Sáttmáli stórs jafnaðarmannaflokks við kjósendur
Inngangur
Fjölmargir kjósendur hafa talið sig „heimilislausa“ í íslenskum stjórnmálum á sama tíma og óánægja þeirra með hagstjórn ójafnvægis, hávaxta, stórvirkjana og Evrópumets í okri á neytendum fer sífellt vaxandi. Eins og fram hefur komið undanfarnar vikur er sífellt meiri þungi og alvara á bakvið kröfu þessa breiða hóps um stóran flokk jafnaðarmanna sem sameinar markvissa stefnu í umhverfismálum og ábyrga atvinnustefnu, leggur áherslu á athafnafrelsi einstaklinganna og kosti frjálsrar samkeppni fyrir neytendur um leið og framtíð velferðarkerfisins er tryggð, m.a. með því að útrýma þeirri þjóðarskömm sem aðbúnaður aldraðra er orðinn í þessu ríka landi. Við erum í raun bara að tala um að fylgja heilbrigðri skynsemi og vilja mikils meirihluta kjósenda í þessu landi.
En á sama tíma og verkefnin blasa við og eftirspurnin eftir jafnaðarstefnunni vex snýst stór huti stjórnmálaumræðunnar um skoðanakannanir eða hugsanleg ný framboð um misljós markmið. Æðsta skylda hvers stjórnmálaafls er hins vegar að svara skýrt þeirri spurningu hvernig það sjái samfélag framtíðarinnar fyrir sér og hvaða leið liggi að því marki. Þetta er á ekki síst við um atvinnu- og menntastefnu því þar er grunnurinn lagður að verðmætasköpuninni sem á að standa undir velferð og samhjálp samfélagsins.
Stjórnmálaafl sem svarar lykilspurningunum með afgerandi og skynsamlegum hætti þarf ekkert að óttast og við jafnaðarmenn erum í sameiningu að byggja upp slíkt afl. Samfylkingin var stofnuð til að vera hinn stóri jafnaðarmannaflokkur og hefur að undanförnu stigið mjög mikilvæg skref með hinni ítarlegu umhverfisstefnu sem heitir Fagra Ísland og hefur verið hrósað langt út fyrir raðir flokksins. Henni var svo fylgt eftir á Sprotaþingi 2007 með heildstæðri aðgerðaáætlun um uppbyggingu hátækniiðnaðar á næstu áratugum. Frumkvæði að aðgerðum til lækkunar matvælaverðs og umræðan um þróun skatta- og bótakerfis skiptir einnig miklu máli.
Til að innsigla þá samleið sem þorri kjósenda á með stórum flokki jafnaðarmanna leggjum við upp þessi drög að eins konar sáttmála milli flokks og kjósenda um verkefnin framundan. Við kennum þennan sáttmála við heilbrigða skynsemi enda er hann einfaldlega settur saman úr þeim grundvallarsjónarmiðum um jöfnuð, jafnrétti og athafnafrelsi einstaklinganna sem meginþorri kjósenda aðhyllist, stefnu Samfylkingarinnar eins og hún liggur fyrir og ítrekuðum ábendingum fræðimanna og fulltrúa bæði launafólks og atvinnulífsins um það sem betur má fara. Þarna á milli er nær alger samhljómur svo verkefnið er einfalt ef við göngum í það í sameiningu og um það snýst þín undirskrift: Undirskriftin er í senn hvatning til frambjóðenda og forystu Samfylkingarinnar að halda einbeitt fram málstað jafnaðarstefnunnar og heilbrigðrar skynsemi í stjórnmálum og hvatning til allra jafnaðarmanna um að ganga samhentir til verka.
Sáttmálinn
Fagra Ísland og sú rammáætlun um náttúrvernd sem þar er boðuð verði hornsteinn umhverfisstefnu og auðlindanýtingar nýrrar ríkisstjórnar. Ástæðan fyrir þessari megináherslu er sú að það skiptir bæði náttúru landsins og kjósendur mestu að ramminn utan um verndun og nýtingu sé skýr. Heilbrigð skynsemi segir okkur líka að það sé ekki víst að allar þær framkvæmdir sem þegar eru komnar í gegnum matsferli og hafa jafnvel fengið starfsleyfi verði stöðvaðar í tíma, hvað þá að varpa ábyrgð á slíku á herðar sveitarstjórnarmanna sem glíma við ærin verkefni í atvinnu- og byggðamálum heima í héraði.
Rammaáætlun um náttúruvernd og nýtingu orkuauðlinda er ekki einungis brýnt umhverfismál heldur um leið skynsamleg atvinnustefnu á tímum þenslu og hækkandi orkuverðs í heiminum. Með henni skapast tækifæri til að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi með orkusölu til annars konar iðnaðar enda segir heilbrigð skynsemi okkur að hvorki erlend stórfyrirtæki né erlend fjárfesting í íslenskum iðnaði sé í sjálfu sér af hinu vonda. Við eigum þvert á móti að leggja allt kapp á að auka erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, ekki síst í hátækniiðnaði ýmis konar. Mikill meirihluti fólks telur að með skynsemi geti náttúruvernd og nýting farið saman en þá er skilyrðið að ramminn til framtíðar sé skýr svo við getum forðast slys fortíðarinnar.
Unnin verði raunveruleg atvinnu-, mennta- og nýsköpunarstefna sem valkostur við stóriðjustefnuna. Áherslan á að vera á alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands, jákvætt rekstrarumhverfi þekkingarfyrirtækja og forgangsröðun rannsóknarfjár til skilgreindra vaxtargreina. Öflugir innviðir á borð við fjarskiptanet og samgöngur skipta atvinnulífið, ekki síður en íbúana líka miklu auk þess sem uppbyggingin verður að ná til fleiri svæða en Suðvesturhornsins. Heilbrigð skynsemi segir að það sé ekki neikvætt heldur jákvætt ef fyrirtæki á samkeppnismarkaði eru rekin með hagnaði því þannig skila þau þjóðarbúinu arði, byggja upp þekkingu og standa undir góðum lífskjörum. Þess vegna á að passa upp á og halda því sem vel hefur verið gert á undanförnum árum, t.d. í því að bæta starfsumhverfi fyrirtækja og efla samkeppnishæfni Íslands. Atvinnulífið allt verður að geta treyst því að stjórn jafnaðarmanna muni halda áfram að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækjanna í landinu því þau eru okkur lítils virði flytji þau burt. Ísland á alltaf að vera meðal topp 10.
Stefna verður markvisst að því að Ísland uppfylli allar kröfur Evrópusambandsins um jafnvægi, lága verðbólga og lítinn viðskiptahalla sem eru forsendur þess að geta gengið í myntbandalag Evrópu og tekið upp Evruna sem gjaldmiðil eða lagað fjármálamarkað okkar betur að fjármálamarkaði umheimsins. Þá eigum við raunverulegt val um framtíðarstefnu okkar auk þess hags sem almenningur og fyrirtækin hafa af jafnvægi og vaxtastigi sem er meira í takt við helstu viðskiptalönd en nú er. Heilbrigð skynsemi segir okkur að Evran ein og sér sé engin endanleg töfralausn á íslenskum hagstjórnarvanda. Áfram þarf að gæta jafnvægis en kostirnir fyrir íslenskan almenning og atvinnulíf yrðu ekki síst þeir að opna hagkerfið og samfélagið enn frekar fyrir heilbrigðri samkeppni á sviðum sem nú er mjög erfitt að koma slíku á, auðvelda fyrirtækjum að afla erlendra fjárfestinga og spara milljarða í gjaldeyriskostnað. Í lokin verður svarið við spurningunni pólitískt en ekki tæknilegt og kjósendur verða að fá að svara henni sjálfir fyrr eða síðar.
Til að lækka verðlag og efla samkeppni á matvörumarkaði þarf að ráðast í tollalækkanir og afnám margvíslegra innflutningshafta. Heilbrigð skynsemi segir okkur að kostnaðarlækkanir og hagræðing náist ekki fram að fullu í skjóli hafta og skömmtunarstefnu og íslenskir neytendur ætla ekki að borga yfirverð fyrir nauðsynjavörur sínar um aldur og ævi. Sjálfstæð ákvörðun og stuðningur við aðlögun er miklu betri kostur fyrir alla aðila en að taka skell síðar meir.
Ráðast verður í úrbætur á skatta- og velferðarkerfinu til að útrýma gildrum skerðinga og fátæktar. Helsta réttlæting tekjuskattskerfisins er tekjujöfnun milli hópa og því ótækt að það skuli á undanförnum árum hafa stuðlað að auknum ójöfnuði með því að færa skattbyrðina neðar í tekjuskalann og yfir á herðar þeirra sem síst skyldi. En um leið og þetta er lagfært verða jafnaðarmenn líka að gæta sín á því að krefjast ekki fyrst og fremst jöfnunar niður á við, þ.e. láta eftir þeim freistingum popúlismans að spila á öfund í garð þeirra sem mestra tekna afla. Í stað beinna skattahækkana er hægt að skoða reglur um að þeir sem eingöngu hafi fjármagnstekjur skuli reikna sér endurgjald og borga af því tekjuskatt og fleiri slíkar leiðir. Gæta þarf þess að stundarreiði yfir ójöfnuði skaði ekki samkeppnishæfni Íslands og þar með lífskjör í landinu til lengri tíma. Jafnvægi þarna á milli er heilbrigð skynsemi.
Gert verði tafarlaust átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða enda aðbúnaður fólks sem neyðist til að telja hálfa litla sjúkrastofu heimili sitt síðustu æviárin hneysa sem verður að uppræta. Með einu pennastriki rétt fyrir kosningar geta ráðherrar fjármála og landbúnaðar lofað 16 milljörðum verðtryggt úr ríkissjóði til sauðfjárbænda á næsta kjörtímabili en á sama tíma hefur ríkisstjórnin tekið stórfé úr framkvæmdasjóði aldraðra og notað í annað en sá nefskattur er innheimtur til. Heilbrigð skynsemi og siðferðisvitund segir að svona geri menn ekki.
Íslensk stjórnvöld taki upp sjálfstæða utanríkisstefnu og þvoi opinberlega þann skammarstimpil af þjóðinni sem opinber og virkur stuðningur við hernaðinn í Írak er. Heilbrigð skynsemi segir okkur að innanflokksiðrun sendi engin skilaboð til umheimsins um raunverulega afstöðu íslensku þjóðarinnar til blóðbaðsins sem efnt var til með ólögmætum hætti, á fölskum forsendum og ekki sér enn fyrir endann á. Íslendingar verða sjálfir að hafa frumkvæði að því að draga sig út úr bandalagi hinna viljugu þjóða sem innrásarherinn var kenndur við í upphafi.
„Báknið burt“ var eitt sinn vígorð þeirra sem mest hafa þanið það út á síðustu árum, m.a. inn á samkeppnismarkað með kaupum á fyrirtækjum í fullum rekstri. Ríkisstjórn jafnaðarmanna ætti að bjarga þessu slagorði frá því að verða öfugmæli með því að skilgreina ríkið sem gagnrýninn kaupanda vöru og þjónustu á fleiri sviðum, setja mælanleg markmið um gæði og afhendingu og efla samkeppniseftirlit til að virkja markaðinn. Heilbrigð skynsemi segir okkur að það sé ekkert samhengi á milli þess að vera jafnaðarmaður og vilja auka jöfnuð og jafnrétti í samfélaginu og að ríkisútgjöld eigi að vaxa stjórnlaust enda sýnir sagan að vöxturinn hefur verið hvað mestur undir stjórn þeirra afla sem vilja teygja stjórnmálin inn á sífellt víðtækara svið, helst langt inn á svið atvinnulífsins. Kaup á rannsóknarþjónustu og margvíslegum lausnum getur líka virkað sem mikilvæg hvatning hins opinbera til sprotafyrirtækja á markaði í stað þess að byggja upp sjálfum sér nógar stofnanir.
Stjórnarskárbinda verður sameign þjóðarinnar á auðlindum sínum, ekki síst fiskveiðiauðlindinni, og ljúka þeirri vinnu að tryggja þjóðinni eðlilegan afrakstur af nýtingu þeirra um leið og nytjaleyfum er úthlutað. Hvað varðar nytjastofnana í hafinu er þetta ekki bara réttlætismál fyrir allan almenning heldur er tryggð sameign þjóðarinnar og leikreglur um afrakstur forsendur þess að hægt verði t.d. að opna sjávarútveginn fyrir fjárfestingum erlendra aðila án þess að þar sé um leið verið að höndla með auðlindir þjóðarinnar. Erlent fjármagn fer nú krókaleiðir inn í greinina sem gæti svo sannarlega þurft á beinni fjárfestingu að halda. Sömu skýru reglur geta einnig skipt sköpum gagnvart sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins þegar til viðræðna kemur um aðild. Heilbrigð skynsemi segir okkur jafnframt að núverandi kerfi í sjávarútvegi verði ekki afnumið með einu pennastriki enda allt tal um slíkt ótrúverðugt. Bundnir hagsmunir í greininni og meðal launafólks um land allt eru alltof miklir fyrir töfralausnir. Þess vegna verðum við að vita hvert marmiðið er og setja niður áfangana í auðlindastefnunni svo enginn fari í grafgötur með hvert stefnir frá fyrsta degi nýrrar stjórnar jafnaðarmanna.
Til að geta fylgt eftir heildstæðri atvinnu- og nýsköpunarstefnu til framtíðar þarf helst að sameina öll atvinnuvegaráðuneytin í eitt. Hólfun þeirra kallar ekki aðeins á togstreitu og sérhagsmunagæslu milli t.d. rannsóknastofnana og stuðningskerfanna heldur er hún í raun algerlega úrelt af því atvinnurekstur nútímans er byggður á margvíslegri sérþekkingu sem spannar hinar gömlu línur þvers og kruss. Heilbrigð skynsemi segir okkur að það séu engin efnisleg rök fyrir því lengur að aðskilja ráðuneyti iðnaðar og sjávarútvegs, eða viðskipta og landbúnaðar. Af hverju er ferðaþjónustan flokkuð með vegum og flugvöllum á meðan annar útflutningur er á sviði utanríkismála. Þetta verður að skoða, ekki bara með hagræðingu í huga heldur líka til efla allt starf ráðuneyta að atvinnumálum, einfalda eftirlits- og stoðkerfið og bæta þannig starfsumhverfi atvinnulífsins.
Öll stjórnsýsla verður að vera gegnsæ og hafin yfir vafa. Það er fullkomlega óeðlilegt að búa við það árum saman að grunsemdir um aðkomu pólitískra yfirvalda að málum framkvæmdavalds gegn einstökum fyrirtækjum gegnsýri allt samfélagið, burtséð frá því hvernig málið er í raun vaxið. Kjósendur eiga ekki að vera í þeirri afkáralegu stöðu að vera krafðir um að taka afstöðu með eða móti einstökum fyrirtækjasamsteypum og tengja það beint við afdrifaríka lagasetningu um starfsskilyrði heilla atvinnugreina. Heilbrigð skynsemi segir okkur að stjórnmálamenn eigi að setja skýrar leikreglur og svo taki einfalt og áhrifaríkt eftirlitskerfi framkvæmdavaldsins við, t.d. á sviði samkeppnis- og skattamála.
Stefnumótun og fögrum orðum í málefnum innflytjenda þarf að fylgja eftir með fjármögnun svo hægt sé að standa undir því eftirlitskerfi gegn félagslegum undirboðum sem koma verður upp og tryggja aðlögun með tungumálakennslu. Heilbrigð skynsemi segir okkur að Íslendingar séu ekkert á leið með að afsala sér fjórfrelsinu (þ.mt. rétti fólks til að flytjast milli landa) með því að segja upp samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og flóttamenn hafa ekki verið að fá hér hæli þannig að allt tal um stórherta innflytjendastefnu mun bitna hart á tiltölulega fáum einstaklingum og fyrirtækjum án þess að hafa nein teljandi áhrif önnur. Jákvæð aðlögun, markvissar aðgerðir gegn myndun sérstakra innflytjendahverfa, barátta gegn félagslegum undirboðum og brotum gegn kjörum og réttindum erlends launafólks er allt miklu líklegra til árangurs.
Lokaorð
Sá sáttmáli sem hér er settur fram er kenndur við heilbrigða skynsemi. Í sem allra stystu máli gengur hann út á að byggja þær brýr sem kjósendur gera nú kröfu um:
- Setja náttúruvernd í öndvegi um leið og framfylgt er skynsamlegri atvinnustefnu.
- Bæta enn samkeppnishæfni og starfsumhverfi íslensks atvinnulífs um leið og velferðarkerfið er eflt og tekið á þjóðarskömm á borð við aðbúnað aldraðra.
- Taka á verðlags- og neytendamálum með beinum aðgerðum og eflingu virkrar samkeppni með enn frekari opnun hagkerfisins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 13.2.2007 (breytt 21.2.2007 kl. 22:45) | Facebook