Landbúnaður til framtíðar - óbreytt ástand gengur ekki

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Helsta markmið þeirra sem móta landbúnaðarstefnuna er að verja óbreytt ástand. Sigrar landbúnaðarstefnunnar eru í samræmi við markmiðið, „varnarsigrar" um eins litlar breytingar og hægt er að komast upp með. Þessi taktík væri skiljanleg ef framtíð landbúnaðarins væri björt, rekstarskilyrðin í sveitum með ágætum og hagur neytanda góður. Þá gætu þeir sem guma sig af sigrum landbúnaðarstefnunnar með góðri samvisku skammað alla þá sem vilja aðra nálgun og brigslað þeim um andúð í garð bænda eða þekkingarskort. En er það staðan? Er innistæða fyrir þeim stóru orðum sem fallið hafa í garð þeirra sem hafa lagt til breytingar?

Ástandið í sveitunum er langt frá því að vera viðunandi og neytendur borga hærra matvælaverð en ásættanlegt er. Það er nefnilega ekki hægt að bjóða landbúnaði frekar en öðrum atvinnugreinum að búa við stefnu sem horfir til fortíðar í stað framtíðar. Íslenskur landbúnaður á betra skilið og það eiga íslenskir neytendur einnig. Landbúnaðurinn býr yfir sóknarfærum; fagþekking í greininni er mikil, þar starfar öflugt fólk og tækifærin til nýsköpunar og framþróunar eru mörg. Neytendur bera traust til framleiðslunnar, ferðaþjónustan er að eflast og bændur eru mikilvægur hlekkur í landgræðslustarfi svo nokkur mikilvæg atriði séu nefnd.

Meðal þess sem skoða þarf er að breyta lögum um framleiðsluna sjálfa þannig að bændur megi pakka vöru og selja á sambærilegan hátt og bændur í Evrópu. Stuðla þarf að frekari vöruþróun og nýsköpun í greininni. Ljóst er að óbreytt landbúnaðarkerfi ætti erfitt með samkeppni við innfluttar vörur frá verksmiðjubúum svo markmiðið hlýtur að vera að gera greininni kleift að sérhæfa sig og þróa annars vegar afurðir sem falla í flokk hágæðaafurða og áherslan er á uppruna, tengsl við einstök bú, hreinleika og gæði og hins vegar byggja upp mun stærri einingar sem geta keppt við magnframleiðsluna. Þegar markaðshvati er til hagræðingar og nýsköpunar geta líka opnast ný færi í útflutningi sem þykja e.t.v. fjarlæg í dag.

Það eru því allar forsendur fyrir að móta nýja stefnu, sem tekur bæði af hag neytenda og bænda. Stefnu sem miðar að því að feta sig frá fortíð til framtíðar, frá kerfi hafta og verndartolla til virkara samkeppnisumhverfis. Þannig er hægt að leyfa þeim sem starfa við landbúnað að njóta sín og lækka matvælaverð verulega. Um leið þarf að gefa bændum og launafólki í störfum tengdum landbúnaði eðlilegt svigrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum með auknum stuðningi í formi beinna greiðslna. Slíkar breytingar þurfa auðvitað að gerast í sem bestri sátt allra aðila.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband