Varðstaða um afturhald

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkur hafa sameinast um að ákvörðun um framtíðarstöðu Íslands gagnvart samstarfi Evrópuþjóða skuli byggjast á mati þessarra flokka á því sem þeir telja líklegast að aðild hefði í för með sér. Í stað þess að nota vinnu Evrópustefnunefndarinnar í að skilgreina og ná samstöðu um samningsmarkmið í aðildarviðræðum og leiða upplýsta umræðu um málið kemur fram gamalkunnug varðstaða um afturhald. Umfram allt má ekki láta reyna á aðildarviðræður og gefa þjóðinni sjálfri kost á að segja hug sinn. Ekki opna íslenskan fjármála- og tryggingamarkað fyrir virkri erlendri samkeppni neytendum og atvinnulífi til hagsbóta. Alls ekki vinna að markaðsaðlögun landbúnaðar og lægra matvælaverði til frambúðar.

En þegar leitað er að framtíðarsýninni verður færra um svör eins og áður hefur verið vikið að. Í síbreytilegum heimi þar sem vægi EES samninginn verður sífellt tvísýnna er óbreytt ástand ekki valkostur án einhverra virkra aðgerða. VG hefur sagt að hægt væri að þróa EES samninginn yfir í tvíhliða fríverslunarsamning en gleymir þá að taka með í reikninginn allt vísinda- og menntasamstarfið sem Íslendingar eru aðilar að, öll þau félagslegu réttindamál sem íslenskt launafólk hefur fengið í gegnum samstarfið eða gildi virkrar þátttöku í samfélagi þeirra þjóða sem standa okkur næst og við eigum mest viðskipti við.

Forsendurnar fyrir varðstöðunni eru að mestu gefnar: Að "engar líkur" séu að samist geti um yfirráð Íslendinga yfir fiskveiðistjórn innan lögsögunnar. Sérfræðingar sem um málið hafa fjallað eru ekki sammála um þetta atriði og aðeins ein leið fær til að fá niðurstöðu en hana má ekki skoða.

Athyglisverð er líka sú aðvörun að aðild að Evrópusambandinu þýði að Íslendingar glati réttinum til að gera sjálfstæða viðskiptasamninga við önnur ríki. Ætla mætti að þetta vægi nú þegar mjög þungt hér á landi. En þegar listinn yfir fríverslunarsamninga Íslands við önnur ríki er skoðaður á vefsíðu utanríkisráðuneytisins kemur í ljós að allir fríverslunarsamningar Íslands, utan samninga við Grænland og Færeyjar, tengjast annaðhvort EES aðildinni eða EFTA samstarfinu. Í því ljósi er líka athyglisvert að skoða upphaf áherslu EFTA á fríverslunarsamninga við ríki utan ESB. Á vef utanríkisráðuneytisins kemur einmitt fram að það voru fríverslunarsamningar ESB sem komu málinu á hreyfingu og markmið EFTA var að fylgja á eftir svo aðildarríki þess lentu ekki í lakari samkeppnisstöðu á nýjum mörkuðum sem ESB var að semja við:

"Ef ekkert hefði verið að gert af hálfu EFTA hefðu slíkir fríverslunarsamningar ESB- og AME-landanna leitt til þess að fyrirtæki í EFTA-ríkjunum hefðu haft verri samkeppnisaðsöðu á AME-mörkuðum en samkeppnisaðilar þeirra í ESB. Þess vegna ákváðu EFTA-ríkin í Gautaborg í júní 1990 að hefjast handa við að koma upp samhliða neti fríverslunarsamninga við AME-lönd til að koma í veg fyrir þessa samkeppnisröskun."

Þeir félagar Steingrímur J. Sigfússon og Björn Bjarnason geta væntanlega listað þau lönd og samtök sem Ísland leggur áherslu á að ná fríverslunarsamningum við sem ekki eru annað hvort þegar með slíka samninga við ESB ríkin eða samningar á döfinni?

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is VG og Sjálfstæðisflokkur gegn ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Í fyrsta lagi væri það fyrst afturhald að ganga í Evrópusambandið. Ný rannsókn bendir t.a.m. til þess að efnahagslíf sambandsins sé meira en 20 árum á eftir efnahag Bandaríkjanna og fátt bendir til þess að það muni breytast. Fremur er talið líklegt að bilið þar á milli muni aukast en hitt. Viljum við vera hluti af þessu? Hvar er framförin nákvæmlega í því?

Í annan stað er ekkert sem bendir til þess að EES-samningurinn sé að syngja sitt síðasta. Meiri líkur verða að teljast á því að evrusvæðið líði undir lok.

Í þriðja lagi er ljóst að einhvers konar "könnunarviðræður" við Evrópusambandið eru ekki í boði af hálfu þess. Minnungis reynslunnar af Norðmönnum eru ráðamenn í Brussel af skiljanlegum ástæðum ekki ýkja spenntir fyrir því að fara í aðildarviðræður við Íslendinga nema það sé markmið okkar að ganga í sambandið. T.a.m. kom Denis MacShane, fyrrv. Evrópumálaráðherra Breta, inn á þetta í heimsókn til Íslands sumarið 2004 og bætti við að það væri lítið gagn í því fyrir Evrópusambandið að fara í aðildarviðræður við Íslendinga ef aðild yrði svo felld í þjóðaratkvæði.

Í fjórða lagi "kóperaði" EFTA vissulega í fyrstu nánast fríverzlunarsamninga sem Evrópusambandið hafði áður gert en nokkur ár eru síðan EFTA fór fram úr sambandinu að þessu leyti og hefur nú gert ýmsa samninga sem Evrópusambandinu hefur ekki tekizt að ná. Því má heldur ekki gleyma að framsal sjálfstæðs samningaréttar til Brussel við aðild að Evrópusambandinu myndi líka ná yfir saminga um skiptingu deilistofna sem skipta Íslendinga mjög miklu máli. Þeir samningar hafa m.a. verið við Evrópusambandið. Við aðild myndi sambandið í raun semja við sig sjálft um þá hluti án þess að við hefðum þar mikil áhrif á.

Í fimmta lagi. Endilega leggið sem mesta áherzlu á Evrópusambandsaðild í Samfylkingunni. Það hefur klárlega ekki verið að hjálpa ykkur hingað til ;)

Hjörtur J. Guðmundsson, 7.3.2007 kl. 16:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband