Náttúruvernd og framsækin atvinnustefna verða að fara saman

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Fyrirsögn þessarar færslu er fengin að láni frá grein sem Árni Páll Árnason, frambjóðandi Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, birtir í DV í dag og á heimasíðu sinni. Þar fer hann aðeins yfir þá staðreynd hve marklaust það er að slíta umræðu um náttúruvernd, auðlindanýtingu og samkeppnishæft atvinnulíf úr samhengi:

Það er engin tilviljun að Samfylkingin er einn flokka um að hafa lagt fram heildstæða stefnu um náttúruvernd og auðlindanýtingu og átti jafnframt þær tillögur um eflingu sprotafyrirtækja og uppbyggingu hátækniiðnaðar sem röðuðu sér í 1. til 3. sæti á Sprotaþingi Samtaka iðnaðarins.

Náttúruvernd, auðlindanýting og samkeppnishæft atvinnulíf eru greinar af sama meiði.

Þessi sjónarmið jafnaðarmanna þurfa að fá aukið vægi í umræðunni. Við eigum að krefja jafnt þá sem sjá áluppbyggingu og stóriðju sem einu framtíðarsýnin sem stjórnvöld geta átt þátt í að láta rætast og hina sem boða ótímabundið og óskilyrt STOPP um framtíðarsýn, stefnu og aðgerðaáætlun. Annað er ábyrgðarleysi, ekki síst gagnvart komandi kynslóðum sem vilja búa í samfélagi lífsgæða og spennandi og skapandi atvinnutækifæra.

Árni Páll bendir á þá athyglisverðu staðreynd að það er einn helsti styrkur stefnunnar Fagra Ísland að vera niðurstaða samræðu milli náttúruverndarsinna og þeirra sem eru að axla ábyrgð á því erfiða verkefni að skapa grundvöll að tryggum lífskjörum og atvinnu í byggðalögum sínum. Í stað þess að tala niður til fólks af yfirlæti hinna "flekklausu" er verkefnið að ná samstöðu þar sem náttúran nýtur vafans og mótuð er rammaáætlun um náttúruvernd sem heldur til framtíðar.

Enda ætlar varla nokkur að Íslendingar séu að taka um það ákvörðun í maí nk. að stöðva um alla framtíð nýtingu orkuauðlinda sinna. Hvorki jafnaðarmenn, Framtíðarlandið né Ómar Ragnarsson og aðrir "hægri grænir" ganga svo langt enda ábyrgðarleysi eða barnaskapur eins og Árni Páll bendir á í grein sinni:

Það er barnaskapur og í versta falli ábyrgðarleysi að ætla þjóðinni það í komandi kosningum að ákveða að stöðva nýtingu orkuauðlinda sinna um alla framtíð. Við munum áfram þurfa að nýta orkuauðlindir okkar til verðmætasköpunar, eins og aðrar auðlindir. Þekking Íslendinga á sviði endurnýjanlegrar orku er að verða verðmæt útflutningsvara. Nýir nýtingarkostir geta komið upp og kaupendur á borð við framleiðendur sólarrafhlaðna hafa þegar sýnt íslenskri orku áhuga en skortur á efni til þeirra er einn stærsti þröskuldurinn í vegi stóraukinnar nýtingar sólarorku.

Málið snýst um nýta þá sátt sem nú er að nást um forgangsröðun í þágu náttúrunnar og þá þenslu sem ríkir til að staldra við og klára afar brýnt verkefni. Því tækifæri má ekki klúðra með yfirboðum og dýpkun þeirra átakalína sem þegar rista of djúpt.

Það má vel vera rétt ábending hjá Samtökum atvinnulífsins að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafi ekki reiknað til hins ítrasta allan mögulegan peningalegan ávinning Hafnfirðinga af stækkun álversins en stofnunin tekur sjálf fram að þar sé heldur engin tilraun gerð til að leggja mat á beinan eða óbeinan kostnað vegna tapaðra náttúrugæða eða aukinnar mengunar. En það eru einmitt þau reikningsskil sem vaxandi hluti Íslendinga og raunar fólks um allan heim, er farinn að vilja sjá með þegar dæmin eru gerð upp. Hugsanlega olli Kárahnjúkavirkjun þeim straumhvörfum og sinnaskiptum hjá almenningi sem raun ber vitni og gat beinlínis af sér öflugar fjöldahreyfingar á borð við Framtíðarlandið af því að fólk hrökk upp við öll þau verðmæti sem hvergi voru með í útreikningunum, hvorki náttúran sem slík, kostnaður heimila og fyrirtækja vegna ruðningsáhrifa, né annað af þeim meiði.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Segir Hagfræðistofnun vanmeta tekjur Hafnarfjarðar af álveri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband