Skýr framtíðarsýn og atvinnustefna - Sprotaþing 2007

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Helsta skylda hvers stjórnmálaflokks er að svara því skýrt hvernig samfélag hann vill sjá í framtíðinni. Flokkar án skýrrar stefnu í atvinnumálum eru því að skila auðu. Í þessu ljósi var afar lærdómsríkt að vera þátttakandi í Sprotaþingi 2007 sem Samtök iðnaðarins og Samtök sprotafyrirtækja héldu í Laugardalshöllinni með miklum sóma 2. febrúar sl. Þarna komu saman um 200 fulltrúar vaxandi hátækni- og sprotafyrirtækja, rannsóknastofnana, háskóla og þingflokkanna til að ræða og meta efnislegar tillögur stjórnmálaflokkanna um aðgerðir til að efla hátækniiðnaðinn í landinu og bæta starfsskilyrði sprotafyrirtækja.

Aðeins einn flokkanna svaraði kalli atvinnulífsins um heildstæða sýn á það hvernig stuðla mætti að uppbyggingu öflugs hátækniiðnaðar á næstu áratugum með markvissri aðgerðaáætlun til 10 ára þar sem tekið var bæði á stuðningi og starfsumhverfinu. Enda fór það svo að í mati þingfulltrúanna röðuðu þrjár tillögur jafnaðarmanna sér í þrjú efstu sætin. Þar á eftir komu svo einnig ágætar tillögur stjórnarflokkanna um að auðvelda fyrirtækjunum ráðningar erlendra sérfræðinga, um stofnun auðlindasjóðs til eflingar rannsóknum og skattalega hvata til fjárfestingar í sprotafyrirtækjum. Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að Ísland verði áfram í fremstu röð hvað varðar skattlagningu atvinnurekstrar komst ekki á blað en skýringin gæti allt eins verið sú að fyrirtæki telji slíkt sjálfgefið og óþarft að kynna það sem sérstakt stefnumál.

Í tillögum Samfylkingarinnar var rakið hvernig beinar og óbeinar opinberar stuðningsaðgerðir og stefna hafa á undanförnum áratugum byggt upp öflugan sjávarútveg og síðar gífurlegar fjárfestingar í stórvirkjunum og áliðju. Nú er tímabært að stjórnvöld beini sjónum sínum og kröftum að hátækniiðnaðinum enda getur hann skilað miklum verðmætum eins og dæmin sanna. Heilbrigð skynsemi segir okkur að fara þá leið við að byggja upp samfélag framtíðarinnar frekar en boða stöku risaframkvæmdir til bjargar byggðalögum eða lýsa einfaldri andstöðu við öll uppbyggingaráform en skila að öðru leyti auðu í atvinnumálum til framtíðar.

Jafnaðarmenn eiga að gera sáttmála við bæði kjósendur og atvinnulífið um að fylgja skynsamlegri atvinnu- og menntastefnu eftir af festu og í nánu samráði við samtök fyrirtækjanna sjálfra. Engir vita betur en frumkvöðlarnir sjálfir hvað á þeim brennur. Samfylkingin hefur þegar fylgt atvinnustefnu sinni frá Sprotaþinginu eftir með sérstakri kynningu á Nýja atvinnulífinu.

Á Sprotaþinginu var fyrirtækið CCP formlega útskrifað úr Samtökum sprotafyrirtækja enda komið í svokallaða úrvalsdeild með veltu yfir milljarð króna. Þetta glæsilega þekkingarfyrirtæki, sem er nú komið í hóp með Marel, Össuri og Actavis, hlýtur að vera okkur öllum hvatning til að tryggja verulega fjölgun í úrvalsdeildinni á næstu árum.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband