Úr sáttmáladrögunum - Atvinnustefna og jákvætt rekstrarumhverfi

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Heilbrigð skynsemi segir okkur að öflugt atvinnulíf sem skilar arði sé undirstaða bæði góðra launa og velferðarkerfisins. Þess vegna eiga jafnaðarmenn að láta rekstrarskilyrði atvinnulífsins sig miklu skipta sem og samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegu samhengi. Við getum ekki lengur tekið ákvarðanir hér á landi eins og það hafi engar afleiðingar þegar sagan sýnir að fyrirtæki flytjast milli landa með litlum fyrirvara.

Svo skemmtilega vill til að ótrúlega sterk staða Norðurlandanna í fjölþjóðlegum samanburði á samkeppnishæfni landa hefur orðið sérstakt umræðuefni spekinga í þeim fræðum. Sú gamla trú að öflugt velferðarkerfi hljóti að bitna á atvinnulífi og samkeppnishæfni reynist ekki standa skoðun. Það styrkir þvert á móti innviði samfélagsins í heild að hafa öflugt heilbrigðiskerfi, almannatryggingar sem tryggja að enginn sé skilinn eftir og draga þar með úr misrétti og ekki síst gott aðgengi að menntakerfi. Jafnrétti kynjanna er líka mikilvægur þáttur í að auka samkeppnishæfnina því misrétti veldur því að mikilvæg auðlind er ónýtt. Ef menn líta á þetta frá sjónarhóli heilbrigðrar skynsemi hlýtur að blasa við að heilbrigði, jafnrétti og menntun sé styrkleiki.

Í atvinnulífi nútímans er stefnan í menntamálum, rannsóknum og þróun, nátengd atvinnustefnunni. Þar er átaks þörf því það er ekki nóg að setja peninga í rannsóknir ef lítið kemst á legg af sprotafyrirtækjum og hátækniiðnaði. Við viljum vera hálaunaland og þekkingarsamfélag og þess vegna keppum við aldrei við láglaunasvæði heimsins í margvíslegri framleiðslu. Staða okkur ræðst því umfram allt annað af menntastiginu og hátækniiðnaði, vöruþróun og hönnun, sem hér þrífst.

Stjórn jafnaðarmanna á boða betri tíð og bætt starfsskilyrði atvinnulífsins í landinu. Hér á eftir fylgir því kaflinn um atvinnu-, mennta- og nýsköpunarstefnu úr sáttmálanum um heilbrigða skynsemi sem birtur er í heild hér á síðunni:

Unnin verði raunveruleg atvinnu-, mennta- og nýsköpunarstefna sem valkostur við stóriðjustefnuna. Áherslan á að vera á alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands, jákvætt rekstrarumhverfi þekkingarfyrirtækja og forgangsröðun rannsóknarfjár til skilgreindra vaxtargreina. Öflugir innviðir á borð við fjarskiptanet og samgöngur skipta atvinnulífið, ekki síður en íbúana líka miklu auk þess sem uppbyggingin verður að ná til fleiri svæða en Suðvesturhornsins. Heilbrigð skynsemi segir að það sé ekki neikvætt heldur jákvætt ef fyrirtæki á samkeppnismarkaði eru rekin með hagnaði því þannig skila þau þjóðarbúinu arði, byggja upp þekkingu og standa undir góðum lífskjörum. Þess vegna á að passa upp á og halda því sem vel hefur verið gert á undanförnum árum, t.d. í því að bæta starfsumhverfi fyrirtækja og efla samkeppnishæfni Íslands. Atvinnulífið allt verður að geta treyst því að stjórn jafnaðarmanna muni halda áfram að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækjanna í landinu því þau eru okkur lítils virði flytji þau burt. Ísland á alltaf að vera meðal topp 10.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband