Úr sáttmáladrögunum - Umhverfisvernd og auðlindanýting

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Hér að neðan eru kaflarnir um umhverfisvernd og auðlindanýtingu úr sáttmálanum um heilbrigða skynsemi sem birtur er í heild á síðunni.

Umhverfisvernd og kröfunni um að hægar verði farið í stórvirkjanir í þágu áliðnaðar vex fylgi í öllum stjórnmálaflokkum. Þess vegna hlýtur að vera einstakt lag til að leggja grundvöll að skynsamlegri umhverfis- og auðlindastefnu ef þau öfl ná saman. Rammaáætlun um náttúruvernd á borð við þá sem lögð er til í Fagra Íslandi leggur upp einstakt tækifæri til að ná sátt meðal þjóðarinnar til framtíðar. Ekkert bitnar jafn hart á málstað umhverfisverndar og skynsamlegrar auðlindanýtingar og þegar umræðan leysist upp í keppni um hver sé mesti eða hreinræktaðasti umhverfissinninn. Á köflum verður það eins og atriði með "The Only Gay in the Village" úr þáttaröðinni Little Britain og allir sem séð hafa vita hvaða gagn Daffyd gerði réttindabaráttu samkynhneigðra.

Við viljum líka benda á að sumir eru að komast að sömu niðurstöðum með umhverfisvernd og auðlindanýtingu úr aðeins annarri átt en kjarni umhverfishreyfingarinnar, þ.e. út frá efnahags- og atvinnumálum og framtíðarmöguleikum Íslendinga á orkusölu til annars konar stóriðju.

Aðalmálið er að klúðra ekki því tækifæri sem nú gefst til að ná sátt um að setja ramma til framtíðar. Áframhaldandi átök og klofningur þjóðarinnar í hatrammar fylkingar getur virkað mjög lamandi á t.d. nauðsynlegt sameiginlegt átak til uppbyggingar hátækniiðnaðar.

Fagra Ísland og sú rammáætlun um náttúrvernd sem þar er boðuð verði hornsteinn umhverfisstefnu og auðlindanýtingar nýrrar ríkisstjórnar. Ástæðan fyrir þessari megináherslu er sú að það skiptir bæði náttúru landsins og kjósendur mestu að ramminn utan um verndun og nýtingu sé skýr. Heilbrigð skynsemi segir okkur líka að það sé ekki víst að allar þær framkvæmdir sem þegar eru komnar í gegnum matsferli og hafa jafnvel fengið starfsleyfi verði stöðvaðar í tíma, hvað þá að varpa ábyrgð á slíku á herðar sveitarstjórnarmanna sem glíma við ærin verkefni í atvinnu- og byggðamálum heima í héraði.

Rammaáætlun um náttúruvernd og nýtingu orkuauðlinda er ekki einungis brýnt umhverfismál heldur um leið skynsamleg atvinnustefnu á tímum þenslu og hækkandi orkuverðs í heiminum. Með henni skapast tækifæri til að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi með orkusölu til annars konar iðnaðar enda segir heilbrigð skynsemi okkur að hvorki erlend stórfyrirtæki né erlend fjárfesting í íslenskum iðnaði sé í sjálfu sér af hinu vonda. Við eigum þvert á móti að leggja allt kapp á að auka erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, ekki síst í hátækniiðnaði ýmis konar. Mikill meirihluti fólks telur að með skynsemi geti náttúruvernd og nýting farið saman en þá er skilyrðið að ramminn til framtíðar sé skýr svo við getum forðast slys fortíðarinnar.

Eitt af því athyglisverðasta sem fram kom í frábærum fyrirlestri Michael Porters, ljósmóður klasahugtaksins, um samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegum samanburði, var sú staðreynd að það er mjög veik eða nær engin fylgni milli hagsældar þjóða í nútímanum og náttúruauðlinda þeirra. Þjóðir sem treysta á mannauðinn, þekkingariðnaðinn og viðskipti standa sterkast að vígi. Porter bendi einmitt á að sú hætta geti verið fólgin í aðgangi að náttúruauðlindum að afrakstur þeirra sé að hluta notaður til að breiða yfir og greiða fyrir margvíslegt óhagræði og sóun í viðkomandi hagkerfum á meðan aðrar þjóðir hafi ekki efni á að burðast með slíkt. E.t.v. ættum við Íslendingar að fara gagnrýnið yfir það hvort um eitthvað slíkt sé að ræða hér í okkar hagkerfi.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband