Hvað þýðir einfalt Já eða Nei fyrir umhverfið til framtíðar?

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Í huga margra snúast næstu kosningar að miklu leyti um umhverfis- og orkumál. Framtíðarsýn og skýr stefnumörkum í atvinnumálum verður varla skilin frá þeirri umræðu. Í ljósi þess hve mikilvægur þessi málaflokkur er vekur sérstaka athygli hve óskýr framtíðarsýn margra flokka er. Stjórnarflokkarnir fara fram án svara til kjósenda um stefnu sína í virkjana og stóriðjumálum. Hvað þýðir einfalt og opið Já við áframhaldandi vinnubrögðum stjórnarflokkanna fyrir umhverfið til framtíðar? En það er ekki síður athyglisvert að velta fyrir sér hvað einfalt Nei við frekari orkuvirkjunum þýðir fyrir umhverfi og atvinnumál til framtíðar. Ef einfaldri höfnun fylgir engin framtíðarsýn að öðru leyti er stórhætta á að umhverfið muni líðar fyrir það í framtíðinni.

Spyrja verður í því sambandi hvort raunhæft sé að biðja kjósendur að hafna frekari nýtingu orkuauðlinda landsins um aldur og ævi? Hve lengi á einfalt Nei að gilda og gildir það óháð aðstæðum? Heilbrigð skynsemi segir okkur að þeir hagsmunir sem liggja að baki orkuöflun og uppbyggingu henni tengdri gufa ekkert upp og aðstæður geta breyst, nýir orkukaupendur eða nýtingarmöguleikar geta komið fram. Ef sú samstaða sem nú er að myndast um að staldra við og ná sáttum í þessum málum er ekki nýtt til að ganga frá rammaáætlun um umhverfisvernd og nýtingu til framtíðar er hættan sú að þegar aðstæður breytast í framtíðinni, og hið einfalda Nei lætur undan síga, þá séum við í nákvæmlega sömu sporum og á undanförnum árum þegar orkufyrirtækin sjálf hafa meira eða minna sjálfdæmi um hvert þau sækja. Vegna þessa hefur til dæmis stefna Samfylkingarinnar Fagra Ísland hlotið lof og stuðning langt út fyrir raðir jafnaðarmanna.

Mikill meirihluti þjóðarinnar vill standa vörð um hálendið og náttúruperlur landsins og eftir þensluástand undanfarinna ára sem hefur bitnað  bæði á heimilum og sprotafyrirtækjum er að myndast víðtæk samstaða um að staldra við og móta framtíðarsýn sem heldur. Þetta tækifæri má ekki renna út í sandinn. Rammann um náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda verður að setja saman þannig að hann haldi til framtíðar. Kapphlaup um að einhverjir séu "hreinni" eða hafi siðferðilega yfirburði í umhverfisvitund yfir t.d. fólk út um land sem horfir til allra tækifæra til atvinnuuppbyggingar, skilar því miður litlu í því sambandi og er líklegra til að kljúfa raðir þeirra sem eiga að standa saman og bitna þar með á endanum á umhverfinu.

Vegna þessa dugir ekki einfalt Já eða einfalt Nei. Við þurfum bæði rammaáætlun sem heldur og ekki síður framtíðarsýn í atvinnumálum - svör við því hvernig atvinnulíf við viljum efla til framtíðar. Til viðbótar við þau augljósu sannindi að búa íslensku atvinnulífi samkeppnishæft starfsumhverfi og efla útflutning þarf atvinnustefnu sem miðar að því að byggja markvisst upp hátækniiðnað. Með virkum beinum og óbeinum stuðningi hins opinbera var byggður upp samkeppnishæfur og tæknivæddur sjávarútvegur og síðustu ár hefur áherslan verið á orkuöflun og stóriðju. Nú er röðin komin að hátækniiðnaðinum. Ungt fólk vill búa í þekkingarsamfélagi sem býður verðmæt störf og að því þurfum við að vinna.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband