26.2.2007
Stopp um "langt árabil"
Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála
Hér hefur áður verið vakin athygli á því hve mikilvægt er að kjósendur standi frammi fyrir skýrum kostum og stefnu í umhverfis- og orkumálum til framtíðar. Óskýr svör í dag verða tap umhverfisins á morgun. Þegar boðuð er í samþykktri stefnu VG "stöðvun frekari stóriðju- og virkjanaframkvæmda um langt árabil" hlýtur það að kalla á svör um þýðingu þessa. Er verið að biðja kjósendur að ákveða núna að hætta með öllu frekari þróun í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi? Til hve langs tíma á slíkt að gilda? Gildir það óháð breyttum aðstæðum í atvinnu- og efnahagsmálum, nýjum nýtingarmöguleikum eða hvaða kaupendur að orkunni gefa sig fram?
Í eldri færslu hér á síðunni er að því vikið að til lengri tíma litið sé bæði einfalt og óskilyrt já eða nei við nýtingu orkuauðlindanna e.t.v. mesta ábyrgðarleysið gagnvart íslenskri náttúru til framtíðar. Hagsmunirnir af orkunýtingu og uppbyggingu hverfa ekki og ef aðstæður breytast, án þess að tækifærið hafi verið nýtt til að vinna heildstæða áætlun eins og boðuð er í Fagra Íslandi, hefjast sömu átökin með hálfgerðu sjálfdæmi orkufyrirtækjanna um virkjanakosti.
Þótt mörgum þyki nóg komið af uppbyggingu áliðnaðar á stuttum tíma vilja fæstir girða til frambúðar fyrir þau tækifæri sem endurnýjanleg orka getur skapað Íslendingum, ekki síst til að laða hingað mikilvæga erlenda fjárfestingu og þekkingu inn í atvinnulífið eins og bent er á í þeim drögum að sáttmála sem hér hefur verið varpað fram. Ef nálgast á erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi og samkeppnishæf rekstrarskilyrði sem neikvæða þætti er hætt við að boðað stopp verði ekki bara í orkunýtingu. Mikilvægast er að bera fram trúverðuga og framsækna stefnu í atvinnu- og nýsköpunarmálum og því kalli hafa jafnaðarmenn verið að svara.
Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála
![]() |
VG vill veita Jafnréttisstofu auknar heimildir til eftirlits með fyrirtækjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.3.2007 kl. 21:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.