Deiliskipulagskosning hefur ekki áhrif á aðra erlenda fjárfestingu

Forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins heldur því fram að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar um deiliskipulag álverslóðar í Hafnarfirði geti haft neikvæð áhrif á aðra erlenda fjárfestingu hér á landi. Þarna er æði langt seilst í rökum gegn beinu íbúalýðræði enda liggur fyrir að lögformlegt skipulagsvald liggur í höndum sveitarfélaga og allar breytingar eða nýframkvæmdir verða að fara í gegnum ákveðið kynningar- og athugasemdaferli. Sveitarstjórnir hafa einnig lögformlega heimild til að framselja vald sitt milliliðalaust til íbúanna með íbúakosningu.

Þegar árið 2003 mótaði meirihluti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði þá stefnu að leggja meiriháttar ákvarðanir beint í hendur íbúa. Í ársbyrjun 2002 var því afneitað þrisvar af talsmönnum Alcan að fyrirtækið stefndi að stækkun. Hér eru kaflar úr frétt Morgunblaðsins frá 27. janúar:

TALSMAÐUR Alcan Inc., eiganda ISAL, segir engar áætlanir uppi um að auka framleiðslugetu álversins í Straumsvík úr 170 þúsund tonnum í 460 þúsund tonn og neitar fréttum þess efnis í fréttaskeyti OsterDowJones. [...]

Rannveig Rist, forstjóri ISAL, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að eingöngu væri verið að skoða málin og engar ákvarðanir hefðu verið teknar. Um væri að ræða könnun á því hvort stækkun yrði hagkvæm eður ei. "Staðreyndin er sú að það er verið að gera hagkvæmnisútreikninga og fara í umhverfismat, sem eru könnunaraðgerðir áður en ákvörðun verður tekin um stækkun," sagði Rannveig.

Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi ISAL, leggur áherslu á að fyrirtækið sé eingöngu að kanna hvort stækkun sé möguleg. "Ef það ferli sem nú er í gangi leiðir í ljós að stækkun sé möguleg gæti niðurstaðan orðið sú að kanna hvort stækkun yrði hagkvæm og hvort þörf væri fyrir málminn. Fyrst þá, að loknum slíkum athugunum, verður hægt að taka afstöðu til okkar hugmynda. Þetta höfum við lagt ríka áherslu á við alla sem hafa leitað eftir upplýsingum og það er mikil oftúlkun á staðreyndum að halda því fram að verksmiðjan í Straumsvík verði stækkuð. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar um slíkt og verða ekki teknar á næstunni."

Hér kemur skýrt fram af hálfu talsmanna Alcan að sjálft umhverfismatið er bara liður í hagkvæmniathugun sem þarf að liggja fyrir áður en ákveðið verður hvort stefnt sé að stækkun enda verði engar ákvarðanir "teknar á næstunni". Í dag eru allar þessar forkannanir orðnar að "margra ára undirbúningsvinnu" sem Hafnfirðingar hafa kastað á glæ með því breyta leikreglum eftir á.

Ákvörðun um uppbyggingu orkufreks iðnaðar er bæði langt og flókið ferli þar sem afar margt þarf að liggja fyrir: Markaður fyrir afurðir, orkusamningar, samþykkt skipulag fyrir orkuöflun (virkjunum, línum og fleiru), umhverfismat, starfsleyfi, samþykkt skipulag fyrir starfsemina og fleira. Allt er þetta unnið í skrefum sem aðilar þekkja og engin þeirra eru gefin eða hægt að ákveða að öllu leyti fyrirfram.

Vinnan við að gera starfsumhverfi og rekstrarskilyrði fyrirtækja á Íslandi samkeppnishæf, og landið þar með fýslegan fjárfestingarkost fyrir erlenda aðila, hefur engan hnekki beðið þótt bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi sýnt þann kjark og framsýni að framselja bæjarbúum sjálfum ákvörðunarvald um deiliskipulag sem fól í sér að eitt af stærstu álverum Evrópu risi skammt frá miðbænum. Enda tók fyrirtækið sjálft virkan þátt í því ferli eins og varla hefur farið fram hjá nokkrum manni.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is SA segir atkvæðagreiðslu í Hafnarfirði umhugsunarefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

Mér finnst þessi málflutningur um að íbúalýðræði fæli frá erlenda fjárfesta með ólíkindum! Eða kannski er hann bara í takt við hugmyndir um að mannréttindi, vinnuvernd og mannsæmandi kjör fæli erlend stórfyrirtæki frá bananalýðveldum almennt. Sjá athugasemd á www.gudr.blog.is

Guðrún Helgadóttir, 4.4.2007 kl. 13:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband