Orkuvinnsla er þekkingariðnaður - Samorka býr sér til "strámann"

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, hafa tekið saman áhugaverðar tölulegar upplýsingar um hið mikla rannsóknarstarf sem fram fer á vegum íslensku orkufyrirtækjanna og þá þekkingu sem þar verður til. Þetta er ánægjuleg staðfesting á því sem flestir gera sér fulla grein fyrir.

Erfiðara er að átta sig á því í hvað Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, er að vísa þegar hann segir: "Því er engin innistæða fyrir því að stilla þeim upp sem andstæðu við þekkingarfyrirtæki. Sá söngur hefur hljómað lengi, verið hávær, en er rammfalskur, starfsfólk fyrirtækjanna verðskuldar ekki þá neikvæðu umræðu."

Hver hefur verið að syngja hátt og rammfalskt um að íslensku orkufyrirtækin séu andstæða þekkingarfyrirtækja? Árni Páll Árnason, frambjóðandi Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, segir m.a. í grein um samtvinnun náttúruverndar og framsækinnar atvinnustefnu: "Við munum áfram þurfa að nýta orkuauðlindir okkar til verðmætasköpunar, eins og aðrar auðlindir. Þekking okkar á endurnýjanlegri orku er að verða verðmæt útflutningsvara."

Hugsanlega er verið að vísa til tilboðs Samtaka iðnaðarins og Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja um "Þriðju stoðina" þar sem bent er á að í kjölfar markviss stuðnings hins opinbera við uppbygging sjávarútvegs og síðar stóriðju sé röðin komin að hátækniiðnaði. Undir þetta hafa t.d. jafnaðarmenn tekið og viljað leggja megináherslu á að efla starfsskilyrði og samkeppnishæfni íslensks þekkingariðnaðar, þ.m.t. orkufyrirtækjanna.

Hugsanlega er líka verið að rugla saman gagnrýni á þá atvinnu- og efnahagsstefnu að ýta undir afar hraða uppbyggingu stóriðju án nægilegra mótvægisaðgerða sem skilar sér í afar erfiðum samkeppnis- og starfsskilyrðum fyrir þekkingarfyrirtæki í útflutningi, bæði vegna hárra vaxta og gengissveiflna. Þetta er þekkt undir nafninu "ruðningsáhrif". Sú gagnrýni hefur hins vegar aldrei beinst að orkufyrirtækjunum sem slíkum, þeirra rannsóknum eða starfi og allra síst starfsmönnunum.

Djúpborunarverkefnið, ítarlegar rannsóknir á virkjanakostum í tengslum við rammaáætlun um náttúruvernd, áframhaldandi nýting sjálfbærrar orku í þágu atvinnulífs, útrás þekkingar í formi ráðgjafar og verkefna erlendis og margt fleira á auðvitað að halda áfram enda um þekkingaruppbyggingu að ræða. Lagning háspennulína í jörð í auknum mæli er einnig dæmi um spennandi þekkingarverkefni þar sem leita þarf lausna til að lækka kostnað og lágmarka rask á viðkvæmum svæðum.

Það er ekki sjálfgefið að þótt skynsamlegt sé út frá atvinnu- og efnahagsástandi og náttúruverndarsjónarmiðum, að staldra við með frekari uppbyggingu einnar tegundar af stóriðju, þá þýði það stöðvun í starfi og þróun orkufyrirtækjanna. Fyrirtækin mega t.d. ekki, frekar en stjórnvöld, gleyma öðrum mögulegum kaupendum og nýtingarmöguleikum orkunnar þótt það sé ef til vill ekki á stærð við álver í upphafi.

Þegar litið er yfir stefnumál stjórnmálaflokkanna þar sem stefna Samfylkingarinnar, "Fagra Ísland" virðist hafa orðið ofan á í ýmsum útgáfum (Stopp VG er orðið að 5 ára hléi, Íslandshreyfingin vill tímabundna stöðvun og í drögum að landsfundarályktun boðar Sjálfstæðisflokkurinn að fara skuli "hægar") er erfitt að koma auga á þá söngvara sem hafa skorið í eyru Samorku að undanförnu. Ef ætlunin var að svara auglýsingaherferð Framtíðarlandsins hefði e.t.v. verið heppilegast að taka það fram og viðkomandi hefði þá getað brugðist við. Án frekari skýringa líta þessar fyllyrðingar Samorku út eins og samtökin hafi ákveðið að búa sér til "strámann" til að geta svo skotið hinn ímyndaða andstæðing sinn í kaf með annars áhugaverðum og jákvæðum tölulegum staðreyndum.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband