Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála
Birtist ekki framtíðarsýn stjórnmálaafla hvað skýrast í verkum þeirra, frekar en fögrum orðum eða hundruðum milljarða í kosningaloforð upp í ermar næstu þjóðþinga og ríkisstjórna?
Gagnatenging Íslands við umheiminn er orðinn raunverulegur flöskuháls fyrir framsækin fyrirtæki í upplýsingatækni. Vitað er að áhugi erlendra fyrirtækja á að byggja upp stórar gagnavistunarstöðvar á Íslandi fer vaxandi. Aðgangur að endurnýjanlegri orku, landrými og vel menntuðu vinnuafli, smæð samfélagsins og öryggi, m.a. gagnvart hryðjuverkum og jafnvel hið svala loftslag, eru allt atriði sem vega mjög þungt í samkeppnishæfni Íslands á þessu sviði.
En á meðan rottugangur í Skotlandi getur lamað helstu gagnatengingu Íslands við umheiminn er erfitt að hefjast handa við uppbygginguna. Þess vegna þarf annan Farice streng og það sem allra fyrst. Ákvörðun um hann teldist alvöru framlag til atvinnuuppbyggingar í upplýsingaiðnaði.
Þetta mál er búið að vefjast lengi fyrir núverandi stjórnvöldum og enn er beðið endanlegrar niðurstöðu þótt allar kannanir sem gerðar hafa verið og allir álitsgjafar úr atvinnugreininni sem hafa tjáð sig hafi verið samhljóða. (Kannski er það hið athyglisverða "catch 22" sem hefur setið í mönnum: Gagnaflutningsmagnið er margfalt það sem þörf er fyrir í dag svo nauðsynlegt er að fjölga viðskiptavinum til að auka umferðina og lækka kostnað. En viðskiptavinum verður varla fjölgað fyrr en öryggi er tryggt með tvöfaldum kapli og þar með stóraukinni gagnaflutningsgetu.)
Þess vegna vakti það talsverða athygli á nýafstöðu Sprotaþingi þegar fráfarandi þingmaður Hjálmar Árnason flutti munnlega þá tillögu til þingsins að ráðast nú þegar í að leggja nýjan Farice enda kostaði hann ekki nema um þrjá milljarða. Þetta var að sjálfsögðu samþykkt með lófataki.
Á það var fljótlega bent að fyrir nýgerðan Sauðfjársamning mætti sumsé leggja nokkra nýja Farice strengi. Sú ákvörðun um 20 milljarða verðtryggð útgjöld á næstu árum virtist ekki velkjast mjög lengi fyrir ráðherrum frekar en ýmis önnur útgjaldaloforð sem nú er orðið býsna erfitt að henda reiður á þegar kosningar nálgast.
Athyglisvert er samt að velta fyrir sér hvaða framtíðarsýn birtist í þessum gjörningum og bera hana saman við heildstæðar tillögur jafnaðarmanna um uppbyggingu hátækniiðnaðar sem einnar helstu vaxtagreinar Íslands á næstu áratugum. Í raun er Samfylkingin að leggja til að stjórnvöld eigi að taka tilboði atvinnulífsins um þriðju stoðina enda skynsamlegast að vinna slíka stefnumótun og verkefnaáætlun í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.
Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.2.2007 kl. 22:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.