Skilaboð Framsóknar: Ekki kjósa um framtíðarsýn

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Skilaboð formanns Framsóknarflokksins til kjósenda í grundvallarmálum á borð við aðild að Evrópusambandinu og fyrirkomulag gengismála eru að ekki megi kjósa um afstöðu flokka til þeirra nú heldur einhvern tímann síðar (væntanlega þegar stjórnarflokkarnir telja það tímabært). Ótti hans við umræðuna og kröfur um framtíðarsýn er skiljanlegur. En það er furðuleg skammsýni að segja berum orðum að "langtímaákvarðanir" um "breytta stefnu" séu "ekki tímabærar nú" og vísa í því sambandi til þess að það muni taki fjögur til fimm ár að koma aftur á jafnvægi og stöðugleika í efnahags-, atvinnu- og gjaldeyrismálum eftir núverandi ríkisstjórn.

Fjögur til fimm ár eru ekki langur tími og ef Íslendingar ætla að taka ákvarðanir varðandi ESB á eigin forsendum þarf að undirbúa þær strax á næsta kjörtímabili. Skilgreining samningsmarkmiða og sátt um þau er ferli sem tekur tíma. Samráð við aðila í atvinnulífi og samspil atvinnustefnu og markmiða Íslands er ferli sem tekur tíma. Svo þarf að kynna niðurstöðuna og gefa þjóðinni kost á að segja hug sinn með lýðræðislegum hætti.

Í ljósi þess að bæði Evrópusambandið og allt efnahags- og fjármálaumhverfið er líka að taka stöðugum breytingum er ábyrgðarlaust að tala eins og hægt sé að hafa "óbreytta" stefnu. Hver er sú "stefna"? Að fleiri fyrirtæki greiði atkvæði með fótunum þótt fjármálaráðuneytið reyni að girða fyrir það með vægast sagt hæpnum reglugerðum? Að sífellt erfiðara og dýrara verði að viðhalda EES samningnum eftir því sem aðilarþjóðum fjölgar og þeim fækkar sem muna yfirleitt eftir þeirri "aukaaðild" sem hefur reynst okkur svo vel hingað til en hve lengi enn ...?

Hverju ætla stjórnmálamenn að svara þeim hátæknifyrirtækjum á borð við líftæknifyrirtækin íslensku, sem eru að leita að erlendum fjárfestum og samstarfsaðilum og þurfa ekki aðeins að búa við hávexti og gengissveiflur heldur að sannfæra erlenda aðila um að bæta gengisáhættu ofan á alla aðra áhættu sem fylgir fjárfestingum í þessari grein? Samkeppnisstaða þeirra gagnvart fyrirtækjum á stærri myntsvæðum er sjálfkrafa skekkt. Ef það er markmið í sjálfu sér að halda í sjálfstæðan gjaldmiðil er lágmarkskrafan sú að því sé svarað hvernig tryggja eigi samkeppnishæfni atvinnulífsins hér. Atvinnutækifæri og erlend fjárfesting í álverum getur verið ágæt svo langt sem hún nær en svarar ekki til lengdar kröfum ungs fólks um nýsköpun og spennandi og arðbær störf í þekkingargreinum.

Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja kynntu í gær skýrslu bandaríska ráðgjafafyrirtækisins Strategro um umhverfi íslenska líftækniiðnaðarins. Þar koma fram margar mjög áhugaverðar og gagnlegar ábendingar sem t.d. Jón Sigurðsson mætti skoða vandlega.

Stjórnmálasamtök sem óttast fátt meira en að horft sé lengra en fjögur til fimm ár fram í tímann ættu að snúa sér að einhverju öðru en að vilja eiga þátt í að móta framtíð fyrir komandi kynslóðir.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Jón Sigurðsson: eigum að taka ákvarðanir varðandi ESB aðild á eigin forsendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband