Trúir þú á tilviljanir? Jafnaðarfólk, viðskiptafrelsi og velferð

Formaður Framsóknarflokksins spyr lesendur Fréttablaðsins með heilsíðuauglýsingu hvort þeir trúi á tilviljanir. Svo fylgir með listi yfir mælikvarða á sviði viðskiptaumhverfis sem flestir eiga það sameiginlegt að vera afrakstur baráttu jafnaðarfólks fyrir auknu viðskiptafrelsi og opnun Íslands gagnvart umheiminum. Umhyggja auglýsandans fyrir frelsi og samkeppni nær t.d. ekki svo langt að telja að viðskipti með mikilvægustu landbúnaðarafurðir skuli falla undir samkeppnislög öllum til hagsbóta. Sérstaka athygli vekur einnig sú leiða staðreynd að eftir að hafa verið í 1. sæti yfir þau lönd þar sem minnst spilling ríkir skuli Ísland fallið af toppnum og það þótt aðeins sé byggt á svörum fulltrúa viðskiptalífsins og tilfinningu í hverju landi fyrir sig (við höfum jú gjarnan verið hamingjusömust allra að eigin sögn og jafnframt minnst spillt). Kannski stafar þetta síðastnefnda fall af toppnum einmitt af því að fólk er ekki jafn trúað á tilviljanir og ríkisstjórnarflokkarnir gjarnan vildu að það væri?

Þær eru nokkuð margar tilviljanirnar í stjórnsýslunni og réttarkerfinu á valdatíma fráfarandi ríkisstjórnar sem auglýsandinn glaðbeitti ætlar okkur að trúa. Mannaráðningar og skipanir hæstaréttadómara sem tengjast ráðherrum fjölskyldu- og trúnaðarböndum, sérstakar fyrirgreiðslur og flýtiafgreiðslur ríkisborgararéttar, stríðsyfirlýsingar án löglegrar afgreiðslu, bankasölur með millilendingu og ofsagróða hjá fyrrverandi ráðherra, sértæk fjölmiðlalög og margt fleira sem of langt mál er að rifja upp.

Hins vegar er það nokkuð rétt hjá auglýsandanum að það er engin tilviljun að það var jafnaðarfólk sem ævinlega hefur haft forgöngu um aukið viðskiptafrelsi og afnám hafta hér á landi, gjarnan þvert gegn vilja og stefnu þeirra sem sagt hafa stopp og viljað standa á bremsunni. Aðildin af EFTA og EES stendur ef til vill uppúr og þá ekki síst EES sem nær enginn vill nú kannast við að hafa verið á móti (sama verður líklega upp á teningnum eftir ESB aðild). Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, var á sínum tíma sökuð um að hafa beinlínis rutt EES samningnum braut gegnum Alþingi með því að synda ein gegn straumi síns þáverandi flokks og lýst yfir stuðningi við aðild. Þar sem hún kom ekki að gerð aðildarsamningsins sem slíks sat hún hjá við sjálfa atkvæðagreiðsluna en stuðningur hennar var ótvíræður eins og sést best á hörðum viðbrögðum andstæðinga samningsins.

Á síðasta ársfundi Útflutningsráðs Íslands fór Valur Valsson, stjórnarformaður og fyrrverandi bankastjóri, yfir þau þrjú atriði sem hafa haft langmest áhrif í þá veru að skapa hér þá velsæld sem ríkt hefur undanfarin ár:

Í fyrsta lagi þjóðarsáttarsamningar 1990 sem réðu loks niðurlögum verðbólgunnar og lögðu grunn að stöðugleika á vinnumarkaði sem skapaði atvinnulífinu ný skilyrði til vaxtar og sóknar.

Í öðru lagi aðildin að hinu Evrópska efnahagssvæði sem jók viðskiptafrelsi almenningi og atvinnulífi til hagsbóta.

Í þriðja lagi einkavæðing ríkisfyrirtækja, einkum viðskiptabankanna, sem leysti úr læðingi mikla krafta sem m.a. hafa nýst íslenskum fyrirtækjum til útrásar á erlenda markaði.

Trúir þú á tilviljanir? Það var verkalýðshreyfingin, samtök atvinnurekenda og ríkisstjórn jafnaðarfólks sem kom þjóðarsáttinni á. Jafnaðarfólk átti frumkvæði að aðildinni að EES og fylgdi málinu eftir, oft á tíðum gegn mikilli og víðtækri andstöðu. Jafnaðarfólk á þingi studdi einarðlega einkavæðingu viðskiptabankanna en gerði alvarlegar athugasemdir við framkvæmdina vegna hættu á fákeppni og hækkunum á vöxtum og þjónustugjöldum.

Jón Baldvin Hannibalsson sagði m.a. þetta á þingi við hlutafélagavæðingu ríkisbankanna:

Fyrsti minni hluti telur að það sé löngu tímabært að stokka upp hið staðnaða ríkisbankakerfi. Umsvif ríkisvaldsins í viðskiptabankakerfinu eru mun umfangsmeiri hérlendis en í grannalöndum. Það hefur ítrekað verið bent á að þetta þurfi endurskoðunar við.

Ágúst Einarsson hafði m.a. uppi þessu varnaðarorð sem rétt er að rifja upp:

Það er líka staðreynd að vextir eru hér hærri en í nágrannalöndunum og að við erum með óhagkvæmt bankakerfi og hærri þjónustugjöld en í nágrannalöndunum. Hluti er vegna fámennis, hluti er einfaldlega vegna skipulags okkar í bankamálum. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að aukin samkeppni á þeim markaði væri mjög brýn og þá sérstaklega með því að fá inn erlenda banka, bæði starfandi eða sem hluthafa, sem ekki hefur reyndar orðið enn í okkar fjármálaumhverfi. En það má benda á að það eru margar ástæður til að hafa áhyggjur af einmitt skipulagi í bankakerfinu.

Allir þekkja hvernig möndlað var með eignarhald tryggingafélaga og fleira í kringum söluna á ríkisbönkunum. Meira að segja náinn samstarfsmaður Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, sagði af sér formennsku í einkavæðingarnefnd í mótmælaskyni við vinnubrögðin. En auglýsandinn í Fréttablaðinu ætlar okkur kjósendum auðvitað að trúa að það sé tilviljun að það var fyrrverandi ráðherra flokksins og aðilar í viðskiptalífinu nátengdir fjármálaarmi Framsóknarflokksins sem högnuðust um milljarða í þessum bankaviðskiptum. Meira að segja molar af borðinu hrukku til fjölskyldu þáverandi formanns flokksins.

Á þessari auglýsingu birtast einnig tvær aðrar skemmtilegar grafískar tilviljanir sem velta má fyrir sér í þessu samhengi. Í fyrsta lagi er hið nýja afmælismerki Framsóknarflokksins eins og táknræn mynd af því sem á Ensku er kallað "brown-nosing". Í öðru lagi er eins og X-ið í kosningamerkinu sé að berjast við að slíta sig laust frá B-inu og komast sem lengst frá því en B-ið reyni að halda því hjá sér með því að stíga á einn legg þess. Kannski X-ið nái að slíta sig laust fyrir 12. maí? Líkurnar á því aukast eftir því sem trú kjósenda á tilviljanir minnkar.

Hugmyndafræðileg forystu jafnaðarfólks og frumkvæði að því að leggja grundvöll að framförum og velmegun með auknu viðskiptafrelsi er engin tilviljun enda er hin tvíþætta áhersla jafnaðarfólks á öflugt atvinnulíf og athafnafrelsi einstaklinga annars vegar og jöfn tækifæri og réttindi allra hins vegar. Það er heldur engin tilviljun að á sama tíma og ríkisstjórn hinna hefðbundnu helmingaskipta í íslenskum stjórnmálum hefur skreytt sig með fjöðrum jafnaðarfólks og fylgt hugmyndalegri forystu þess hefur hin hlið jafnaðarstefnunnar orðið út undan, þ.e. áherslan á velferðina, jöfnuðinn, jafnrétti og félagslegt réttlæti.

Aðeins stór jafnaðarflokkur mun megna að breyta því - það er engin tilviljun.

Við skulum ekki láta tilviljanir ráða því hvaða áherslur, stefna, verkefni og framtíðarsýn verður ofan á eftir 12. maí nk.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband