Úr sáttmáladrögunum - Um jafnvægi

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Umræða um framtíðarskipan Íslendinga í gjaldeyrismálum, krónu eða evru, má ekki lenda ofan í þeim förum að málið sé ýmist hálfgert tabú því upptaka Evrunnar myndi þýða endanlegt framsal Íslendinga á eigin málum eða þá að hægt sé að taka upp Evru í einum grænum til að bregðast við bráðavanda í efnahagsmálum og uppskera að launum eilíft jafnvægi.

Í fyrsta lagi uppfylla Íslendingar eins og er ekki skilyrði Myntbandalagsins um jafnvægi, lága verðbólgu eða lítinn viðskiptahalla til að fá inngöngu í bandalagið. Verkefnið verður að vinnast þannig að fyrst þarf að koma á jafnvægi í hagkerfinu. Stjórnvöld verða t.d. að vinna gegn hagsveiflunum til að jafna þær út en ekki með þeim eins og Seðlabankinn, greiningardeildir bankanna, Samtök atvinnulífsins og samtök launafólks hafa verið óþreytandi að benda núverandi ríkisstjórn á síðustu árin. Þegar jafnvægi er náð er hægt að taka ákvörðun m.a. út frá þeim kostnaði sem almenningur og atvinnulífið ber bæði beint og óbeint vegna sérstaks gjaldmiðils, þeim þröskuldi sem lítill gjaldmiðill er gagnvart fjárfestingum erlendra aðila í litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi (sbr. þrautir margra sprota- og hátæknifyrirtækja við að fjármagna sig), þeirri samkeppnishindrun á mörgum sviðum sem krónan er, þeim hröðu breytingum sem hafa orðið á íslensku atvinnulífi á síðustu árum þar sem alþjóðleg þjónusta á borð við fjármálastarfsemi er mjög fyrirferðamikil, margvíslegum eignatengslum milli Íslands og Evrusvæðisins og upplýsingum um helstu útflutningssvæði. Það er e.t.v. ekki að ástæðulausu sem fréttir berast af því að í umræðum sérfræðinga og hagsmunaðila halli heldur á krónuna. Svo virðist líka sem fleiri og fleiri fyrirtæki séu að svara þessari spurningu hvert fyrir sig og flytja sig yfir í mynt sem er þeim hagfelldari. Því hefur m.a. verið haldið fram að eftir sitji almenningur með herkostnaðinn af krónunni.

Eitt af því sem skoða þarf er hvort líklegt sé að Ísland verði til framtíðar á sér róli í sínum hagsveiflum, þ.e. ef þær eru ekki aðallega knúnar áfram af einstökum risavöxnum innspýtingum erlendra fjárfestinga heldur almennu gengi útflutningsgreinanna og þess iðnaðar sem hér er hægt að byggja upp jafnt og þétt. Svo má líka velta fyrir sér að hve miklu leyti krónan sé að endurspegla raunveruleika íslensks atvinnulífs eða hvort stöku ríkisákvarðaðar framkvæmdir og útgáfa krónubréfa erlendis hreyfi hana mun meira.

Verkefnin við að viðhalda jafnvægi í hagstjórninni breytast ekki í grundvallaratriðum með upptöku Evru. En það verður að mörgu leyti að nálgast verkefnið öðruvísi. Þensluástandi með gífurlegri eftirspurn og viðskiptahalla verður ekki mætt með því að krónan gefi eftir, innfluttar vörur hækki í verði, verðbólga valdi almennri raunlækkun launa og þannig kólni hagkerfið. Í staðinn þarf aðrar aðgerðir og sumar þeirra gætu kallað á að mikið traust þurfi að ríkja milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.

En þegar allt kemur til alls verður spurningunni um stöðu Íslands í heiminum og aðild að Evrópusambandinu ekki svarað af tæknimönnum sem reikna svörin í krónum og aurum. Hún er í eðli sínu pólitísk og þegar jafnvægi hefur verið náð og leitað bestu svara við kostum og göllum fyrir almenning og atvinnulíf í landinu með því að láta reyna á samningsmarkmið Íslendinga, verður þjóðin sjálf að fá að svara. Svona er þessu lyst í sáttmáladrögunum hér á vefnum:

Stefna verður markvisst að því að Ísland uppfylli allar kröfur Evrópusambandsins um jafnvægi, lága verðbólga og lítinn viðskiptahalla sem eru forsendur þess að geta gengið í myntbandalag Evrópu og tekið upp Evruna sem gjaldmiðil eða lagað fjármálamarkað okkar betur að fjármálamarkaði umheimsins. Þá eigum við raunverulegt val um framtíðarstefnu okkar auk þess hags sem almenningur og fyrirtækin hafa af jafnvægi og vaxtastigi sem er meira í takt við helstu viðskiptalönd en nú er. Heilbrigð skynsemi segir okkur að Evran ein og sér sé engin endanleg töfralausn á íslenskum hagstjórnarvanda. Áfram þarf að gæta jafnvægis en kostirnir fyrir íslenskan almenning og atvinnulíf yrðu ekki síst þeir að opna hagkerfið og samfélagið enn frekar fyrir heilbrigðri samkeppni á sviðum sem nú er mjög erfitt að koma slíku á, auðvelda fyrirtækjum að afla erlendra fjárfestinga og spara milljarða í gjaldeyriskostnað. Í lokin verður svarið við spurningunni pólitískt en ekki tæknilegt og kjósendur verða að fá að svara henni sjálfir fyrr eða síðar.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband