Hávaxtaáþjánin - Rætur vandans og ábyrg umræða

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Það er ómótmælanleg staðreynd að bæði almenningur og atvinnulíf býr við okurvexti enda eru stýrivextir Seðlabankans nú 14,25% á meðan þeir eru í kringum 3-5% í helstu viðskiptalöndum. Okkur blöskrar flestum þessir háu vextir og stundum eru ástæðurnar jafnvel persónugerðar í græðgi bankastjórnanna þrátt fyrir að slík umræða sé ekki líkleg til að skila okkur neinum árangri af þeirri einföldu ástæðu að hún fjallar ekki um rót vandans.

Vænlegra er að grafast fyrir um það hvers vegna vextir hér eru svona miklu hærri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Nokkrar ástæður er vert að nefna. Sú fyrsta er að ríkisstjórnin hefur sýnt ábyrgðarleysi í hagstjórninni og í raun unnið gegn viðleitni Seðlabankans til að slá á þenslu. Þetta hefur leitt til þess að vextir Seðlabankans hafa hækkað mun meira en þeir hefðu að öðrum kosti þurft. Önnur ástæða er sú að við búum í litlu hagkerfi með sjálfstæða mynt. Slíkt kallar á hærri vexti en í stærri hag- og myntkerfum. Þriðja ástæðan er sú að það við þurfum kröftugri samkeppni á íslenska bankamarkaðinn. Það væri auðvitað æskilegt að hingað kæmu erlendir bankar og kepptu um innlend viðskipti enda væri samkeppnin holl fyrir íslensku bankanna og góð fyrir almenning. Því miður eru engar líkur á samkeppni erlendis frá á meðan krónan er gjaldmiðillinn okkar.

Við eigum ekki að hlífa bönkunum við gagnrýni en hana verður að setja fram af ábyrgð og þekkingu. Það þjónar engum tilgangi að ráðast með offorsi að þessari atvinnugrein. Við megum ekki gleyma því að fjármálaþjónustan er okkur dýrmæt og skilar þjóðarbúinu miklum verðmætum. Bankarnir högnuðust um 163 milljarða í fyrra og kom helmingurinn af tekjum þeirra erlendis frá. Skatttekjur ríkissjóðs af hagnaði bankanna nema hátt í 40 milljörðum. Fjármálaþjónusta er líka afar sérhæfð atvinnugrein sem kallar á vel menntað vinnuafl og sérþekkingu. Hún skapar vel launuð störf og er hvorki mengandi né íþyngjandi fyrir samfélagið að öðru leyti. Þar er það fyrst og fremst hugvitið sem er virkjað. Öflug fjármálaþjónusta er líka afar mikilvæg fyrir allt annað atvinnulíf sem þarf á fjármagni að halda til að eflast og nýta ný sóknarfæri.

Við eigum að skapa þessari atvinnugrein jákvæð og hagstæð rekstrarskilyrði eins og öðrum verðmætum atvinnugreinum sem byggja á menntun og sérþekkingu. Við eigum að sjálfsögðu ekki að líða henni samráð og okur frekar en öðrum atvinnugreinum og til þess beitum við samkeppnisyfirvöldum og fjármálaeftirliti. Eðlilegt er að krefjast þess að bankarnir, líkt og önnur fyrirtæki, bregðist við tilmælum samkeppnisyfirvalda og samtaka neytenda.

Kjarni málsins er sá að það á að vera sameiginlegt verkefni okkar að skapa þær aðstæður í íslensku efnahagslífi að bæði almenningi og fyrirtækjum bjóðist lán með sambærilegum kjörum og í helstu viðskiptalöndum okkar. Það er réttlætismál enda hávaxtabyrðin alltof þungur baggi að bera, hvað þá í verðbólgu á borð við þá sem við höfum þurft að þola alltof lengi vegna hagstjórnar síðustu ára og kostar venjuleg heimili nú þegar tugir þúsunda á ári í aukna greiðslubyrði.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband