Hver eru rök fjármálaráðherra fyrir gjaldeyrishöftunum?

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Hefur einhver heyrt fjármálaráðherra eða aðra fulltrúa ríkisstjórnarinnar færa frambærileg rök fyrir þeirri furðulegu reglugerð sem hann setti fyrirvaralaust fyrir tæpum mánuði síðan? Í gengismálunum eru íslensk fyrirtæki að "greiða atkvæði með fótunum", ef svo má að orði komast, og forðast þannig herkostnaðinn af sveiflum íslensku krónunnar sem heimilin í landinu og minni fyrirtæki bera af fullum þunga. Eru það skynsamleg viðbrögð stjórnvalda að reisa þá reglugerðargirðingar? Girðingarnar í þessari reglugerð er jafnvel hærri en virðist í fyrstu þegar haft er í huga að jafnvel fyrirtæki með mikil viðskipti á Evrópumarkaði ná því kannski ekki að Evran sé þeirra meginmynt af þeirri einföldu ástæðu að eitt mikilvægast viðskiptaland okkar, Bretland, heldur í sitt Pund.

Óskynsamleg reglugerð er heitið á leiðara Hafliða Helgasonar, ritstjóra Markaðarins, en þar segir hann meðal annars:

Þegar engar augljósar skynsamlegar skýringar eru á ákvörðun sem þessari er freistandi að leita slíkra skýringa í hópi hinna óskynsamlegu. Alþjóðavæðing atvinnulífsins kallar á nýja hugsun í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Krónan er augljóslega á undanhaldi sem uppgjörsmynt hjá fyrirtækjum. Það er þróun sem ekki verður stöðvuð og á ekki að stöðva. Ef niðurstaða þeirrar þróunar verður upptaka evru og innganga í ESB, þá er það bara niðurstaðan og líklega þá eina skynsamlega framtíðarlausnin. Það er hins vegar ekki hægt að gefa sér slíkt fyrirfram, en spastískar tilraunir til að halda aftur af þróuninni eru síst til þess fallnar að leiða til skynsamlegrar niðurstöðu. [,,,]

Vissulega er í landinu sértrúarsöfnuður sem nálgast krónuna með trúarlegri lotningu, en það væri illt til þess að vita að æðstiprestur þess safnaðar hefði beitt áhrifum sínum á ráðherra til að setja slíka reglugerð.

Vel má vera að einhverjir taki gagnrýni Björgólfs Thors á íslensk stjórnvöld og varnaðarorð hans um afleiðingar nýrrar haftastefnu sem hótun í anda hótana Alcan um lokun álversins í Straumsvík og firrtist við en kjarni málsins er að ríkisstjórnin hefur hvorki getað skýrt þörfina á þessari reglugerð né það gagn sem hún á að gera. Þessi ábending atvinnulífsins snýst ekki um að fá lækkun skatta eða aðrar ívilnanir af hálfu íslenska ríkisins heldur eðlilegt frelsi til að haga starfsemi sinni og viðskiptum eftir þörfum fyrirtækjanna sjálfra. Í ræðu sinni sagði Björgólfur orðrétt:

Forsætisráðherra kynnti í október síðastliðnum skýrslu um hvernig koma mætti á fót öflugri alþjóðlegri fjarmálastarfsemi á Íslandi. Þar kom fram að gagnsæi í reglum og jákvæð viðhorf til alþjóðlegra markaða og fjárfesta skipti miklu máli við uppbyggingu á slíkri starfsemi og kom einnig fram að “... grundvallaratriði fyrir því að varanlegur árangur náist er að lög og reglur sæti ekki fyrirvaralitlum grundvallarbreytingum...”, - eins og þar segir orðrétt. Því skýtur það skökku við að fjármálaráðherra skuli í febrúar, eða eingöngu þremur mánuðum síðar, fyrirvaralaust breyta og þrengja reglur varðandi uppgjör fjármálafyrirtækja í alþjóðlegri mynt og setja án rökstuðnings skilyrði sem erfitt getur reynst að uppfylla. Svo virðist sem stefnu stjórnvalda um aukið frelsi í viðskiptum og minni afskipti ríkisvaldsins til sextán ára sé skyndilega snúið í gagnstæða átt, - án allra skýringa.

Við í Straumi-Burðarási skiljum ekki þau höft sem ríkisstjórnin ákveður að skella á íslensk fjármálafyrirtæki. Við skiljum ekki af hverju stjórnvöld skipta um skoðun á augabragði eftir sérstaklega farsæla og árangursríka uppbyggingu á alþjóðlegri fjármálastarfsemi á Íslandi í kjölfar þess að losað var um hömlur og ríkisafskipti.

Íslenskt stjórnvöld skulda fjármálafyrirtækjum trúverðuga skýringu á því hvers vegna Ísland sé fyrsta lýðræðisríkið á þessari öld til að taka upp gjaldeyrishöft á sama tíma og menn dreymir um að koma hér á fót alþjóðlegri fjármálamiðstöð? Hvers vegna þessi skyndilegu sinnaskipti?

Í stað efnislegra svara við spurningum atvinnulífsins kýs fjármálaráðherra að svara því til að fyrirtækjum sé frjálst að flytja sig þangað sem þeim sýnist og er þá væntanlega í leiðinni að svara Alcan. Slíkt frelsi er sem betur fer engin tíðindi enda viljum við tryggja veru fyrirtækja á Íslandi með því að bjóða þeim kjöraðstæður til að vaxa og dafna. Eins og gjarnan áður verður það væntanlega hlutverk jafnaðarmanna að afnema höft og tryggja viðskiptafrelsi atvinnulífinu og almenningi til hagsbóta. Hin blárauða varðstaða um afturhald sem við blasir eða krafa Framsóknar um að horfa ekki lengra en fjögur til fimm ár fram í tímann, boðar að minnsta kosti ekki mikla framsækni.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Straumur-Burðarás knúinn til að kanna möguleika á að fara til annars lands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikþáttur eða alvara? Auðlindanefnd rifjuð upp

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Umræða síðustu daga um að stjórnarskrárbinda þjóðareign á auðlindum hefur tekið á sig afar sérkennilegar myndir. Þegar Sigurður Líndal stígur fram og segir stjórnarskrárákvæði um þjóðareign merkingarlaust og Illugi Gunnarsson segir eign á óveiddum fiski nær ómögulega því verðmætin skapist með þekkingu og tækjum til að nýta auðlindina er eins og öll hin mikla vinna auðlindanefndar, ítarleg skýrsla hennar og sameiginlegar tillögur sé gleymt og grafið. Allt í einu virðast menn vakna upp við merkingarlaust ákvæði í stjórnarsáttmála. En þetta ákvæði í stjórnarsáttmála á sér rætur í niðurstöðum auðlindanefndar. Þáverandi forsætisráðherra hafði gefið fyrirheit um slíkt ákvæði en við það var ekki staðið fyrir síðustu kosningar. Þess vegna var það ítrekað í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar sem enn á ný er að velkjast með málið.

Eiríkur Tómasson, hrl. og varaformaður auðlindanefndar fór ítarlega yfir málið á fundi hjá Samfylkingunni og er erindi hans birt í heild á vef Framtíðarhóps Samfylkingarinnar (word skjal). Þar kom margt fróðlegt fram og greinilegt að eitt af því sem mestu skipti var einmitt að ákvæði af þessu tagi yrði ekki merkingarlaust eins og sumir virðast hafa mestar áhyggjur af í dag.

Eiríkur sagði m.a.:

Segja má að þriðja form eignarráða samkvæmt íslenskum rétti sé almannaréttur, þar sem allir landsmenn hafa rétt til hagnýtingar á tiltekinni eign, innan lögmæltra marka, án þess þó að honum fylgi hefðbundinn einkaeignarréttur. Réttur sá, sem fyrir er mælt í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, verður líklega felldur undir þessa tegund eignarráða. Við almannarétt sem eitt afbrigði eignarráða verður hins vegar að gera þann fyrirvara, í ljósi dómafordæma, að hann sem slíkur nýtur að öllum líkindum ekki neinnar verndar sem eignarréttur í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, en öðru máli kann hins vegar að gegna um atvinnuréttindi sem honum tengjast.

Í því skyni að eyða þessari réttaróvissu og samræma um leið reglur um eignarhald á þeim náttúruauðlindum, sem ekki eru undirorpnar einkaeignarrétti, gerði auðlindanefnd það að tillögu sinni að tekið yrði upp nýtt form á eignarrétti, til hliðar við hinn hefðbundna séreignarrétt einstaklinga og lögaðila. Það heiti, sem varð fyrir valinu hjá nefndinni, er þjóðareignarréttur, þ.e. eignarréttur íslensku þjóðarinnar á þeim náttúruauðlindum og landsréttindum sem ekki eru þegar háð einkaeignarrétti.

Í sjálfu sér má segja að þessu nýja formi á eignarrétti fylgi sömu heimildir og talið hefur verið að felist í fullveldisrétti ríkisins. Sá er þó munurinn að með því að ofangreindar auðlindir og réttindi eru lýst eign þjóðarinnar er þar með girt fyrir að aðrir aðilar geti eignast beinan eignarrétt að þeim, t.d. fyrir hefð. Vegna þess að þjóðin er ekki lögaðili og þar með bær til að vera eiginlegur eigandi að lögum með sama hætti og ríkið er nauðsynlegt að kveða nákvæmlega á um það að handhafar löggjafar og framkvæmdarvalds, þ.e. Alþingi og stjórnvöld, fari með allar þær eignarréttarheimildir, sem í hinu nýja eignarformi felast, í umboði þjóðarinnar. Að öðrum kosti yrði eignarréttur þjóðarinnar merkingarlaus.

Áhyggjur Sigurðar Líndal og annarra eru sumsé engin ný sannindi og sérstök áhersla lögð á það í auðlindanefnd að mæta þeim. Enda lagði auðlindanefnd til meira en eitt einfalt þjóðareignarákvæði - tillaga hljóðaði upp á eftirfarandi þrjú ákvæði í stjórnarskrá:

Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar -og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.

Nú er stóra spurningin hvort öllu sé til haga haldið með hinu einfalda ákvæði sem nú er lagt til að taka upp:

Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila samkvæmt 72. grein. Ber að nýta þær til hagsbóta þjóðinni, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ekki skal þetta vera því til fyrirstöðu, að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum. 

Er þetta nægilega skýrt til að geta talist samhljóða niðurstöðu auðlindanefndar og stuðla þannig að sátt frekar en aukinni óvissu og deilum? Hefur það einhver önnur áhrif að vísa beint til 72. greinarinnar eins og nú er lagt til í stað þess að nota það orðalag sem auðlindanefnd lagði til? 72. grein stjórnarskrárinnar hljóðar svo: "Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi." 

Stóra spurningin er þó hvers vegna stór nefnd sérfræðinga lá yfir málinu árum saman, ástundaði víðtækt samráð til að ná sátt í málinu og skilaði viðamikilli skýrslu sem niðurstöðu ef það má svo semja um málið í bakherbergjum stjórnarflokkanna tveggja á nokkrum næturfundum?

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Þjóðareign í stað sameignar þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilboð um flýtimeðferð á nýjum jafnréttislögum

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Svona vinnubrögð eru til þess fallin að efla trú fólks á löggjafarsamkomunni. Þegar samkomulag næst um framfaramál eiga þingmenn að taka höndum saman um að ljúka þeim, óháð stjórnarmynstri eða flutningsmanni. Þessu tilboði hljóta aðrir þingflokkar að taka og best væri að nota til þess alþjóðlegan baráttudag kvenna sem er í dag.

Eitt af því sem líklega veikir hvað mest tiltrú fólks á Alþingi, sbr. ítrekaðar viðhorfskannanir þar um, er sú dapurlega staðreynd að oft virðist efnisinnihald þingmálanna skipta miklu minna máli en hver ber þau fram. Hér hefur sú hefð myndast að frumvörpum er skipt í þingmannafrumvörp og stjórnarfrumvörp og þau fyrrnefndu eiga ekki mikla möguleika. Séu málin nóg brýn er líklegra að fram komi stjórnarfrumvarp um efnið en að þingmannafrumvarpið fái framgang. Þegar stór hluti löggjafarstarfsins er kominn á hendur framkvæmdavaldsins og framgangur mála ræðst af flokkspólitískum hagsmunum frekar en eðli þeirra sjálfra verður niðurstaðan hið sorglega litla traust sem almenningur ber til löggjafarsamkomunnar.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Samfylkingin býður samstarf um samþykkt nýrra jafnréttislaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varðstaða um afturhald

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkur hafa sameinast um að ákvörðun um framtíðarstöðu Íslands gagnvart samstarfi Evrópuþjóða skuli byggjast á mati þessarra flokka á því sem þeir telja líklegast að aðild hefði í för með sér. Í stað þess að nota vinnu Evrópustefnunefndarinnar í að skilgreina og ná samstöðu um samningsmarkmið í aðildarviðræðum og leiða upplýsta umræðu um málið kemur fram gamalkunnug varðstaða um afturhald. Umfram allt má ekki láta reyna á aðildarviðræður og gefa þjóðinni sjálfri kost á að segja hug sinn. Ekki opna íslenskan fjármála- og tryggingamarkað fyrir virkri erlendri samkeppni neytendum og atvinnulífi til hagsbóta. Alls ekki vinna að markaðsaðlögun landbúnaðar og lægra matvælaverði til frambúðar.

En þegar leitað er að framtíðarsýninni verður færra um svör eins og áður hefur verið vikið að. Í síbreytilegum heimi þar sem vægi EES samninginn verður sífellt tvísýnna er óbreytt ástand ekki valkostur án einhverra virkra aðgerða. VG hefur sagt að hægt væri að þróa EES samninginn yfir í tvíhliða fríverslunarsamning en gleymir þá að taka með í reikninginn allt vísinda- og menntasamstarfið sem Íslendingar eru aðilar að, öll þau félagslegu réttindamál sem íslenskt launafólk hefur fengið í gegnum samstarfið eða gildi virkrar þátttöku í samfélagi þeirra þjóða sem standa okkur næst og við eigum mest viðskipti við.

Forsendurnar fyrir varðstöðunni eru að mestu gefnar: Að "engar líkur" séu að samist geti um yfirráð Íslendinga yfir fiskveiðistjórn innan lögsögunnar. Sérfræðingar sem um málið hafa fjallað eru ekki sammála um þetta atriði og aðeins ein leið fær til að fá niðurstöðu en hana má ekki skoða.

Athyglisverð er líka sú aðvörun að aðild að Evrópusambandinu þýði að Íslendingar glati réttinum til að gera sjálfstæða viðskiptasamninga við önnur ríki. Ætla mætti að þetta vægi nú þegar mjög þungt hér á landi. En þegar listinn yfir fríverslunarsamninga Íslands við önnur ríki er skoðaður á vefsíðu utanríkisráðuneytisins kemur í ljós að allir fríverslunarsamningar Íslands, utan samninga við Grænland og Færeyjar, tengjast annaðhvort EES aðildinni eða EFTA samstarfinu. Í því ljósi er líka athyglisvert að skoða upphaf áherslu EFTA á fríverslunarsamninga við ríki utan ESB. Á vef utanríkisráðuneytisins kemur einmitt fram að það voru fríverslunarsamningar ESB sem komu málinu á hreyfingu og markmið EFTA var að fylgja á eftir svo aðildarríki þess lentu ekki í lakari samkeppnisstöðu á nýjum mörkuðum sem ESB var að semja við:

"Ef ekkert hefði verið að gert af hálfu EFTA hefðu slíkir fríverslunarsamningar ESB- og AME-landanna leitt til þess að fyrirtæki í EFTA-ríkjunum hefðu haft verri samkeppnisaðsöðu á AME-mörkuðum en samkeppnisaðilar þeirra í ESB. Þess vegna ákváðu EFTA-ríkin í Gautaborg í júní 1990 að hefjast handa við að koma upp samhliða neti fríverslunarsamninga við AME-lönd til að koma í veg fyrir þessa samkeppnisröskun."

Þeir félagar Steingrímur J. Sigfússon og Björn Bjarnason geta væntanlega listað þau lönd og samtök sem Ísland leggur áherslu á að ná fríverslunarsamningum við sem ekki eru annað hvort þegar með slíka samninga við ESB ríkin eða samningar á döfinni?

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is VG og Sjálfstæðisflokkur gegn ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaboð Framsóknar: Ekki kjósa um framtíðarsýn

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Skilaboð formanns Framsóknarflokksins til kjósenda í grundvallarmálum á borð við aðild að Evrópusambandinu og fyrirkomulag gengismála eru að ekki megi kjósa um afstöðu flokka til þeirra nú heldur einhvern tímann síðar (væntanlega þegar stjórnarflokkarnir telja það tímabært). Ótti hans við umræðuna og kröfur um framtíðarsýn er skiljanlegur. En það er furðuleg skammsýni að segja berum orðum að "langtímaákvarðanir" um "breytta stefnu" séu "ekki tímabærar nú" og vísa í því sambandi til þess að það muni taki fjögur til fimm ár að koma aftur á jafnvægi og stöðugleika í efnahags-, atvinnu- og gjaldeyrismálum eftir núverandi ríkisstjórn.

Fjögur til fimm ár eru ekki langur tími og ef Íslendingar ætla að taka ákvarðanir varðandi ESB á eigin forsendum þarf að undirbúa þær strax á næsta kjörtímabili. Skilgreining samningsmarkmiða og sátt um þau er ferli sem tekur tíma. Samráð við aðila í atvinnulífi og samspil atvinnustefnu og markmiða Íslands er ferli sem tekur tíma. Svo þarf að kynna niðurstöðuna og gefa þjóðinni kost á að segja hug sinn með lýðræðislegum hætti.

Í ljósi þess að bæði Evrópusambandið og allt efnahags- og fjármálaumhverfið er líka að taka stöðugum breytingum er ábyrgðarlaust að tala eins og hægt sé að hafa "óbreytta" stefnu. Hver er sú "stefna"? Að fleiri fyrirtæki greiði atkvæði með fótunum þótt fjármálaráðuneytið reyni að girða fyrir það með vægast sagt hæpnum reglugerðum? Að sífellt erfiðara og dýrara verði að viðhalda EES samningnum eftir því sem aðilarþjóðum fjölgar og þeim fækkar sem muna yfirleitt eftir þeirri "aukaaðild" sem hefur reynst okkur svo vel hingað til en hve lengi enn ...?

Hverju ætla stjórnmálamenn að svara þeim hátæknifyrirtækjum á borð við líftæknifyrirtækin íslensku, sem eru að leita að erlendum fjárfestum og samstarfsaðilum og þurfa ekki aðeins að búa við hávexti og gengissveiflur heldur að sannfæra erlenda aðila um að bæta gengisáhættu ofan á alla aðra áhættu sem fylgir fjárfestingum í þessari grein? Samkeppnisstaða þeirra gagnvart fyrirtækjum á stærri myntsvæðum er sjálfkrafa skekkt. Ef það er markmið í sjálfu sér að halda í sjálfstæðan gjaldmiðil er lágmarkskrafan sú að því sé svarað hvernig tryggja eigi samkeppnishæfni atvinnulífsins hér. Atvinnutækifæri og erlend fjárfesting í álverum getur verið ágæt svo langt sem hún nær en svarar ekki til lengdar kröfum ungs fólks um nýsköpun og spennandi og arðbær störf í þekkingargreinum.

Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja kynntu í gær skýrslu bandaríska ráðgjafafyrirtækisins Strategro um umhverfi íslenska líftækniiðnaðarins. Þar koma fram margar mjög áhugaverðar og gagnlegar ábendingar sem t.d. Jón Sigurðsson mætti skoða vandlega.

Stjórnmálasamtök sem óttast fátt meira en að horft sé lengra en fjögur til fimm ár fram í tímann ættu að snúa sér að einhverju öðru en að vilja eiga þátt í að móta framtíð fyrir komandi kynslóðir.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Jón Sigurðsson: eigum að taka ákvarðanir varðandi ESB aðild á eigin forsendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stopp um "langt árabil"

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Hér hefur áður verið vakin athygli á því hve mikilvægt er að kjósendur standi frammi fyrir skýrum kostum og stefnu í umhverfis- og orkumálum til framtíðar. Óskýr svör í dag verða tap umhverfisins á morgun. Þegar boðuð er í samþykktri stefnu VG "stöðvun frekari stóriðju- og virkjanaframkvæmda um langt árabil" hlýtur það að kalla á svör um þýðingu þessa. Er verið að biðja kjósendur að ákveða núna að hætta með öllu frekari þróun í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi? Til hve langs tíma á slíkt að gilda? Gildir það óháð breyttum aðstæðum í atvinnu- og efnahagsmálum, nýjum nýtingarmöguleikum eða hvaða kaupendur að orkunni gefa sig fram?

Í eldri færslu hér á síðunni er að því vikið að til lengri tíma litið sé bæði einfalt og óskilyrt já eða nei við nýtingu orkuauðlindanna e.t.v. mesta ábyrgðarleysið gagnvart íslenskri náttúru til framtíðar. Hagsmunirnir af orkunýtingu og uppbyggingu hverfa ekki og ef aðstæður breytast, án þess að tækifærið hafi verið nýtt til að vinna heildstæða áætlun eins og boðuð er í Fagra Íslandi, hefjast sömu átökin með hálfgerðu sjálfdæmi orkufyrirtækjanna um virkjanakosti.

Þótt mörgum þyki nóg komið af uppbyggingu áliðnaðar á stuttum tíma vilja fæstir girða til frambúðar fyrir þau tækifæri sem endurnýjanleg orka getur skapað Íslendingum, ekki síst til að laða hingað mikilvæga erlenda fjárfestingu og þekkingu inn í atvinnulífið eins og bent er á í þeim drögum að sáttmála sem hér hefur verið varpað fram. Ef nálgast á erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi og samkeppnishæf rekstrarskilyrði sem neikvæða þætti er hætt við að boðað stopp verði ekki bara í orkunýtingu. Mikilvægast er að bera fram trúverðuga og framsækna stefnu í atvinnu- og nýsköpunarmálum og því kalli hafa jafnaðarmenn verið að svara.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is VG vill veita Jafnréttisstofu auknar heimildir til eftirlits með fyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

www.jafnadarstefna.com

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Drög að sáttmála stórs jafnaðarmannaflokks við kjósendur og hvatning til samstöðu jafnaðarmanna er nú komið á sér vefsvæði: www.jafnadarstefna.com. Við hvetjum alla til að undirrita og senda þennan tengil sem víðast.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


Landbúnaður til framtíðar - óbreytt ástand gengur ekki

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Helsta markmið þeirra sem móta landbúnaðarstefnuna er að verja óbreytt ástand. Sigrar landbúnaðarstefnunnar eru í samræmi við markmiðið, „varnarsigrar" um eins litlar breytingar og hægt er að komast upp með. Þessi taktík væri skiljanleg ef framtíð landbúnaðarins væri björt, rekstarskilyrðin í sveitum með ágætum og hagur neytanda góður. Þá gætu þeir sem guma sig af sigrum landbúnaðarstefnunnar með góðri samvisku skammað alla þá sem vilja aðra nálgun og brigslað þeim um andúð í garð bænda eða þekkingarskort. En er það staðan? Er innistæða fyrir þeim stóru orðum sem fallið hafa í garð þeirra sem hafa lagt til breytingar?

Ástandið í sveitunum er langt frá því að vera viðunandi og neytendur borga hærra matvælaverð en ásættanlegt er. Það er nefnilega ekki hægt að bjóða landbúnaði frekar en öðrum atvinnugreinum að búa við stefnu sem horfir til fortíðar í stað framtíðar. Íslenskur landbúnaður á betra skilið og það eiga íslenskir neytendur einnig. Landbúnaðurinn býr yfir sóknarfærum; fagþekking í greininni er mikil, þar starfar öflugt fólk og tækifærin til nýsköpunar og framþróunar eru mörg. Neytendur bera traust til framleiðslunnar, ferðaþjónustan er að eflast og bændur eru mikilvægur hlekkur í landgræðslustarfi svo nokkur mikilvæg atriði séu nefnd.

Meðal þess sem skoða þarf er að breyta lögum um framleiðsluna sjálfa þannig að bændur megi pakka vöru og selja á sambærilegan hátt og bændur í Evrópu. Stuðla þarf að frekari vöruþróun og nýsköpun í greininni. Ljóst er að óbreytt landbúnaðarkerfi ætti erfitt með samkeppni við innfluttar vörur frá verksmiðjubúum svo markmiðið hlýtur að vera að gera greininni kleift að sérhæfa sig og þróa annars vegar afurðir sem falla í flokk hágæðaafurða og áherslan er á uppruna, tengsl við einstök bú, hreinleika og gæði og hins vegar byggja upp mun stærri einingar sem geta keppt við magnframleiðsluna. Þegar markaðshvati er til hagræðingar og nýsköpunar geta líka opnast ný færi í útflutningi sem þykja e.t.v. fjarlæg í dag.

Það eru því allar forsendur fyrir að móta nýja stefnu, sem tekur bæði af hag neytenda og bænda. Stefnu sem miðar að því að feta sig frá fortíð til framtíðar, frá kerfi hafta og verndartolla til virkara samkeppnisumhverfis. Þannig er hægt að leyfa þeim sem starfa við landbúnað að njóta sín og lækka matvælaverð verulega. Um leið þarf að gefa bændum og launafólki í störfum tengdum landbúnaði eðlilegt svigrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum með auknum stuðningi í formi beinna greiðslna. Slíkar breytingar þurfa auðvitað að gerast í sem bestri sátt allra aðila.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


Framsækin atvinnustefna - framsækin fyrirtæki

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Alvaran á bakvið framsækna stefnu jafnaðarmanna í atvinnumálum, þar sem saman fer áhersla á náttúruvernd, samkeppnishæft starfsumhverfi og markvissa uppbyggingu hátækniiðnaðar, birtist meðal annars í því þegar frumkvöðlar framsækinna fyrirtækja og aðilar sem sinna sérstaklega samkeppnishæfni atvinnulífs og eflingu útflutningsgreina leggja starfinu lið. Þess má sjá dæmi hér á þessum vef og nýjasta dæmið er svo að Reynir Harðarson, stofnandi CCP og stjórnarmaður í Framtíðarlandinu hefur gefið kost á sér í 6. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík norður.

Í viðtalið við Morgunblaðið nefnir Reynir einmitt vilja til að búa ungum fyrirtækjum hagstæðari skilyrði sem eina af ástæðunum fyrir ákvörðun sinni. "Það er margt, nýtt, ungt og flott fólk í flokknum, með ferskar hugmyndir sem ég sé ekki hjá hinum flokkunum og sérstaklega ekki hjá mínum fyrrverandi flokki Sjálfstæðisflokknum," segir Reynir.

Til að fylgja stefnunni eftir og tryggja frjóan jarðveg fyrir ný og framsækin fyrirtæki, sem geta orðið grundvöllur verðmætasköpunar í framtíðinni, er afar mikilvægt að frumkvöðlarnir sjálfir séu í aðstöðu til að fylgja málum eftir og hafa áhrif á störf og stefnu jafnaðarmanna. Sköpunarkrafturinn og frumkvæðið sem býr í sprotunum í atvinnulífi þarf að rata inn í stjórnmálaumræðuna. Til þess er þessi bloggsíða m.a. sett upp og út á það gengur hvatning okkar og þau drög að sáttmála sem okkur virðist nú sem Samfylkingin sé að innsigla við kjósendur.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


Raunhæfar tillögur fyrir aldraða og öryrkja

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Jafnaðarmenn eru virkir við að kynna tillögur sínar og stefnu þessa dagana. Nú er röðin komin að málefnum aldraðra og lífeyrisþega. Eins og fyrri tillögur um Rammaáætlun um náttúruvernd, heildstæða atvinnustefnu með áherslu á eflingu hátækniiðnðar og lækkun matvælaverðs, hafa tillögurnar um kjarabætur til handa lífeyrisþegum mælst mjög vel fyrir enda blasir þörfin við.

Þegar Árni Gunnarsson mætti í Silfur Egils sl. laugardag til að segja frá þessari átakssíðu og hvatningunni sem hér er sett fram til undirritunar barst staða aldraðra einmitt í tal og hann sagði frá sterkri upplifun sinni af fundi með 60+ í Vestmannaeyjum. Hægt er að sjá spjallið á vefnum.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband