Náttúruvernd og framsækin atvinnustefna verða að fara saman

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Fyrirsögn þessarar færslu er fengin að láni frá grein sem Árni Páll Árnason, frambjóðandi Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, birtir í DV í dag og á heimasíðu sinni. Þar fer hann aðeins yfir þá staðreynd hve marklaust það er að slíta umræðu um náttúruvernd, auðlindanýtingu og samkeppnishæft atvinnulíf úr samhengi:

Það er engin tilviljun að Samfylkingin er einn flokka um að hafa lagt fram heildstæða stefnu um náttúruvernd og auðlindanýtingu og átti jafnframt þær tillögur um eflingu sprotafyrirtækja og uppbyggingu hátækniiðnaðar sem röðuðu sér í 1. til 3. sæti á Sprotaþingi Samtaka iðnaðarins.

Náttúruvernd, auðlindanýting og samkeppnishæft atvinnulíf eru greinar af sama meiði.

Þessi sjónarmið jafnaðarmanna þurfa að fá aukið vægi í umræðunni. Við eigum að krefja jafnt þá sem sjá áluppbyggingu og stóriðju sem einu framtíðarsýnin sem stjórnvöld geta átt þátt í að láta rætast og hina sem boða ótímabundið og óskilyrt STOPP um framtíðarsýn, stefnu og aðgerðaáætlun. Annað er ábyrgðarleysi, ekki síst gagnvart komandi kynslóðum sem vilja búa í samfélagi lífsgæða og spennandi og skapandi atvinnutækifæra.

Árni Páll bendir á þá athyglisverðu staðreynd að það er einn helsti styrkur stefnunnar Fagra Ísland að vera niðurstaða samræðu milli náttúruverndarsinna og þeirra sem eru að axla ábyrgð á því erfiða verkefni að skapa grundvöll að tryggum lífskjörum og atvinnu í byggðalögum sínum. Í stað þess að tala niður til fólks af yfirlæti hinna "flekklausu" er verkefnið að ná samstöðu þar sem náttúran nýtur vafans og mótuð er rammaáætlun um náttúruvernd sem heldur til framtíðar.

Enda ætlar varla nokkur að Íslendingar séu að taka um það ákvörðun í maí nk. að stöðva um alla framtíð nýtingu orkuauðlinda sinna. Hvorki jafnaðarmenn, Framtíðarlandið né Ómar Ragnarsson og aðrir "hægri grænir" ganga svo langt enda ábyrgðarleysi eða barnaskapur eins og Árni Páll bendir á í grein sinni:

Það er barnaskapur og í versta falli ábyrgðarleysi að ætla þjóðinni það í komandi kosningum að ákveða að stöðva nýtingu orkuauðlinda sinna um alla framtíð. Við munum áfram þurfa að nýta orkuauðlindir okkar til verðmætasköpunar, eins og aðrar auðlindir. Þekking Íslendinga á sviði endurnýjanlegrar orku er að verða verðmæt útflutningsvara. Nýir nýtingarkostir geta komið upp og kaupendur á borð við framleiðendur sólarrafhlaðna hafa þegar sýnt íslenskri orku áhuga en skortur á efni til þeirra er einn stærsti þröskuldurinn í vegi stóraukinnar nýtingar sólarorku.

Málið snýst um nýta þá sátt sem nú er að nást um forgangsröðun í þágu náttúrunnar og þá þenslu sem ríkir til að staldra við og klára afar brýnt verkefni. Því tækifæri má ekki klúðra með yfirboðum og dýpkun þeirra átakalína sem þegar rista of djúpt.

Það má vel vera rétt ábending hjá Samtökum atvinnulífsins að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafi ekki reiknað til hins ítrasta allan mögulegan peningalegan ávinning Hafnfirðinga af stækkun álversins en stofnunin tekur sjálf fram að þar sé heldur engin tilraun gerð til að leggja mat á beinan eða óbeinan kostnað vegna tapaðra náttúrugæða eða aukinnar mengunar. En það eru einmitt þau reikningsskil sem vaxandi hluti Íslendinga og raunar fólks um allan heim, er farinn að vilja sjá með þegar dæmin eru gerð upp. Hugsanlega olli Kárahnjúkavirkjun þeim straumhvörfum og sinnaskiptum hjá almenningi sem raun ber vitni og gat beinlínis af sér öflugar fjöldahreyfingar á borð við Framtíðarlandið af því að fólk hrökk upp við öll þau verðmæti sem hvergi voru með í útreikningunum, hvorki náttúran sem slík, kostnaður heimila og fyrirtækja vegna ruðningsáhrifa, né annað af þeim meiði.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Segir Hagfræðistofnun vanmeta tekjur Hafnarfjarðar af álveri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öflugar konur leiða nú þrjá af Norrænu jafnaðarflokkunum

Mona Sahlin, Helle Thorning-Schmidt og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir axla allar þá ábyrg að bera áfram merki þeirrar jafnaðarstefnu sem hefur öðru fremur mótað samfélög Norðurlandanna og tryggt þeim þá eftirsóknarverðu stöðu að teljast með samkeppnishæfustu og framsæknustu samfélögum heims sem oft er litið til sem fyrirmyndar á sviði jafnréttis og velferðar.

Sterk staða hinna norrænu jafnaðarsamfélaga er meðal annars staðfest í alþjóðlegum samanburðarrannsóknum virtra alþjóðastofnana á borð við IMD í Sviss og World Economic Forum. Í nýjustu samanburðarskýrslu World Economic Forum; The Global Information Technology Report 2006-2007, er beinlínis spurt: "What is the secret of the Nordic countries that consistently keeps them at the top of the rankings year on year?"

Norðurlöndin raða sér nær undantekningarlaust meðal 10 eða 15 samkeppnishæfustu samfélaga heims í skýrslum World Economic Forum; Global Competitiveness Report og World Competitiveness Yearbook frá IMD.

Þegar grannt er skoðað er það fyrst og fremst hin tvíþætta áhersla jafnaðarmanna á öflugt atvinnulíf og athafnafrelsi einstaklinga annars vegar og jöfn tækifæri og réttindi allra hins vegar. Þannig er hægt að byggja upp samheldin samfélag með sterka innviði, góða heilsu og menntun og lágmarkssóun auðlinda sem stafar af t.d. misrétti kynja.

Vísbendingar síðustu ára um að leiðir Íslendinga og jafnaðarsamfélaganna á Norðurlöndunum eru grafalvarlegar. Verkalýðshreyfingin og öflug málefnaforysta íslenskra jafnaðarmanna, m.a. í að velferðarmálum, húsnæðismálum, fríverslunarmálum og alþjóðasamningum á borð við EES hefur haft gífurlega mikilvæg mótandi áhrif á íslenskt samfélag og þar hefur samstarfið við jafnaðarflokkana á Norðurlöndum skipt máli. Fréttir þess efnis að hér á landi sé að vaxa úr grasi heil kynslóð barna með ónýtar barnatennur vegna verðlags og skipulags þeirrar heilbrigðisþjónustu hljóta að vera okkur áminning.

Sá kraftur sem einkenndi aukaþing sænskra jafnaðarmanna er innblástur og teikn á lofti að sænskir kjósendur hafi vart vaknað upp við stjórn hægriflokkanna á kjördag áður en þeir fóru að iðrast.

Hér á landi höfum við allt að vinna næstu vikurnar eins og átakshópurinn um heilbrigða skynsemi í stjórnmálum bendir á á vefsíðunni www.jafnadarstefna.com.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Ingibjörg Sólrún heiðursgestur á landsfundi sænskra jafnaðarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágúst Ólafur hafði það - Fyrningarfrestur kynferðisbrota gegn börnum afnuminn

Það er við hæfi að óska Ágústi Ólafi Ágústssyni, varaformanni Samfylkingarinnar, til hamingju í dag, annars vegar með þrítugsafmælið og hins vegar með að hafa komið í höfn sínu fyrsta þingmáli: Afnám fyrirfresta alvarlegra kynferðisbrota gegn börnum. Eina undrunarefnið er í raun að Alþingi skyldi ekki hafa tekið málinu fagnandi og afgreitt miklu hraðar um leið og þingmaðurinn ungi flutti frumvarpið.

Ekki þarf að hugsa lengi um eðli þessara brota, og þá staðreynd að oft líða mörg ár þar til fórnarlömb treysta sér loks til að tjá sig um hina hræðilegu lífsreynslu, til að sjá hve mikil réttarbót er hér á ferð.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Fyrningarfrestur á kynferðisafbrotum gegn börnum afnuminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að ná þingmeirihluta um vitræna Evrópuumræðu

Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, í ræðu á Iðnþingi í dag:

Er ekki rétti tíminn einmitt kominn á Íslandi fyrir vitræna umræðu um Ísland og Evrópu með ákvörðun - af eða á - að markmiði? Er sá tími ekki strax eftir kosningarnar 12. maí? Við lítum þannig á að þessi mál eigi að leiða til lykta á næsta kjörtímabili. Það er sú krafa sem við gerum til þeirra sem verða kjörnir til setu á Alþingi í vor og til þeirrar ríkisstjórnar sem þá verður mynduð. Ef góður meirihluti næst á Alþingi fyrir því að láta reyna á aðildarumsókn á grundvelli skilgreindra samningsmarkmiða og sé atvinnulífið og verkalýðshreyfingin því fylgjandi – þá á að láta til skarar skríða fyrr en seinna.

Í ljósi þess að Samtök iðnaðarins hafa enn á ný frumkvæði að Evrópuumræðunni er heldur ekki úr vegi að benda á sérkennilegan annmarka á skýrslu Evrópunefndar um tengsl Íslands og Evrópusambandsins.

Þar eru sérkaflar um "Íslensk sjávarútvegsmál og Evrópusambandið" og "Evrópusambandið og íslenskur landbúnaður" þar sem farið er yfir kosti og galla og mögulega útkomu úr aðildarviðræðum. Þarna er hins vegar enginn kafli um "Íslenskan iðnað og Evrópusambandið" eða "Íslenskar þjónustugreinar og Evrópusambandið", hvað þá "Íslenskir neytendur og Evrópusambandið" þar sem reynt væri að leggja heildstæðara mat á kosti og galla fyrir íslenskt atvinnulíf og heimilin í landinu.

Samkvæmt sameiginlegum útreikningum hagfræðinga Samtaka iðnaðarins og Alþýðusambands Íslands er áætlaður kostnaður Íslendinga við að reka sjálfstæðan gjaldmiðil um hálf milljón króna á hvert heimili árlega eða um 37 milljarðar í allt.

Í niðurlagi ályktunar Iðnþings 2007 segir:

Samtök iðnaðarins krefjast þess að Alþingi sem kjörið verður í vor og  næsta ríkisstjórn taki aðild Íslands að Evrópusambandinu til alvarlegrar skoðunar og komist að niður­stöðu á kjörtímabilinu. Ná þarf sem víðtækastri samstöðu meðal stjórn­mála­flokka, samtaka atvinnu­rekenda og launþega um stefnu þjóðarinnar í Evrópumálum. 

Hvernig er hægt að segja að málið sé ekki á dagskrá?

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Umræða um ESB óviðunandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill stuðningur við aðildarumsókn að ESB kemur ekki á óvart

Frá því þessi könnun Samtaka iðnaðarins um stuðning við aðildarumsókn að ESB var gerð kom út skýrsla Evrópunefndar um tengsl Íslands og Evrópusambandsins sem mun líklega auka mjög stuðning við að hefja markvissan undirbúning aðildarumsóknar þar sem sýnt er að flestar stærstu hindranirnar sem andstæðingar hafa bent á eru mjög líklega yfirstíganlegar.

Hér er rétt að rifja upp þau drög að sáttmála stórs jafnaðarmannaflokks við kjósendur sem birt eru á vefnum jafnadarstefna.com:

Stefna verður markvisst að því að Ísland uppfylli allar kröfur Evrópusambandsins um jafnvægi, lága verðbólga og lítinn viðskiptahalla sem eru forsendur þess að geta gengið í myntbandalag Evrópu og tekið upp Evruna sem gjaldmiðil eða lagað fjármálamarkað okkar betur að fjármálamarkaði umheimsins. Þá eigum við raunverulegt val um framtíðarstefnu okkar auk þess hags sem almenningur og fyrirtækin hafa af jafnvægi og vaxtastigi sem er meira í takt við helstu viðskiptalönd en nú er. Heilbrigð skynsemi segir okkur að Evran ein og sér sé engin endanleg töfralausn á íslenskum hagstjórnarvanda. Áfram þarf að gæta jafnvægis en kostirnir fyrir íslenskan almenning og atvinnulíf yrðu ekki síst þeir að opna hagkerfið og samfélagið enn frekar fyrir heilbrigðri samkeppni á sviðum sem nú er mjög erfitt að koma slíku á, auðvelda fyrirtækjum að afla erlendra fjárfestinga og spara milljarða í gjaldeyriskostnað. Í lokin verður svarið við spurningunni pólitískt en ekki tæknilegt og kjósendur verða að fá að svara henni sjálfir fyrr eða síðar.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is 57,9% hlynnt aðildarviðræðum við Evrópusambandið samkvæmt könnun SI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn ætti heldur að biðja fjármálaráðherra að afnema rakalausa reglugerð

Án þess að ætla að svara fyrir viðhorf Ögmundar Jónassonar til fjármálaþjónustu verður að benda á hve skemmtilega fráleitur þessi hræðsluáróður Framsóknarmanna er gagnvart Samfylkingunni í ljósi þess að frambjóðendur hennar hafa m.a. bent á þau mistök sem fjármálaráðherra gerði með setningu rakalausrar reglugerðar um uppgjörsmynt fyrirtækja. Hér hefur einnig verið bent á mikilvægi þess að menn tali bæði af virðingu og þekkingu um málefni fjármálaþjónustunnar.

Líklega er litli leikflokkurinn í leit að nýju handriti eftir að auðlindaákvæðiseinþáttungurinn var púaður niður af sviðinu.

En bloggarar Framsóknar eru enn að fara með samræmda spunann þótt enginn trúi. Best að birta nokkur dæmi hér til hægðarauka fyrir þá stuðningsmenn litla leikflokksins sem ekki hafa enn farið með sínar replikkur á bloggsíðum eða í samtölum við fólk. Meginstefnið er annars vegar að ganga á bak orða sinna og hins vegar nefna Össur Skarphéðinsson:

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


mbl.is Þingmenn stóryrtir í upphafi þingfundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Fokkun" samninga eftir ráðuneytum

Í efnisyfirliti samantektar Ríkisendurskoðunar hefur fallið burt L svo þarna verður til ný merking eins og í smásögu Þórarins Eldjárns þar sem niðurstaðan varð "Vísindin efa alla dáð".

Samantektin er í sjálfu sér góð, einkum ábendingarnar um breytt og bætt vinnulag í lokin en til þess að hún segi okkur einhverjar raunverulegu sögu þarf tvennt til sem hér með er óskað eftir:

  1. Samanburður á fjölda og heildarupphæðum skuldbindandi samninga milli ára, helst nokkur ár aftur í tímann.
  2. Stutt útlistun á vinnuferlinu við gerð stærstu samninganna, þ.e. hvernig ferlið fellur að þeim öguðu vinnubrögðum sem Ríkisendurskoðun vill viðhafa.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála 


mbl.is Ráðuneytin gerðu 195 skuldbindandi samninga árabilið 2006-2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitin að blóraböggli fyrir klúður stjórnarflokkanna

Athygli vekur hve ólíkar skýringar stjórnarliða eru á því að hinu ónýta auðlindaákvæði í stjórnarskrá hefur verið ýtt til hliðar. RÚV hefur eftir Birgi Ármannssyni að það hafi bæði verið andstaða meðal stjórnmálamanna og sérfræðinga sem réði á meðan Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins heldur áfram með sína rullu í leikþætti litla leikflokksins þótt þjóðin hafi fyrir löngu séð í gegnum það sjónarspil. Hjá honum heitir þetta svik stjórnarandstöðuna.

Morgunblaðið er ekki sammála honum og í leiðara í dag segir að stjórnarflokkarnir geti fráleitt kennt stjórnarandstöðu um málið. Blaðið segir að þau öfl innan Sjálfstæðisflokksins sem vinni að einkaeignarrétti útgerðar á auðlindum sjávar hafi haft sigur í þessu máli.

Skýringin er væntanlega sú að í stað þess að byggja á ítarlegum niðurstöðum auðlindanefndar var hlaupið í það bakvið luktar dyr að búa til afar óljóst og hugsanlega skaðlegt ákvæði fjórum dögum fyrir þinglok. Svoleiðis umgangast menn ekki lýðræðið eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir bendir á.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála 


mbl.is Ásakanir á báða bóga eftir frestun auðlindaákvæðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndarveruleiki Framsóknar gekk hvorki í þjóð né þing

Tilboð stjórnarandstöðunnar var um að festa ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum í stjórnarskrá, ekki taka þátt í örvæntingarfullum leikþætti Framsóknarflokksins þar sem búið er að henda til hliðar margar ára vinnu auðlindanefndar við skilgreiningar sem gæfu slíku ákvæði einhverja merkingu og innihald og bjóða í staðinn upp á ákvæði sem væri í besta falli tilefni endalausra deilna og óvissu um merkingu en í versta falli mun verra en óbreytt ástand.

Í þessu máli verður Jón Sigurðsson og flokkur hans að sitja uppi með skömmina af að ganga á bak þeirra orða í stjórnarsáttmála að setja eigi auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Gamli skólameistarinn ætti að sýna kjósendum í landinu meiri virðingu en svo að halda að svona sýndarveruleiki gangi upp.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála 


mbl.is Jón Sigurðsson: Stjórnarandstaðan gekk á bak orða sinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sáttmáli um stjórnsýslu í þágu atvinnulífs og þjóðareign auðlinda

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

 Í ljósi umræðu síðustu daga er rétt að rifja upp tvo kafla úr þeim drögum að sáttmála og hvatningu sem settur er fram á vefsíðunni Jafnaðarstefna.com. Auðlindaumræðan hefur nefnilega líka fleiri hliðar og snýr m.a. um þætti eins og eignarhald eða fjárfestingar erlendra aðila í útgerð:

Sátt um þjóðareign á auðlindunum

Stjórnarskárbinda verður sameign þjóðarinnar á auðlindum sínum, ekki síst fiskveiðiauðlindinni, og ljúka þeirri vinnu að tryggja þjóðinni eðlilegan afrakstur af nýtingu þeirra um leið og nytjaleyfum er úthlutað. Hvað varðar nytjastofnana í hafinu er þetta ekki bara réttlætismál fyrir allan almenning heldur er tryggð sameign þjóðarinnar og leikreglur um afrakstur forsendur þess að hægt verði t.d. að opna sjávarútveginn fyrir fjárfestingum erlendra aðila án þess að þar sé um leið verið að höndla með auðlindir þjóðarinnar. Erlent fjármagn fer nú krókaleiðir inn í greinina sem gæti svo sannarlega þurft á beinni fjárfestingu að halda. Sömu skýru reglur geta einnig skipt sköpum gagnvart sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins þegar til viðræðna kemur um aðild. Heilbrigð skynsemi segir okkur jafnframt að núverandi kerfi í sjávarútvegi verði ekki afnumið með einu pennastriki enda allt tal um slíkt ótrúverðugt. Bundnir hagsmunir í greininni og meðal launafólks um land allt eru alltof miklir fyrir töfralausnir. Þess vegna verðum við að vita hvert marmiðið er og setja niður áfangana í auðlindastefnunni svo enginn fari í grafgötur með hvert stefnir frá fyrsta degi nýrrar stjórnar jafnaðarmanna.

Sátt um eflda stjórnsýslu í þágu atvinnulífsins

Til að geta fylgt eftir heildstæðri atvinnu- og nýsköpunarstefnu til framtíðar þarf helst að sameina öll atvinnuvegaráðuneytin í eitt. Hólfun þeirra kallar ekki aðeins á togstreitu og sérhagsmunagæslu milli t.d. rannsóknastofnana og stuðningskerfanna heldur er hún í raun algerlega úrelt af því atvinnurekstur nútímans er byggður á margvíslegri sérþekkingu sem spannar hinar gömlu línur þvers og kruss. Heilbrigð skynsemi segir okkur að það séu engin efnisleg rök fyrir því lengur að aðskilja ráðuneyti iðnaðar og sjávarútvegs, eða viðskipta og landbúnaðar. Af hverju er ferðaþjónustan flokkuð með vegum og flugvöllum á meðan annar útflutningur er á sviði utanríkismála. Þetta verður að skoða, ekki bara með hagræðingu í huga heldur líka til efla allt starf ráðuneyta að atvinnumálum, einfalda eftirlits- og stoðkerfið og bæta þannig starfsumhverfi atvinnulífsins.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband