18.2.2007
Hvað ætti ég nú að gera í dag?
Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála
Sumir segja að til séu tvær gerðir stjórnmálamanna. Annars vegar þeir sem vakna á morgnana og spyrja, "hvað langar mig nú að gera í dag" og fara svo og framkvæma það sem þeim dettur í hug. Á enska tungu hafa slíkir stjórnmálamenn stundum verið nefndir no-nonsence problem solver. Slíkir stjórnmálamenn sjá vandamálin og framkvæma án tafar eða án mikillar umhugsunar. Gallinn við þessa ágætu framkvæmdagleði er auðvitað sá, að oft eru afleiðingar aðgerðanna skelfilegar vegna þess að stjórnmálamönnunum skortir yfirsýnina og framtíðarsýnina, sem hverjum stjórnmálamanni er nauðsynleg.
Hinir hafa verið nefndir rationalískir stjórnmálamenn. Þeir vakna á morgnana og spyrja: "Hvernig ætti nú heimurinn að líta út", og fara síðan að leita að leiðum til að gera heiminn líkan því. Galli þessarar hugmyndafræði er sá að slíkum stjórnmálamönnum hættir til að geta illa svarað kröfum íbúanna fjótt og örugglega.
Eins og gefur að skilja eru báðar þessar tegundir stjórnmálamanna vondar en sem betur fer er þessi svartsýna sýn á stjórnmál ekki allskostar rétt, þótt hún eigi vissulega að miklu leyti við um núverandi stjórnvöld.
Kannski íslensku ráðherrarnir, sem virðast öllu ráða, hafi einhverntíma haft sýn á framtíðina. Vissulega hafa þeir ákveðið að rétt sé að draga úr jöfnunarhlutverki tekjuskattkerfisins og færa skattbyrðina neðar með raunlækkun skattleysismarka, skapa viðvarandi þenslu með risaframkvæmdum án þess að láta hagstjórnina vinna gegn afleiðingunum, styðja opinberlega við George W. Bush í hörmungastríði hans gegn hryðjuverkum, taka fé úr framkvæmdasjóði aldraðra til annarra verka en hann er ætlaður og svo framvegis. Kannski var þessi leið núverandi stjórnvalda byggð á einhvers konar framtíðarhugsun. Líklegra er samt að atorkan hafi byggst á framkvæmdagleðinni einni saman, þar sem afleiðingarnar voru látnar í léttu rúmi liggja.
Það á að vera krafa kjósenda að stjórnmálamenn geri grein fyrir sínum framtíðarmarkmiðum og leiðum að þeim. Það á að vera krafa að stjórnmálamenn lýsi markmiðum sínum og upplýsi kjósendur um hvernig þeir vilja sjá íslenskt samfélag næstu ár og áratugi. Það setur líka þá kröfu hinn almenna borgara að þeir fylgist með því hvort orð og efndir rími saman.
Framtíðarstefna íslenskra jafnaðarmanna er skýr. Hún byggist á því að allur almenningur hafi sem jöfnust tækifæri til að sækja sér menntun- og fá atvinnu við hæfi. Hún byggist á því að takmarka misskiptingu auðs og auðlinda og hún byggist á því að stjórnvöld misbeiti ekki valdi sínu gagnvart rétti einstaklingsins. Hún byggist á því að íslensk fyrirtæki fái tækifæri til að eflast og dafna á eigin verðleikum í jákvæðu starfsumhverfi.
Við sem stöndum að þessarri heimasíðu viljum leggja okkar af mörkum til að tryggja slíkri stefnu framgang og hvetjum því alla jafnaðarmenn til samstöðu. Jafnframt hvetjum við Samfylkinguna til að tryggja að ný ríkisstjórn jafnaðarstefnunnar láti verkin tala og bregðist hratt og örugglega við þeim vandamálum sem við blasa.
Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.2.2007 kl. 22:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.