Hvað þýðir einfalt Já eða Nei fyrir umhverfið til framtíðar?

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Í huga margra snúast næstu kosningar að miklu leyti um umhverfis- og orkumál. Framtíðarsýn og skýr stefnumörkum í atvinnumálum verður varla skilin frá þeirri umræðu. Í ljósi þess hve mikilvægur þessi málaflokkur er vekur sérstaka athygli hve óskýr framtíðarsýn margra flokka er. Stjórnarflokkarnir fara fram án svara til kjósenda um stefnu sína í virkjana og stóriðjumálum. Hvað þýðir einfalt og opið Já við áframhaldandi vinnubrögðum stjórnarflokkanna fyrir umhverfið til framtíðar? En það er ekki síður athyglisvert að velta fyrir sér hvað einfalt Nei við frekari orkuvirkjunum þýðir fyrir umhverfi og atvinnumál til framtíðar. Ef einfaldri höfnun fylgir engin framtíðarsýn að öðru leyti er stórhætta á að umhverfið muni líðar fyrir það í framtíðinni.

Spyrja verður í því sambandi hvort raunhæft sé að biðja kjósendur að hafna frekari nýtingu orkuauðlinda landsins um aldur og ævi? Hve lengi á einfalt Nei að gilda og gildir það óháð aðstæðum? Heilbrigð skynsemi segir okkur að þeir hagsmunir sem liggja að baki orkuöflun og uppbyggingu henni tengdri gufa ekkert upp og aðstæður geta breyst, nýir orkukaupendur eða nýtingarmöguleikar geta komið fram. Ef sú samstaða sem nú er að myndast um að staldra við og ná sáttum í þessum málum er ekki nýtt til að ganga frá rammaáætlun um umhverfisvernd og nýtingu til framtíðar er hættan sú að þegar aðstæður breytast í framtíðinni, og hið einfalda Nei lætur undan síga, þá séum við í nákvæmlega sömu sporum og á undanförnum árum þegar orkufyrirtækin sjálf hafa meira eða minna sjálfdæmi um hvert þau sækja. Vegna þessa hefur til dæmis stefna Samfylkingarinnar Fagra Ísland hlotið lof og stuðning langt út fyrir raðir jafnaðarmanna.

Mikill meirihluti þjóðarinnar vill standa vörð um hálendið og náttúruperlur landsins og eftir þensluástand undanfarinna ára sem hefur bitnað  bæði á heimilum og sprotafyrirtækjum er að myndast víðtæk samstaða um að staldra við og móta framtíðarsýn sem heldur. Þetta tækifæri má ekki renna út í sandinn. Rammann um náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda verður að setja saman þannig að hann haldi til framtíðar. Kapphlaup um að einhverjir séu "hreinni" eða hafi siðferðilega yfirburði í umhverfisvitund yfir t.d. fólk út um land sem horfir til allra tækifæra til atvinnuuppbyggingar, skilar því miður litlu í því sambandi og er líklegra til að kljúfa raðir þeirra sem eiga að standa saman og bitna þar með á endanum á umhverfinu.

Vegna þessa dugir ekki einfalt Já eða einfalt Nei. Við þurfum bæði rammaáætlun sem heldur og ekki síður framtíðarsýn í atvinnumálum - svör við því hvernig atvinnulíf við viljum efla til framtíðar. Til viðbótar við þau augljósu sannindi að búa íslensku atvinnulífi samkeppnishæft starfsumhverfi og efla útflutning þarf atvinnustefnu sem miðar að því að byggja markvisst upp hátækniiðnað. Með virkum beinum og óbeinum stuðningi hins opinbera var byggður upp samkeppnishæfur og tæknivæddur sjávarútvegur og síðustu ár hefur áherslan verið á orkuöflun og stóriðju. Nú er röðin komin að hátækniiðnaðinum. Ungt fólk vill búa í þekkingarsamfélagi sem býður verðmæt störf og að því þurfum við að vinna.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


Hvað ætti ég nú að gera í dag?

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála 

Sumir segja að til séu tvær gerðir stjórnmálamanna. Annars vegar þeir sem vakna á morgnana og spyrja, "hvað langar mig nú að gera í dag" og fara svo og framkvæma það sem þeim dettur í hug. Á enska tungu hafa slíkir stjórnmálamenn stundum verið nefndir no-nonsence problem solver. Slíkir stjórnmálamenn sjá vandamálin og framkvæma án tafar eða án mikillar umhugsunar. Gallinn við þessa ágætu framkvæmdagleði er auðvitað sá, að oft eru afleiðingar aðgerðanna skelfilegar vegna þess að stjórnmálamönnunum skortir yfirsýnina og framtíðarsýnina, sem hverjum stjórnmálamanni er nauðsynleg.

Hinir hafa verið nefndir rationalískir stjórnmálamenn. Þeir vakna á morgnana og spyrja: "Hvernig ætti nú heimurinn að líta út", og fara síðan að leita að leiðum til að gera heiminn líkan því. Galli þessarar hugmyndafræði er sá að slíkum stjórnmálamönnum hættir til að geta illa svarað kröfum íbúanna fjótt og örugglega.

Eins og gefur að skilja eru báðar þessar tegundir stjórnmálamanna vondar en sem betur fer er þessi svartsýna sýn á stjórnmál ekki allskostar rétt, þótt hún eigi vissulega að miklu leyti við um núverandi stjórnvöld.

Kannski íslensku ráðherrarnir, sem virðast öllu ráða, hafi einhverntíma haft sýn á framtíðina. Vissulega hafa þeir ákveðið að rétt sé að draga úr jöfnunarhlutverki tekjuskattkerfisins og færa skattbyrðina neðar með raunlækkun skattleysismarka, skapa viðvarandi þenslu með risaframkvæmdum án þess að láta hagstjórnina vinna gegn afleiðingunum, styðja opinberlega við George W. Bush í hörmungastríði hans gegn hryðjuverkum, taka fé úr framkvæmdasjóði aldraðra til annarra verka en hann er ætlaður og svo framvegis. Kannski var þessi leið núverandi stjórnvalda byggð á einhvers konar framtíðarhugsun. Líklegra er samt að atorkan hafi byggst á framkvæmdagleðinni einni saman, þar sem afleiðingarnar voru látnar í léttu rúmi liggja.

Það á að vera krafa kjósenda að stjórnmálamenn geri grein fyrir sínum framtíðarmarkmiðum og leiðum að þeim. Það á að vera krafa að stjórnmálamenn lýsi markmiðum sínum og upplýsi kjósendur um hvernig þeir vilja sjá íslenskt samfélag næstu ár og áratugi. Það setur líka þá kröfu hinn almenna borgara að þeir fylgist með því hvort orð og efndir rími saman.

Framtíðarstefna íslenskra jafnaðarmanna er skýr. Hún byggist á því að allur almenningur hafi sem jöfnust tækifæri til að sækja sér menntun- og fá atvinnu við hæfi. Hún byggist á því að takmarka misskiptingu auðs og auðlinda og hún byggist á því að stjórnvöld misbeiti ekki valdi sínu gagnvart rétti einstaklingsins. Hún byggist á því að íslensk fyrirtæki fái tækifæri til að eflast og dafna á eigin verðleikum í jákvæðu starfsumhverfi.

Við sem stöndum að þessarri heimasíðu viljum leggja okkar af mörkum til að tryggja slíkri stefnu framgang og hvetjum því alla jafnaðarmenn til samstöðu. Jafnframt hvetjum við Samfylkinguna til að tryggja að ný ríkisstjórn jafnaðarstefnunnar láti verkin tala og bregðist hratt og örugglega við þeim vandamálum sem við blasa.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


Hávaxtaáþjánin - Rætur vandans og ábyrg umræða

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Það er ómótmælanleg staðreynd að bæði almenningur og atvinnulíf býr við okurvexti enda eru stýrivextir Seðlabankans nú 14,25% á meðan þeir eru í kringum 3-5% í helstu viðskiptalöndum. Okkur blöskrar flestum þessir háu vextir og stundum eru ástæðurnar jafnvel persónugerðar í græðgi bankastjórnanna þrátt fyrir að slík umræða sé ekki líkleg til að skila okkur neinum árangri af þeirri einföldu ástæðu að hún fjallar ekki um rót vandans.

Vænlegra er að grafast fyrir um það hvers vegna vextir hér eru svona miklu hærri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Nokkrar ástæður er vert að nefna. Sú fyrsta er að ríkisstjórnin hefur sýnt ábyrgðarleysi í hagstjórninni og í raun unnið gegn viðleitni Seðlabankans til að slá á þenslu. Þetta hefur leitt til þess að vextir Seðlabankans hafa hækkað mun meira en þeir hefðu að öðrum kosti þurft. Önnur ástæða er sú að við búum í litlu hagkerfi með sjálfstæða mynt. Slíkt kallar á hærri vexti en í stærri hag- og myntkerfum. Þriðja ástæðan er sú að það við þurfum kröftugri samkeppni á íslenska bankamarkaðinn. Það væri auðvitað æskilegt að hingað kæmu erlendir bankar og kepptu um innlend viðskipti enda væri samkeppnin holl fyrir íslensku bankanna og góð fyrir almenning. Því miður eru engar líkur á samkeppni erlendis frá á meðan krónan er gjaldmiðillinn okkar.

Við eigum ekki að hlífa bönkunum við gagnrýni en hana verður að setja fram af ábyrgð og þekkingu. Það þjónar engum tilgangi að ráðast með offorsi að þessari atvinnugrein. Við megum ekki gleyma því að fjármálaþjónustan er okkur dýrmæt og skilar þjóðarbúinu miklum verðmætum. Bankarnir högnuðust um 163 milljarða í fyrra og kom helmingurinn af tekjum þeirra erlendis frá. Skatttekjur ríkissjóðs af hagnaði bankanna nema hátt í 40 milljörðum. Fjármálaþjónusta er líka afar sérhæfð atvinnugrein sem kallar á vel menntað vinnuafl og sérþekkingu. Hún skapar vel launuð störf og er hvorki mengandi né íþyngjandi fyrir samfélagið að öðru leyti. Þar er það fyrst og fremst hugvitið sem er virkjað. Öflug fjármálaþjónusta er líka afar mikilvæg fyrir allt annað atvinnulíf sem þarf á fjármagni að halda til að eflast og nýta ný sóknarfæri.

Við eigum að skapa þessari atvinnugrein jákvæð og hagstæð rekstrarskilyrði eins og öðrum verðmætum atvinnugreinum sem byggja á menntun og sérþekkingu. Við eigum að sjálfsögðu ekki að líða henni samráð og okur frekar en öðrum atvinnugreinum og til þess beitum við samkeppnisyfirvöldum og fjármálaeftirliti. Eðlilegt er að krefjast þess að bankarnir, líkt og önnur fyrirtæki, bregðist við tilmælum samkeppnisyfirvalda og samtaka neytenda.

Kjarni málsins er sá að það á að vera sameiginlegt verkefni okkar að skapa þær aðstæður í íslensku efnahagslífi að bæði almenningi og fyrirtækjum bjóðist lán með sambærilegum kjörum og í helstu viðskiptalöndum okkar. Það er réttlætismál enda hávaxtabyrðin alltof þungur baggi að bera, hvað þá í verðbólgu á borð við þá sem við höfum þurft að þola alltof lengi vegna hagstjórnar síðustu ára og kostar venjuleg heimili nú þegar tugir þúsunda á ári í aukna greiðslubyrði.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


Mismunandi nálgun - Farice og sauðfjársamningur

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Birtist ekki framtíðarsýn stjórnmálaafla hvað skýrast í verkum þeirra, frekar en fögrum orðum eða hundruðum milljarða í kosningaloforð upp í ermar næstu þjóðþinga og ríkisstjórna?

Gagnatenging Íslands við umheiminn er orðinn raunverulegur flöskuháls fyrir framsækin fyrirtæki í upplýsingatækni. Vitað er að áhugi erlendra fyrirtækja á að byggja upp stórar gagnavistunarstöðvar á Íslandi fer vaxandi. Aðgangur að endurnýjanlegri orku, landrými og vel menntuðu vinnuafli, smæð samfélagsins og öryggi, m.a. gagnvart hryðjuverkum og jafnvel hið svala loftslag, eru allt atriði sem vega mjög þungt í samkeppnishæfni Íslands á þessu sviði.

En á meðan rottugangur í Skotlandi getur lamað helstu gagnatengingu Íslands við umheiminn er erfitt að hefjast handa við uppbygginguna. Þess vegna þarf annan Farice streng og það sem allra fyrst. Ákvörðun um hann teldist alvöru framlag til atvinnuuppbyggingar í upplýsingaiðnaði.

Þetta mál er búið að vefjast lengi fyrir núverandi stjórnvöldum og enn er beðið endanlegrar niðurstöðu þótt allar kannanir sem gerðar hafa verið og allir álitsgjafar úr atvinnugreininni sem hafa tjáð sig hafi verið samhljóða. (Kannski er það hið athyglisverða "catch 22" sem hefur setið í mönnum: Gagnaflutningsmagnið er margfalt það sem þörf er fyrir í dag svo nauðsynlegt er að fjölga viðskiptavinum til að auka umferðina og lækka kostnað. En viðskiptavinum verður varla fjölgað fyrr en öryggi er tryggt með tvöfaldum kapli og þar með stóraukinni gagnaflutningsgetu.)

Þess vegna vakti það talsverða athygli á nýafstöðu Sprotaþingi þegar fráfarandi þingmaður Hjálmar Árnason flutti munnlega þá tillögu til þingsins að ráðast nú þegar í að leggja nýjan Farice enda kostaði hann ekki nema um þrjá milljarða. Þetta var að sjálfsögðu samþykkt með lófataki.

Á það var fljótlega bent að fyrir nýgerðan Sauðfjársamning mætti sumsé leggja nokkra nýja Farice strengi. Sú ákvörðun um 20 milljarða verðtryggð útgjöld á næstu árum virtist ekki velkjast mjög lengi fyrir ráðherrum frekar en ýmis önnur útgjaldaloforð sem nú er orðið býsna erfitt að henda reiður á þegar kosningar nálgast.

Athyglisvert er samt að velta fyrir sér hvaða framtíðarsýn birtist í þessum gjörningum og bera hana saman við heildstæðar tillögur jafnaðarmanna um uppbyggingu hátækniiðnaðar sem einnar helstu vaxtagreinar Íslands á næstu áratugum. Í raun er Samfylkingin að leggja til að stjórnvöld eigi að taka tilboði atvinnulífsins um þriðju stoðina enda skynsamlegast að vinna slíka stefnumótun og verkefnaáætlun í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


Úr sáttmáladrögunum - Um jafnvægi

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Umræða um framtíðarskipan Íslendinga í gjaldeyrismálum, krónu eða evru, má ekki lenda ofan í þeim förum að málið sé ýmist hálfgert tabú því upptaka Evrunnar myndi þýða endanlegt framsal Íslendinga á eigin málum eða þá að hægt sé að taka upp Evru í einum grænum til að bregðast við bráðavanda í efnahagsmálum og uppskera að launum eilíft jafnvægi.

Í fyrsta lagi uppfylla Íslendingar eins og er ekki skilyrði Myntbandalagsins um jafnvægi, lága verðbólgu eða lítinn viðskiptahalla til að fá inngöngu í bandalagið. Verkefnið verður að vinnast þannig að fyrst þarf að koma á jafnvægi í hagkerfinu. Stjórnvöld verða t.d. að vinna gegn hagsveiflunum til að jafna þær út en ekki með þeim eins og Seðlabankinn, greiningardeildir bankanna, Samtök atvinnulífsins og samtök launafólks hafa verið óþreytandi að benda núverandi ríkisstjórn á síðustu árin. Þegar jafnvægi er náð er hægt að taka ákvörðun m.a. út frá þeim kostnaði sem almenningur og atvinnulífið ber bæði beint og óbeint vegna sérstaks gjaldmiðils, þeim þröskuldi sem lítill gjaldmiðill er gagnvart fjárfestingum erlendra aðila í litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi (sbr. þrautir margra sprota- og hátæknifyrirtækja við að fjármagna sig), þeirri samkeppnishindrun á mörgum sviðum sem krónan er, þeim hröðu breytingum sem hafa orðið á íslensku atvinnulífi á síðustu árum þar sem alþjóðleg þjónusta á borð við fjármálastarfsemi er mjög fyrirferðamikil, margvíslegum eignatengslum milli Íslands og Evrusvæðisins og upplýsingum um helstu útflutningssvæði. Það er e.t.v. ekki að ástæðulausu sem fréttir berast af því að í umræðum sérfræðinga og hagsmunaðila halli heldur á krónuna. Svo virðist líka sem fleiri og fleiri fyrirtæki séu að svara þessari spurningu hvert fyrir sig og flytja sig yfir í mynt sem er þeim hagfelldari. Því hefur m.a. verið haldið fram að eftir sitji almenningur með herkostnaðinn af krónunni.

Eitt af því sem skoða þarf er hvort líklegt sé að Ísland verði til framtíðar á sér róli í sínum hagsveiflum, þ.e. ef þær eru ekki aðallega knúnar áfram af einstökum risavöxnum innspýtingum erlendra fjárfestinga heldur almennu gengi útflutningsgreinanna og þess iðnaðar sem hér er hægt að byggja upp jafnt og þétt. Svo má líka velta fyrir sér að hve miklu leyti krónan sé að endurspegla raunveruleika íslensks atvinnulífs eða hvort stöku ríkisákvarðaðar framkvæmdir og útgáfa krónubréfa erlendis hreyfi hana mun meira.

Verkefnin við að viðhalda jafnvægi í hagstjórninni breytast ekki í grundvallaratriðum með upptöku Evru. En það verður að mörgu leyti að nálgast verkefnið öðruvísi. Þensluástandi með gífurlegri eftirspurn og viðskiptahalla verður ekki mætt með því að krónan gefi eftir, innfluttar vörur hækki í verði, verðbólga valdi almennri raunlækkun launa og þannig kólni hagkerfið. Í staðinn þarf aðrar aðgerðir og sumar þeirra gætu kallað á að mikið traust þurfi að ríkja milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.

En þegar allt kemur til alls verður spurningunni um stöðu Íslands í heiminum og aðild að Evrópusambandinu ekki svarað af tæknimönnum sem reikna svörin í krónum og aurum. Hún er í eðli sínu pólitísk og þegar jafnvægi hefur verið náð og leitað bestu svara við kostum og göllum fyrir almenning og atvinnulíf í landinu með því að láta reyna á samningsmarkmið Íslendinga, verður þjóðin sjálf að fá að svara. Svona er þessu lyst í sáttmáladrögunum hér á vefnum:

Stefna verður markvisst að því að Ísland uppfylli allar kröfur Evrópusambandsins um jafnvægi, lága verðbólga og lítinn viðskiptahalla sem eru forsendur þess að geta gengið í myntbandalag Evrópu og tekið upp Evruna sem gjaldmiðil eða lagað fjármálamarkað okkar betur að fjármálamarkaði umheimsins. Þá eigum við raunverulegt val um framtíðarstefnu okkar auk þess hags sem almenningur og fyrirtækin hafa af jafnvægi og vaxtastigi sem er meira í takt við helstu viðskiptalönd en nú er. Heilbrigð skynsemi segir okkur að Evran ein og sér sé engin endanleg töfralausn á íslenskum hagstjórnarvanda. Áfram þarf að gæta jafnvægis en kostirnir fyrir íslenskan almenning og atvinnulíf yrðu ekki síst þeir að opna hagkerfið og samfélagið enn frekar fyrir heilbrigðri samkeppni á sviðum sem nú er mjög erfitt að koma slíku á, auðvelda fyrirtækjum að afla erlendra fjárfestinga og spara milljarða í gjaldeyriskostnað. Í lokin verður svarið við spurningunni pólitískt en ekki tæknilegt og kjósendur verða að fá að svara henni sjálfir fyrr eða síðar.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


Skýr framtíðarsýn og atvinnustefna - Sprotaþing 2007

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Helsta skylda hvers stjórnmálaflokks er að svara því skýrt hvernig samfélag hann vill sjá í framtíðinni. Flokkar án skýrrar stefnu í atvinnumálum eru því að skila auðu. Í þessu ljósi var afar lærdómsríkt að vera þátttakandi í Sprotaþingi 2007 sem Samtök iðnaðarins og Samtök sprotafyrirtækja héldu í Laugardalshöllinni með miklum sóma 2. febrúar sl. Þarna komu saman um 200 fulltrúar vaxandi hátækni- og sprotafyrirtækja, rannsóknastofnana, háskóla og þingflokkanna til að ræða og meta efnislegar tillögur stjórnmálaflokkanna um aðgerðir til að efla hátækniiðnaðinn í landinu og bæta starfsskilyrði sprotafyrirtækja.

Aðeins einn flokkanna svaraði kalli atvinnulífsins um heildstæða sýn á það hvernig stuðla mætti að uppbyggingu öflugs hátækniiðnaðar á næstu áratugum með markvissri aðgerðaáætlun til 10 ára þar sem tekið var bæði á stuðningi og starfsumhverfinu. Enda fór það svo að í mati þingfulltrúanna röðuðu þrjár tillögur jafnaðarmanna sér í þrjú efstu sætin. Þar á eftir komu svo einnig ágætar tillögur stjórnarflokkanna um að auðvelda fyrirtækjunum ráðningar erlendra sérfræðinga, um stofnun auðlindasjóðs til eflingar rannsóknum og skattalega hvata til fjárfestingar í sprotafyrirtækjum. Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að Ísland verði áfram í fremstu röð hvað varðar skattlagningu atvinnurekstrar komst ekki á blað en skýringin gæti allt eins verið sú að fyrirtæki telji slíkt sjálfgefið og óþarft að kynna það sem sérstakt stefnumál.

Í tillögum Samfylkingarinnar var rakið hvernig beinar og óbeinar opinberar stuðningsaðgerðir og stefna hafa á undanförnum áratugum byggt upp öflugan sjávarútveg og síðar gífurlegar fjárfestingar í stórvirkjunum og áliðju. Nú er tímabært að stjórnvöld beini sjónum sínum og kröftum að hátækniiðnaðinum enda getur hann skilað miklum verðmætum eins og dæmin sanna. Heilbrigð skynsemi segir okkur að fara þá leið við að byggja upp samfélag framtíðarinnar frekar en boða stöku risaframkvæmdir til bjargar byggðalögum eða lýsa einfaldri andstöðu við öll uppbyggingaráform en skila að öðru leyti auðu í atvinnumálum til framtíðar.

Jafnaðarmenn eiga að gera sáttmála við bæði kjósendur og atvinnulífið um að fylgja skynsamlegri atvinnu- og menntastefnu eftir af festu og í nánu samráði við samtök fyrirtækjanna sjálfra. Engir vita betur en frumkvöðlarnir sjálfir hvað á þeim brennur. Samfylkingin hefur þegar fylgt atvinnustefnu sinni frá Sprotaþinginu eftir með sérstakri kynningu á Nýja atvinnulífinu.

Á Sprotaþinginu var fyrirtækið CCP formlega útskrifað úr Samtökum sprotafyrirtækja enda komið í svokallaða úrvalsdeild með veltu yfir milljarð króna. Þetta glæsilega þekkingarfyrirtæki, sem er nú komið í hóp með Marel, Össuri og Actavis, hlýtur að vera okkur öllum hvatning til að tryggja verulega fjölgun í úrvalsdeildinni á næstu árum.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


Úr sáttmáladrögunum - Atvinnustefna og jákvætt rekstrarumhverfi

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Heilbrigð skynsemi segir okkur að öflugt atvinnulíf sem skilar arði sé undirstaða bæði góðra launa og velferðarkerfisins. Þess vegna eiga jafnaðarmenn að láta rekstrarskilyrði atvinnulífsins sig miklu skipta sem og samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegu samhengi. Við getum ekki lengur tekið ákvarðanir hér á landi eins og það hafi engar afleiðingar þegar sagan sýnir að fyrirtæki flytjast milli landa með litlum fyrirvara.

Svo skemmtilega vill til að ótrúlega sterk staða Norðurlandanna í fjölþjóðlegum samanburði á samkeppnishæfni landa hefur orðið sérstakt umræðuefni spekinga í þeim fræðum. Sú gamla trú að öflugt velferðarkerfi hljóti að bitna á atvinnulífi og samkeppnishæfni reynist ekki standa skoðun. Það styrkir þvert á móti innviði samfélagsins í heild að hafa öflugt heilbrigðiskerfi, almannatryggingar sem tryggja að enginn sé skilinn eftir og draga þar með úr misrétti og ekki síst gott aðgengi að menntakerfi. Jafnrétti kynjanna er líka mikilvægur þáttur í að auka samkeppnishæfnina því misrétti veldur því að mikilvæg auðlind er ónýtt. Ef menn líta á þetta frá sjónarhóli heilbrigðrar skynsemi hlýtur að blasa við að heilbrigði, jafnrétti og menntun sé styrkleiki.

Í atvinnulífi nútímans er stefnan í menntamálum, rannsóknum og þróun, nátengd atvinnustefnunni. Þar er átaks þörf því það er ekki nóg að setja peninga í rannsóknir ef lítið kemst á legg af sprotafyrirtækjum og hátækniiðnaði. Við viljum vera hálaunaland og þekkingarsamfélag og þess vegna keppum við aldrei við láglaunasvæði heimsins í margvíslegri framleiðslu. Staða okkur ræðst því umfram allt annað af menntastiginu og hátækniiðnaði, vöruþróun og hönnun, sem hér þrífst.

Stjórn jafnaðarmanna á boða betri tíð og bætt starfsskilyrði atvinnulífsins í landinu. Hér á eftir fylgir því kaflinn um atvinnu-, mennta- og nýsköpunarstefnu úr sáttmálanum um heilbrigða skynsemi sem birtur er í heild hér á síðunni:

Unnin verði raunveruleg atvinnu-, mennta- og nýsköpunarstefna sem valkostur við stóriðjustefnuna. Áherslan á að vera á alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands, jákvætt rekstrarumhverfi þekkingarfyrirtækja og forgangsröðun rannsóknarfjár til skilgreindra vaxtargreina. Öflugir innviðir á borð við fjarskiptanet og samgöngur skipta atvinnulífið, ekki síður en íbúana líka miklu auk þess sem uppbyggingin verður að ná til fleiri svæða en Suðvesturhornsins. Heilbrigð skynsemi segir að það sé ekki neikvætt heldur jákvætt ef fyrirtæki á samkeppnismarkaði eru rekin með hagnaði því þannig skila þau þjóðarbúinu arði, byggja upp þekkingu og standa undir góðum lífskjörum. Þess vegna á að passa upp á og halda því sem vel hefur verið gert á undanförnum árum, t.d. í því að bæta starfsumhverfi fyrirtækja og efla samkeppnishæfni Íslands. Atvinnulífið allt verður að geta treyst því að stjórn jafnaðarmanna muni halda áfram að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækjanna í landinu því þau eru okkur lítils virði flytji þau burt. Ísland á alltaf að vera meðal topp 10.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


Úr sáttmáladrögunum - Umhverfisvernd og auðlindanýting

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Hér að neðan eru kaflarnir um umhverfisvernd og auðlindanýtingu úr sáttmálanum um heilbrigða skynsemi sem birtur er í heild á síðunni.

Umhverfisvernd og kröfunni um að hægar verði farið í stórvirkjanir í þágu áliðnaðar vex fylgi í öllum stjórnmálaflokkum. Þess vegna hlýtur að vera einstakt lag til að leggja grundvöll að skynsamlegri umhverfis- og auðlindastefnu ef þau öfl ná saman. Rammaáætlun um náttúruvernd á borð við þá sem lögð er til í Fagra Íslandi leggur upp einstakt tækifæri til að ná sátt meðal þjóðarinnar til framtíðar. Ekkert bitnar jafn hart á málstað umhverfisverndar og skynsamlegrar auðlindanýtingar og þegar umræðan leysist upp í keppni um hver sé mesti eða hreinræktaðasti umhverfissinninn. Á köflum verður það eins og atriði með "The Only Gay in the Village" úr þáttaröðinni Little Britain og allir sem séð hafa vita hvaða gagn Daffyd gerði réttindabaráttu samkynhneigðra.

Við viljum líka benda á að sumir eru að komast að sömu niðurstöðum með umhverfisvernd og auðlindanýtingu úr aðeins annarri átt en kjarni umhverfishreyfingarinnar, þ.e. út frá efnahags- og atvinnumálum og framtíðarmöguleikum Íslendinga á orkusölu til annars konar stóriðju.

Aðalmálið er að klúðra ekki því tækifæri sem nú gefst til að ná sátt um að setja ramma til framtíðar. Áframhaldandi átök og klofningur þjóðarinnar í hatrammar fylkingar getur virkað mjög lamandi á t.d. nauðsynlegt sameiginlegt átak til uppbyggingar hátækniiðnaðar.

Fagra Ísland og sú rammáætlun um náttúrvernd sem þar er boðuð verði hornsteinn umhverfisstefnu og auðlindanýtingar nýrrar ríkisstjórnar. Ástæðan fyrir þessari megináherslu er sú að það skiptir bæði náttúru landsins og kjósendur mestu að ramminn utan um verndun og nýtingu sé skýr. Heilbrigð skynsemi segir okkur líka að það sé ekki víst að allar þær framkvæmdir sem þegar eru komnar í gegnum matsferli og hafa jafnvel fengið starfsleyfi verði stöðvaðar í tíma, hvað þá að varpa ábyrgð á slíku á herðar sveitarstjórnarmanna sem glíma við ærin verkefni í atvinnu- og byggðamálum heima í héraði.

Rammaáætlun um náttúruvernd og nýtingu orkuauðlinda er ekki einungis brýnt umhverfismál heldur um leið skynsamleg atvinnustefnu á tímum þenslu og hækkandi orkuverðs í heiminum. Með henni skapast tækifæri til að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi með orkusölu til annars konar iðnaðar enda segir heilbrigð skynsemi okkur að hvorki erlend stórfyrirtæki né erlend fjárfesting í íslenskum iðnaði sé í sjálfu sér af hinu vonda. Við eigum þvert á móti að leggja allt kapp á að auka erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, ekki síst í hátækniiðnaði ýmis konar. Mikill meirihluti fólks telur að með skynsemi geti náttúruvernd og nýting farið saman en þá er skilyrðið að ramminn til framtíðar sé skýr svo við getum forðast slys fortíðarinnar.

Eitt af því athyglisverðasta sem fram kom í frábærum fyrirlestri Michael Porters, ljósmóður klasahugtaksins, um samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegum samanburði, var sú staðreynd að það er mjög veik eða nær engin fylgni milli hagsældar þjóða í nútímanum og náttúruauðlinda þeirra. Þjóðir sem treysta á mannauðinn, þekkingariðnaðinn og viðskipti standa sterkast að vígi. Porter bendi einmitt á að sú hætta geti verið fólgin í aðgangi að náttúruauðlindum að afrakstur þeirra sé að hluta notaður til að breiða yfir og greiða fyrir margvíslegt óhagræði og sóun í viðkomandi hagkerfum á meðan aðrar þjóðir hafi ekki efni á að burðast með slíkt. E.t.v. ættum við Íslendingar að fara gagnrýnið yfir það hvort um eitthvað slíkt sé að ræða hér í okkar hagkerfi.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


Heilbrigð skynsemi - Inngangur að sáttmáladrögunum

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála

Til að auðvelda umræður og "komment" á efni sáttmálans um heilbrigða skynsemi sem birtur er hér á síðunni heild sinni  er rétt að taka einstaka kafla og birta hér sem færslur. Fyrstur er inngangurinn sem útskýrir af hverju þessi sérstaka átakshópur er til orðinn og hverju hann vonast til að áorka.

Það er þægilegt hlutskipti að sitja í sófanum og fylgjast með stjórnmálunum í fjölmiðlum eins og kappleik þar sem við getum fagnað eða harmað, hvatt án þess að neinn heyri eða tuðað út í "okkar lið" og verið afskaplega vitur eftir á. Eini gallinn er að slíkt breytir engu um gang mála eða úrslitin.

Meginmarkmiðið með þessari síðu er einfaldlega að beina stjórnmálaumræðunni aftur að kjarna málsins, að hagsmunum almennings, neytenda í landinu og því sem raunverulegu máli skiptir. Þar viljum við leggja okkur lóð á vogarskálarnar og um leið og sáttmáladrögin eru hvatning til forystu og frambjóðenda jafnaðarmanna um að fylgja stefnu sinni og framtíðarsýn fast eftir er hann ekki síður hvatning til okkar sjálfra um að sitja ekki hjá og fylgjast með öðrum berjast fyrir okkar lífssýn heldur heita því að taka virkan þátt.  Þess vegna viljum við fá sem flesta til að undirrita hina gagnkvæmu hvatningu á þessari síðu.

Undirrita hvatningu
Drög að sáttmála


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband