnig skipt sköpum gagnvart sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins þegar til viðræðna kemur um aðild. Heilbrigð skynsemi segir okkur jafnframt að núverandi kerfi í sjávarútvegi verði ekki afnumið með einu pennastriki enda allt tal um slíkt ótrúverðugt. Bundnir hagsmunir í greininni og meðal launafólks um land allt eru alltof miklir fyrir töfralausnir. Þess vegna verðum við að vita hvert marmiðið er og setja niður áfangana í auðlindastefnunni svo enginn fari í grafgötur með hvert stefnir frá fyrsta degi nýrrar stjórnar jafnaðarmanna.

Sátt um eflda stjórnsýslu í þágu atvinnulífsins

Til að geta fylgt eftir heildstæðri atvinnu- og nýsköpunarstefnu til framtíðar þarf helst að sameina öll atvinnuvegaráðuneytin í eitt. Hólfun þeirra kallar ekki aðeins á togstreitu og sérhagsmunagæslu milli t.d. rannsóknastofnana og stuðningskerfanna heldur er hún í raun algerlega úrelt af því atvinnurekstur nútímans er byggður á margvíslegri sérþekkingu sem spannar hinar gömlu línur þvers og kruss. Heilbrigð skynsemi segir okkur að það séu engin efnisleg rök fyrir því lengur að aðskilja ráðuneyti iðnaðar og sjávarútvegs, eða viðskipta og landbúnaðar. Af hverju er ferðaþjónustan flokkuð með vegum og flugvöllum á meðan annar útflutningur er á sviði utanríkismála. Þetta verður að skoða, ekki bara með hagræðingu í huga heldur líka til efla allt starf ráðuneyta að atvinnumálum, einfalda eftirlits- og stoðkerfið og bæta þannig starfsumhverfi atvinnulífsins.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband